Rabb-a-babb 156: Óli Björn

Óli Björn fer yfir málin.  AÐSEND MYND
Óli Björn fer yfir málin. AÐSEND MYND

Nafn: Óli Björn Kárason.
Árgangur: 1960.
Fjölskylduhagir: Kvæntur Margréti Sveinsdóttur. Börn: Eva Björk, Kári Björn og Ása Dröfn.
Búseta: Seltjarnarnes.
Hverra manna ertu og hvar upp alinn: Ég er oft kenndur við Bakarísættina. Sonur Evu Snæbjarnardóttur, skólastjóra Tónlistarskólans og Kára Jónssonar, stöðvarstjóra Póst og síma. 
Starf / nám: Alþingismaður – hagfræðingur að mennt.
Hvað er í deiglunni: Nú er ég að leggja drög að skrifum um leit tveggja ungra Króksara að betra lífi í Kanada fyrir um 65 árum. Afraksturinn birtist í Skagfirðingabók þegar þar að kemur. Svo er ég að vinna í tveimur handritum að bókum um hugmyndafræði og pólitík. Svo þarf ég ekki að kvarta yfir verkefnaleysi í kringum þingstörfin.

Hvernig nemandi varstu?  Held ég hafi verið tiltölulega þægilegur nemandi fyrir kennara. Ekki sá besti en ekki sá versti.

Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Mér fannst merkilegt hversu margir komu í veisluna. Þá komst ég að því að sumir eru miklu skemmtilegri en aðrir. 

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Ég hafði löngun til þess að verða smiður enda var ég svo gæfusamur að vinna í nokkur sumur hjá snillingunum á Trésmiðjunni Borg. Síðar stefndi ég leynt og ljóst að því að gerast blaðamaður og sá draumur rættist. 

Hvað var uppáhalds leikfangið þitt þegar þú varst krakki? Ætli það hafi ekki verið kúrekabyssan sem Haraldur Júlíusson kaupmaður gaf mér þegar ég var fimm eða sex ára. 

Besti ilmurinn? Birki eftir góða rigningu.

Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? Queen og ELO voru mínar hlómsveitir en Johnny Cash skipaði og skipar sérstakan heiðursess hjá mér ásamt Leonard Cohen.

Hvaða lag er líklegast að þú takir í Kareókí? Hallelujaheftir Cohen eða kannski bara Nú er ég léttur, eftir okkar mann Geirmund.

Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? Man United leik.

Besta bíómyndin? Citizen Kane. Orson Wells var snillingur og leikstýrði og lék aðalhlutverkið. Myndin er meistaraverk en höfðar auðvitað sérstaklega til mín þar sem fjallað er um fjölmiðla, stjórnmál, völd og spillingu.

Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Guðjóni Val, þó ekki sé ég sérstakur áhugamaður um handbolta. Svo kemst ég alltaf í gott skap þegar Ólafía Þórunn birtist á skjánum, - hógværð hennar og glaðlyndi er smitandi. Fáa erlenda íþróttamenn met ég hins vegar meira en Jesse Owens (1913-1980). Afrek hans eru söguleg enn, ekki aðeins út frá sjónarhorni íþrótta heldur ekki síður stjórnmála. Hann niðurlægði Hitler og alla hina ógeðfelldu og hættulegu hugmyndafræði nasista á Ólympíuleikunum í Berlín 1936. 

Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Smíða.

Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? Lambahryggur.

Hættulegasta helgarnammið? Góu súkkulaðikúlur.

Hvernig er eggið best? Harðsoðið.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Ég á erfitt með að segja nei og þegar ég geri það, þá læðist samviskubitið að mér.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Undirmál

Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun? „Svona er lífið, tóm traffík,“ líkt og pabbi var vanur að segja..

Hver er elsta minningin sem þú átt? Ég á mörg minningarbrot sem sum eru örugglega ekki byggðar á raunveruleikanum eða eru til staðar vegna þess að mér voru sagðar sögur. En skýrast er þegar Andri bróðir læsti mig út á svölum á Lindargötunni þar sem við áttum heima í nokkur ár. Í reiði og hræðslukasti braut ég rúðuna með hnefanum. Ég ber þess merki enn í dag.  

Hvaða teiknimyndapersóna höfðar mest til þín? Ástríkur.

Hvaða fræga manneskja mundir þú helst vilja vera? Frægð er ofmetin og ekki sérlega eftirsóknarverð. 

Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur? Grát ástkæra fósturmold eftir Alan Paton hafði mikil áhrif á mig. Paton var harður baráttumaður gegn aðskilnaðarstefnunni í Suður-Afríku. En annars er Einar Kárason í mestum metum af núlifandi íslenskum rithöfundum.    

Orð eða frasi sem þú notar of mikið?„Over my dead body“.

Hver var mikilvægasta persóna síðustu 100 ára að þínu mati? Winston Churchill.

Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? Það væri skynsamlegra að fá að fara inn í framtíðina og koma til baka með lærdóminn. 

Hver væri titillinn á ævisögu þinni? „Króksarinn sem vildi aftur heim“. En ævi mín verðskuldar ekki bókarskrif en kannski sest ég niður og skrifa um samferðamenn mína. 

Framlenging:

Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu... til Ástralíu að heimsækja frændfólk mitt. 

Ef þú ættir að dvelja alein/n á eyðieyju, hvaða þrjá hluti tækirðu með þér?  Veiðistöng, eldspýtur og Biblíuna. 

Nefndu eitthvað þrennt sem þér finnst þú mega til að gera áður en þú gefur upp öndina: Fara á snjósleða þvert yfir Alaska, sjóstangaveiði í Karabíska hafinu og dvelja á grískri eyju í sex mánuði og skrifa.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir