Rabb-a-babb 144: Eva Pandora

Nafn: Eva Pandora Baldursdóttir.
Árgangur: 1990.
Fjölskylduhagir: Trúlofuð Daníel Valgeiri Stefánssyni og eigum við dótturina Árney Maríu sem er fædd í September 2016
Búseta: Sauðárkrókur
Hverra manna ertu og hvar upp alin/n: Mamma mín heitir Pimpan Ushuwathana og er frá Tælandi og pabbi er Baldur Haraldsson múrari frá Hamri. Ég er bæði fædd og uppalin á Sauðárkróki en hef rætur bæði út í Sæmundarhlíð og Hegranesið í gegnum ömmu og afa.
Starf / nám: Ég er þingmaður en er í fæðingarorlofi frá vinnu núna og nýti þann tíma meðal annars til að klára nám í opinberri stjórnsýslu.
Hvað er í deiglunni: Ekkert sérstakt svo sem. Njóta þess að eyða tíma með fjölskyldunni á meðan ég er í fæðingarorlofi.

Hvernig nemandi varstu? Ég var ágætis nemandi og mér gekk vel í skóla. Ég held samt að það hafi ekki verið vegna þess að ég hafi verið eitthvað sérstaklega klár heldur þótti mér bara gaman að vera í skólanum og manni gengur sjaldnast illa í þeim verkum sem maður hefur gaman af.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Ég held ég hafi skipt svona um það bil tuttugu sinnum um skoðun hvað ég vildi verða. Ég hef alltaf verið þannig að ég fæ einhverja hugdettu og er mjög hvatvís að hrinda þeim í framkvæmd og sá eiginleiki hefur leitt mig í ótrúlegustu aðstæður og störf.

Hvað var uppáhalds leikfangið þitt þegar þú varst krakki? Það er ef til vill frekar vandræðalegt að upplýsa svona um þetta en það var gamalt slitið teppi (sem ég á enn) og snuddur. Ég var alveg sjúk í snuddur og hætti ekki almennilega með snuð fyrr en ég byrjaði í skóla. Pabbi þurfti að beita öllum sínum samningakröftum til að sannfæra mig að fara ekki með snudduna með mér fyrsta skóladaginn í 1. bekk.

Besti ilmurinn? Lyktin af barninu mínu.

Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? Avril Lavigne, Fall Out Boy, Maroon 5 og aðra álíka eðal tónlist.

Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu (fyrir utan fréttir)? Hið Blómlega bú og Heimsókn með Sindra.

Besta bíómyndin? Ómögulegt að nefna einhverja eina uppáhalds bíómynd en ég hef horft á þær nokkrar mjög góðar. Annars finnst mér skemmtilegra að lesa heldur en að horfa á sjónvarpið.

Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Skipuleggja.

Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? Þar verð ég eiginlega að viðurkenna vanmátt minn því ég er ekkert sérstaklega góður kokkur, sem mér finnst einstaklega leiðinlegt því ég elska að borða góðan mat.

Hættulegasta helgarnammið? Súkkulaði. Það einskorðast þó ekki aðeins á helgarnar.

Hvernig er eggið best? Soðið og snætt með avocado

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Ég er alveg ómöguleg í að þekkja andlit og muna nöfn og get stundum verið óttalega sjálfhverf.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Neikvæðni

Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun? Heyrði nýjan málshátt í sjónvarpsþáttunum Föngum um daginn og hefur hann verið í miklu uppáhaldi síðan en hann er „Skeinir sá sem skeit.“

Hver er elsta minningin sem þú átt? Þegar ég var að læra að reima og fékk að reima skóna hans pabba þegar hann fór út. Það var svo skemmtilegt því pabbi var alltaf í svona vinnuskóm með löngum reimum og fullt af krókum sem þurfti að leiða reimarnar í gegn. Þetta fékk barnið að skemmta sér við þrátt fyrir að pabbinn hafi örugglega mætt of seint í vinnuna á hverjum degi.

Hvaða teiknimyndapersóna höfðar mest til þín? Dóra úr Leitin að Nemó. Lífið er miklu skemmtilegra ef maður setur slæmu reynslurnar bara bakvið sig og heldur áfram að synda.

Hvaða fræga manneskja mundir þú helst vilja vera? Ahh mér finnst þessi spurning alltaf erfið því ég myndi helst ekki vilja vera nein önnur en ég er.

Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur? Ég er mest hrifin af ævintýrabókum og má þá helst nefna Harry Potter seríuna eftir J.K. Rowling, His Dark Materials eftir Philip Pullman, A Song of Ice and Fire eftir George R. R. Martin og Ísfólkið eftir Margit Sandemo.

Orð eða frasi sem þú notar of mikið? Eins og margir af minni kynslóð nota ég ýmis orðskrípi og sletti erlendum orðum sem gerir talmál oft illskiljanlegt. Ég er að reyna að vera meðvituð um þetta og hætta því.   

Hver var mikilvægasta persóna síðustu 100 ára að þínu mati? Tim Bernes-Lee sem kynnti til sögunnar The World Wide Web. Með tilkomu internetsins gat hver sem er nálgast upplýsingar um allt milli himins og jarðar og ég held að það sé eitt öflugasta tólið okkar á þessari upplýsingaöld sem við lifum.

Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? Ég er mjög heilluð af 18. og 19. öldinni og ef ég fengi tækifæri til þess væri ég alveg til í að skreppa þangað í frí þó ég myndi ekkert endilega vilja setjast þar að.

Hver væri titillinn á ævisögu þinni? „Með gleðina að vopni“. Ég er oftast nær mjög glaðvær og jákvæð manneskja og tek hvorki sjálfa mig né lífið alltof hátíðlega.

Framlenging:

Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu... með fjölskylduna í heimsókn til mömmu í Tælandi.

Ef þú ættir að dvelja alein/n á eyðieyju, hvaða þrjá hluti tækirðu með þér? Kindle rafbókina fulla af bókum, vasahníf og stórt drykkjarílát fyrir vatn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir