Þar urðu margir strákar að mönnum - Jón Helgi Þórsson

Hver er maðurinn? Jón Helgi Þórsson

Hverra manna ertu? Af Krákustaðaætt. Sonur Ernu Ísfold Jónsdóttur ( á Hesti ) og Þórs Jóhannssonar.

Árgangur? 1959

Hvar elur þú manninn í dag? Ég bý í Tornby, lítill bær rétt fyrir sunnan Hirtshals sem liggur á norður Jótlandi í Danmörku.

Fjölskylduhagir? Giftur Halgerd Ingvarsdóttur Vang, ættuð frá Þórshöfn í  Færeyjum.

Afkomendur? Atli Jónsson f. á Íslandi 1980. Remy Jónsson Vang f. í Danmörku 1983. Linda Jónsdóttir Vang f. í Færeyjum 1989.

Helstu áhugamál? Útivist, ferðalög, matgerð og golf.

Við hvað starfar þú? Kokkur á uppsjávarskipi frá Hirtshals. Hef verið á þessu skipi síðan 1985.

Var um tíma á Færeysku laxa línuskipi og nótaskipi í Danmörku.

Ég er líka með eigið fyrirtæki www.torimport.dk þar er ég með netverslun og innflutning frá ýmsum löndum, m.a frá Íslandi.

Svona til gamans, þá fékk ég mína fyrstu sendingu af lambakjöti frá KS núna um daginn og er að vona að það sé ekki sú síðasta af þessu líka meiriháttar kjöti.

Hraðaspurningar, þær virka þannig að þú botnar upphaf setninga með því fyrsta sem þér dettur í hug.

Heima er .....................í litla gula húsinu mínu í Tornby.

Það er gaman.........................í góðra vina hópi.

Ég man þá daga er........................flestir strákar áttu veiðistöng og við stóðum daginn langan niðri í fjöru og veiddum silung. Strákarnir voru stundum soldið fúlir út í mig, sögðu að ég tæki alltaf besta veiðistaðinn, svo ég færði mig oftast til og leyfði þeim að komast að, en þá hafði besti veiðistaðurinn færst eitthvað til líka.

Og er safnað var í brennu með kerrunni sem Maggi sagði frá og bátar smíðaðir og siglt um fjörðinn fagra.

Þar má nefna eina ferð sem byrjaði í fjörunni fyrir neðan Dúða og áttum við að sigla beint yfir að hafnargarðinum. Nokkrir bátar voru með í förinni, við Heimir á okkar góða bát og svo man ég eftir Stebba Gísla. Hann var einn á frekar litlum báti og hafði hann fundið stærðar dýnu til að sitja á. Var svo ýtt úr vör og stefnan tekin á hafnargarðinn.

Komnir hálfa leið litum við til baka til að vita hvernig gekk hjá hinum, okkur brá heldur betur í brún, báturinn hjá Stebba var horfinn. Þarna sat hann á sjónum og réri á eftir okkur. Við fórum að honum og báðum hann að henda fjárans dýnunni, sem var búin að drekka svo mikinn sjó í sig að báturinn var kominn undir vatnsskorpuna. Gerði hann það svo, og viti menn báturinn kom þá upp eins og korktappi. Komum við heilir og höldnu á áfangastað.

Þetta voru góðir tímar.

Ein gömul og góð sönn saga..................Steindór Kristinn Steindórsson

Tíminn hjá Steindóri í áburðinum, fóðurblöndunni og uppskipun er eftirminnilegur og er hægt að segja margar sögur frá þeim tíma.

Þar urðu margir strákar að mönnum.

Eitt er víst, að ef Steindórs uppeldisaðferðir væru notaðar í dag, þá væri maðurinn settur bak við lás og slá, og lyklinum hent. En við strákarnir elskuðum Steindór og bárum mikla virðingu fyrir honum, hann var strangur, en réttlátur og þótti vænt um okkur strákana.

Ég man sérstaklega eftir að hann þoldi ekki að sjá menn með hendur í vösum, aumingjar, kallaði hann þá.

Einn vondan veðurdag snemma vors, vorum við strákarnir mættir út á bryggju, von var á áburðarskipi en það hafði tafist eitthvað. Klukkan var um 6 eða 7 að morgni, það var norðan strekkingur, frost og gekk á með éljum.

Við stóðum þarna á bryggjunni með Steindóri, 10-15 strákar á ca 14-16 ára aldri, stóðum þétt saman eins og hross í stórhríð, allir að drepast úr kulda og einhver með naglakul.

Enginn þorði að stinga höndunum í vasann, kallinn hafði örugglega auga með okkur.

Þó kom að því að (ónefndur) strákur sem var nýráðinn, þoldi ekki kuldann lengur og stakk höndunum djúpt niður í vasana.

Ekki leið á löngu að kallinn uppgvötvaði þetta mikla afbrot, snéri sér að kauða og skipaði honum að taka hendurnar úr vösunum.

Strákur: Nei, mér er svo kalt.

Kallinn: Taktu hendurnar úr vösunum strax eða þú ert rekinn

Strákur: Nei.

Kallinn: Farðu þá heim helv.... aulinn þinn.

Hann fór heim og var þetta í fyrsta og síðasta skiftið sem hann kom í vinnu hjá Steindóri.

Við hinir bara þögðum og skulfum meðan á þessu stóð, engin áhætta tekin á því að verða rekinn enda góður peningur við uppskipun.

Að endingu kom skipið svo í höfn og þurfti kallinn ekkert að ýta á eftir okkur að byrja að rífa upp úr dallinum. Allir vildu komast niður í lest sem fljótast, fá skjól og vinna sér til hita.

Hann sagði stýrimanninum um borð að þetta væru duglegir strákar sem í lestinni voru, en það þurfti bara að kunna að stjórna þeim.

Blessuð veri minning Steindórs.

Spurt frá síðasta viðmælanda.................... Jón, hvern sendum við niður á eftir þér? og voru kominn egg hjá krumma?

Svar............Það var hann Ingólfur Arnarson (Golli) og jú það voru komin egg hjá krumma.

Hvern vilt þú sjá svara þessum spurningum og hvaða spurningu myndir þú leggja fyrir viðkomandi?

Nafn.............Guðbjörg Björgvinsdóttir Hólm

Spurningin er..................Hvernig var að koma frá Hólmavík á Krókinn. Hvaða bekk komstu í og hvernig tóku við á móti þér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir