Veturinn mun enda þegar vorið flæðir inn um gluggana

Það hefur sennilega ekki verið ónýtt að þeysa um snjóinn á vélfákum í þessu færi. Þessi sleðamaður fór upp Kristjánsklaufina á Króknum þegar ljósmyndari Feykis var á vappi í dag. MYNDIR: ÓAB
Það hefur sennilega ekki verið ónýtt að þeysa um snjóinn á vélfákum í þessu færi. Þessi sleðamaður fór upp Kristjánsklaufina á Króknum þegar ljósmyndari Feykis var á vappi í dag. MYNDIR: ÓAB

Það var talsverður veðurhvellur sem íbúar á Norðvesturhorninu máttu þola undir lok vikunnar með tilheyrandi ófærð og veseni. Dagurinn í dag var hins vegar hinn fallegasti þó kalt væri og næstu daga verður boðið upp á meiri kulda og norðanátt en allt útlit er þó fyrir skaplegt veður að öðru leiti.

Raunar gerir Veðurstofan ráð fyrir hressilegu frosti á Fróni að morgni þriðjudags eða allt að 15 stigum. Stöku éljabakki gæti gert vart við sig þegar líður á vikuna en föstudaginn langa má reikna með að hlýni og hitamælar fari að sýna rauðar tölur.

Nú eru flestir vegir vel færir á Norðurlandi vestra. Þó er varað við því að sums staðar á Þverárfjallsvegi er vegurinn einbreiður en það hlýtur að standa til bóta.

Það snjóaði mikið í stífu norðanáhlaupinu á Sauðárkróki á föstudaginn og hefur verið hamast við að moka og hreinsa götur bæjarins nú um helgina. Göngufæri er víða erfitt því snjórinn er mikill og grjótharður og háll þannig að það getur reynst erfitt að fóta sig.

Hér með fréttinni má sjá nokkrar myndir frá í dag sem teknar voru á Króknum og í Skagafirði. Fyrirsögnin er fengin að láni hjá Helga Bjöss ef einhver var að pæla í því.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir