Stjörnuleikur og stórkostlegur söngur í Hárinu

Úr sýningu Leikflokks Húnaþings vestra á Hárinu. Myndir:Berglind Þorsteinsdóttir.
Úr sýningu Leikflokks Húnaþings vestra á Hárinu. Myndir:Berglind Þorsteinsdóttir.

Um leið og ég frétti að Leikflokkur Húnaþings vestra ætlaði að setja söngleikinn Hárið á svið var ég staðráðin í að láta þessa sýningu ekki framhjá mér fara. Enda hef ég verið mikill aðdáandi að söngleiknum til margra ára, horfði á kvikmyndina oft og ítrekað á táningsárunum og hef í ófá skipti sungið hástöfum með stórkostlegri tónlistinni úr söngleiknum við hin ýmsu tilefni. Söngleikurinn er eftir Gerome Ragni og James Rado, kvikmyndahandrit eftir Michael Weller en íslensk leikgerð er eftir félagana Baltasar Kormák og Davíð Þór Jónsson. 

Ég vissi ekki við hverju ég átti að búast fyrirfram, en var mjög forvitin að vita hvernig lítið áhugamannaleikfélag myndi ná að tækla þennan magnaða söngleik. Ljóst var að til að skila af sér flottri sýningu þyrfti ýmislegt að smella þar sem tónlistin er í aðalhlutverki í Hárinu, til þyrfti flotta söngvara, margar raddir, góðan hljóðfæraleik og gott hljóðkerfi. Hárið er einnig mjög sjónrænt verk og ákveðin áskorun fólgin í að ná áhorfendum inn í tíðaranda sjöunda áratugarins,  þegar skuggi Víetnamsstríðsins var alls ráðandi í Bandaríkjunum og hipparnir í New York ætluðu sér að breyta heiminum, stunduðu frjálsar ástir og fiktuðu við hugbreytandi efni. Ég vissi að Leikflokkurinn hefði reynsluboltann Sigurð Líndal Þórisson við stjórnvölinn, sem er m.a. menntaður í sviðslistum við Arts Educational London School of Drama og á að baki 20 ára starfsferil í leikhúslífinu í London. Einnig vissi ég að Greta Clough brúðulistakona sæi um leikmyndina en mér hefur þótt allt einstaklega fallegt sem hún hefur komið að. Ég var því mjög spennt og forvitin að sjá útkomuna. 

Það er greinilega gríðarlega mikil vinna sem hefur verið lögð í að setja þessa sýningu á svið og ljóst að margar hendur hafa komið þar að. Búið var að huga vel að allri umgjörð og m.a. útbúa áhorfendapalla í salnum. Sviðsmyndin var stílhrein og mjög vel heppnuð þar sem rýmið var vel nýtt af leikurum, sem og hljómsveit. Í sumum atriðum var vel völdum myndum varpað á vegginn til að magna upp atriðin. Lýsingin var greinilega úthugsuð og átti ríkan þátt í að auka á sjónræn áhrif og skapa réttu stemmninguna, sem og notkun reykvélar. Búningar, hár og förðun var einnig mjög grúví og hver leikari skartaði hippalúkkinu í botn. Í heildina bar sýningin mjög faglegan blæ þar sem hugsað var út í hvert smáatriði. 

Sýningin sjálf var fyndin, ögrandi, hneykslandi á köflum, sorgleg, átakanleg en í heildina stórskemmtileg og sjúklega flott. Það sem stendur uppúr er að um er að ræða stórkostlega tónlistarveislu, Hárs-aðdáandanum mér til ómældrar ánægju. Þarna var geggjaður hljóðfæraleikur og hljóðkerfið svakalegt og verulega þéttur og flottur hópsöngur sem fangaði Hárs-sándið fullkomlega og stórkostlegir einsöngvarar, þ.m.t. Kristinn R. Víglundsson, Guðjón Þ. Loftsson, Ingunn E. Rafnsdóttir, Ástrós Kristjánsdóttir og Valdimar Gunnlaugsson, til að nefna nokkra. Valdimar var í aðalhlutverki sem Berger og átti stjörnuleik (í orðsins fyllstu merkingu en þeir sem hafa séð sýninguna skilja hvað ég á við), en að öllu gamni slepptu og öðrum ólöstuðum þá var hann frábær í hlutverki Berger og með dásamlega söngrödd. Aðrir leikarar stóðu sig einnig mjög vel í sínu hlutverki og saman sköpuðu þau frábæra sýningu fyrir augu, eyru og hjarta. Einnig verð ég að minnast á falleg og vel samin dansatriði sem gerðu mikið fyrir heildina.    

Ég tek ofan fyrir hæfileikaríku fólki Leikflokks Húnaþings vestra sem hefur greinilega lagt allt í sölurnar til að skemmta og veita áhorfendum ánægju, sem þeim hefur svo sannarlega tekist að gera svo eftir verður munað. 

Ég hvet alla til að láta ekki þessa frábæru sýningu framhjá sér fara og skella sér á Hárið á Hvammstanga, og upplifa þar gæsahúð, hlátur og tár á sérlega grúví sýningu.  

Að lokum vil ég þakka æðislega vel fyrir mig - bravó og lengi lifi ljósið! 

Ást og friður,

Berglind Þorsteinsdóttir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir