Þóra Sigrún Kristjánsdóttir frá Óslandi - Minning

Árið er 1955. Hún var nítján ára við vinnu á Hólum þegar hún fékk þau skilaboð frá föður sínum að reyna að komast á Krókinn og heimsækja móður á sjúkrahúsinu. Hún vissi af ungum manni, sem átti bíl og bað hann að leyfa sér að sitja í næst þegar hann færi á Krókinn, sem var auðsótt mál. Þarna kvaddi hún móður sína sem lést stuttu síðar. Þegar henni var tilkynnt andlát móðurinnar slapp út úr henni «Æ það var gott» Og þessi orð fylgdu henni það sem eftir lifði og hún lifði í þeirri bjargföstu trú að dauðinn væri ekki það versta sem gæti hent þig í lífinu. Þegar kvölin er orðin svona mikil er dauðinn líkn. Enda lét hún gjarnan þau orð falla ef eldra fólk féll frá «Æ það var gott að hún/hann fékk að deyja». En ungi maðurinn sem átti bílinn varð síðar eiginmaður hennar til tæpra sextíu ára.

Mamma var fædd að Stóragerði 11. september 1936 en flutti tíu ára gömul í Ósland. Hún var annað barn foreldra sinna Kristjáns Jónssonar og Ingibjargar Kristínar Jónsdóttur. Margrét var elst fædd árið 1933, Jón fæddur árið 1942 og Svava árið 1949. Jón lifir nú systur sínar sem allar eru látnar. Hún lærði ung að lesa og las allt sem hún komst yfir sem barn. Ömmu hennar fannst reyndar ekki allt við hæfi barna sem hún var að lesa. Hún gekk í barnaskóla á Hlíðarhúsinu og tók gagnfræðapróf frá Gagnfræðskólanum á Sauðárkróki. Hún átti auðvelt með lærdóm og sérstaklega hafði hún gaman af stærðfræði sem þótti reyndar undarlegt á þessum árum að stúlka skyldi vera svona klár í stærðfræði. Það þótti víst ekki við kvenna hæfi. Hún sagði mér stolt frá því þegar hún eitt sinn rak kennara sinn á gat með stærðfræðidæmi. Hugur hennar stóð til frekara náms en örlögin ætluðu henni annað hlutverk. Síðan tók við gifting og barneignir. Á ellefu árum eignaðist hún sjö börn. Foreldrar mínir giftust árið 1957, bjuggu fyrst á Sauðárkróki uns þau fluttu í Ósland 1959.

Árið 1994 hættu þau búskap skiluðu af sér til næstu kynslóðar. Fluttu í Hofsós til að að njóta lífsins eftir að hafa komið upp öllum barnahópnum. En Adam var víst ekki lengi í Paradís því vorið eftir veiktist pabbi og var sjúklingur upp frá því. Þá fluttu þau á Sauðárkrók og þar gerði mamma honum kleift að búa heima í tæp sautján ár. Eða eins og hún orðaði svo snyrtilega «Maður hendir ekki bara maka sínum ef eitthvað kemur fyrir.» Hún dæmdi samt ekki aðra sem voru í svipaðri stöðu og fannst ekkert merkilegt þó þessi eða hinn gæti ekki haft maka sinn heima. Þegar á Krókinn var komið ræktaði hún gamlan vinskap við Önnu Þórðardóttur á einstakan hátt. Á hverjum miðvikudegi í mörg ár fór hún í bókasafnið með Önnu. Sá tími var frátekin og ekki notaður í annað nema í algerum undantekningartilfellum. Þá gerðist hún rithöfundur tæplega áttræð er hún aðstoðaði Önnu vinkonu sína við að gefa út æviminningar sínar. Þeir voru ófáir klukkutímarnir sem hún sat hjá Önnu og skrifaði upp eftir henni og fór svo heim og sló því inn í tölvuna sína. Úr varð bókin Lífsins skák.

Mamma var hvunndagshetja. Hún tók öllu sem lífið rétti henni með jafnaðargeði. Hún gerði gott úr því sem hún hafði og var ekki að velta sér upp úr því sem ekki var hægt. Hún kom upp sínum barnahóp, hugsaði um föður sinn meðan hægt var og síðar eiginmanninn eiginlega lengur en hægt var.

Mamma var sjálfmenntuð í mörgu. Þegar tölvuvæðing hófst þá lærði hún að nota slíkt tæki og sá um bókhald fyrir búreksturinn. Þegar pabbi tók að sér sveitarstjórastöðu í Hofsós tók hún það að sér með honum. Og þegar hann missti heilsuna þá sá hún um sveitarstjórastöðuna þangað til búið var að ráða nýjan. Hún aðstoðaði bændur við skattframtalsgerð og brosti gjarnan að því þegar bændurnir (karlarnir) mættu til að ganga frá skattskilunum og hún fór að spyrja þá spurninga þá þurftu þeir stundum að hringja í konurnar til að svara henni.

Eftir að á Krókinn var komið tók hún m.a. að sér afleysingastarf á skrifstofu Steinullar en vann svo lengst af við bókhald og reikningagerð hjá Sauðárkróksbakaríi. Við það vann hún fram yfir sjötugt.

Í byrjun árs 2021 flutti hún á dvalarheimili aldraðra á Sauðárkróki enda heilsan orðin léleg og hún sagði «Hvað á maður að vera að búa heima þegar maður getur ekkert hjálparlaust». Á dvalarheimilið flutti hún með tölvuna sína, sá um fjármálin sín nánast til hinstu stundar og leitaði að prjónauppskriftum á netinu. Hún var mikil handavinnukona og eiga margir ættingjar hennar vettlinga prjónaða af henni. Öll handavinna lék í höndunum á henni. Þá hafði hún alltaf einstakan áhuga á garðyrkju og fátt var það sem hún gat ekki komið til á því sviði. Á dvalarheimilinu naut hún frábærrar aðhlynningar og fæ ég seint fullþakkað starfsfólkinu þar einstaka natni og umönnun til síðustu stundar. Hún hélt fullri reisn andlega til hinstu stundar þó líkaminn væri orðinn lélegur. Síðustu vikurnar voru henni erfiðar eftir að hún axlarbrotnaði. Hún kvaddi sátt við Guð og menn eða eins og hún sagði ekki löngu áður en hún dó: «Ég er búin að gera allt sem ég þarf og nú er þetta orðið gott.» Hún hefur örugglega verið hvíldinni fegin.

Hvíldu í friði elsku mamma og hafðu þökk fyrir allt.
Ásta Ólöf Jónsdóttir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir