Rabb-a-babb 191: Stefý

Nafn: Stefanía Fanney Björgvinsdóttir.
Árgangur: 1985.
Fjölskylduhagir: Ég og sonurinn (5ára).
Búseta: Laugardalur í Reykjavík.
Hverra manna ertu og hvar upp alin/n: Ég er dóttir Möggu Pé hárgreiðslukonu og Björgvins í Rarik.
Starf / nám: Viðskiptastjóri hjá Icepharma, BA í markaðsfræði.
Hvað er í deiglunni: Undirbúningur fyrir komandi vetur aðallega ná af sér Covid-og sumarfrís- kílóunum. Undirbúa mig andlega undir það að eiga allt í einu barn í grunnskóla og njóta lífsins.

Rabbið:

Hvernig nemandi varstu? Pottþétt óþolandi fyrir kennara, en stuðpía fyrir samnemendur. Ég var alltaf dugleg og stóð mig vel í skóla, en ég talaði meira en góðu hófi gegnir og held að ég geri það enn.

Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Margar góðar minningar frá þeim degi, en ætli eftirminnilegast sé ekki að fá að fermast með Agnesi Skúladóttur bestu vinkonu minni til margra ára og við vorum þær einu sem ákváðum að fermast ekki í kjól eins og hinar dömurnar, heldur vorum við agalega smart í dragt.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Alltaf hárgreiðslukona eins og mamma. Svo þegar ég byrjaði í saumakennslu í 8. bekk hjá Bíbí þá varð fatahönnuður draumurinn sem ég tók aðeins lengra og endaði út frá því að læra tískumarkaðsfræði.

Hvert var uppáhalds leikfangið þitt þegar þú varst krakki? Ég átti dúkku sem ég kallaði Kolbrún, gleymi aldrei deginum þegar ég týndi henni á sveitamarkaði í Varmahlíð.

Besti ilmurinn? Lyktin í fjörunni á Hofsósi.

Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? Ég var alveg örugglega með Whitney Huston á fullu blasti á rúntinum með skvísunum þennan dag og næstu mánuði á eftir.

Hvernig slakarðu á? Eins og marsbúarnir… í baði! Með Epson salti og olíu, kem jafn slök og pasta uppúr svoleiðis dekri.

Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? Ég horfi lítið á sjónvarpið, en RuPauls Drag Race er eitthvað sem ég þarf að sjá.

Besta bíómyndin? Cry Baby. Johnny Depp er bara of sætur í þeirri mynd.

Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Nánast allt þar sem ég er sú eina sem er að ráðskast þar.

Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? Ætli það verði ekki að vera afmæliskakan hjá Ríkharði Björgvin ár hvert. Mjög mismunadi hvernig ég fer að því að töfra þá köku fram. Síðast keypti ég tvær skúffukökur og skellti þeim saman og setti svo Betty-krem utan á og lét drenginn skreyta sjálfan. Þetta var geggjað samstarfsverkefni sem krafðist nánast engra þrifa eftir á.

Hættulegasta helgarnammið? Þristur og gamli ísinn...

Hvernig er eggið best? Poched með gráðostasósu á skonsu og með smá beikoni on the side.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Það að ég get ekki bara lesið almennilega það sem stendur eða skrifað rétt eins og allir í kringum mig sökum lesblindu.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Ókurteisi og óheiðarleiki.

Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun? Gerðu það sem þú vilt svo lengi sem það skaðar hvorki þig né aðra.

Hver er elsta minningin sem þú átt? Ælti það sé ekki úr vansrennibraut í Hollandi árið ‘89 í sumarfríi með fjölskyldunni minni. Fór ein í stóra rennibraut og pabbi tók á móti mér þegar ég kom út. Held að ég hafi sjaldan verið jafn spennt og hrædd á sama tíma.

Þú vaknar einn morgunn í líkama frægrar manneskju og þarft að dúsa þar einn dag. Hver værirðu til í að vera og hvað myndirðu gera? Ef ég þarf bara að vera þar í einn dag þá myndi ég gerast Donald Trump og segja af mér.

Orð eða frasi sem þú notar of mikið? „Svona ertu þá þarna, helvítið þitt“ er víst eitthvað sem ég segi reglulega, að sjálfsögðu alltaf í góðu gamni.

Hvaða þremur persónum vildirðu bjóða í draumakvöldverð? Ég myndi örugglega bjóða systkinum mínum. Katrín Eva, Efemia Hrönn og Viktor Sigvaldi. Ég veit að sá félagsskapur myndi ekki klikka. Við erum góðir vinir og draumakvöldverðurinn yrði alltaf skemmtilegur.

Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? Ég færi örugglega ekkert til baka ef mér væri boðið það. Mér finnst núið vera frábær staður til að vera á og það myndi örugglega enda í vitleysu ef ég færi eitthvað að vesenast í fortíðinni.

Hver væri titillinn á ævisögu þinni? Svona er ég þá.

Framlenging:

Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu... beinustu leið til Spánar í knús til Bergnýjar Heiðu frænku minnar.

Bucket list spurningin: Nefndu eitthvað þrennt sem þér finnst þú mega til að gera áður en þú gefur upp öndina:
1: Eignast fleiri börn

2: Ferðast meira bæði innan og utan landsteinanna.

3: Finna framtíðarmaka væri alveg næs.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir