Ævintýrið úti hjá liði Tindastóls

Hart barist í Smáranum. MYND AF FB
Hart barist í Smáranum. MYND AF FB

Strax í haust voru bara þrjú hjól undir bíl meistara Tindastóls og eftir það var nánast sama hvaða hindrun varð á vegi hans, það varð allt til að hægja ferðina. Hann hökti reyndar inn í bikarúrslit og í úrslitakeppnina þó með naumindum væri. Stólakagginn sem allir biðu eftir að hrykki í gírinn, kæmi sterkur inn á endasprettinum, var eiginlega hálf vélarvana allt tímabilið. Leikurinn í Smáranum í kvöld var reyndar góður en enn og aftur voru Stólarnir sjálfum sér verstir. Lokakarfan var Grindvíkinga og hún skipti sköpum – lokastölur 91-89. Stólarnir því snemma í sumarfrí þennan veturinn og kannski allir fegnir – þessi bíll þarf í allsherjar yfirhalningu.

Áttum okkur samt á því að liðið er skipað góðum leikmönnum; meiðsli, veikindi, óheppni, vondar ákvarðanir og meiri meiðsli hafa plagað liðið í allan vetur. Enginn þeirra þriggja Kana sem léku með liðinu var nálægt því að sýna sitt besta. Man einhver eftir því að liðið hafi unnið eitt af betri liðum deildarinnar í vetur? Bestu leikina átti liðið í haust á meðan leikmenn glímdu við meiðsli og kanaleysi. Það var einhvernveginn eins og það væri meira hjarta í liðinu á þeim tíma.

Í kvöld fóru Stólarnir glæsilega af stað og náðu mest 18 stiga forystu í fyrsta leikhluta. Leiddu 18-36 rétt áður en leikhlutanum lauk en síðustu fimm stigin voru heimamanna. Stólarnir héldu áfram góðu forskoti framan af öðrum leikhluta en þegar leikhlutinn var hálfnaður var staðan 30-45. Þá gerðu Grindvíkingar ellefu stig í röð. Tóti og Drungilas svöruðu, staðan 41-49, en þá fékk Drungilas dæmda á sig óíþróttamannslega villu og í einni og sömu sókninni gerðu heimamenn sjö stig. Staðan 48-49 í hálfleik.

Þriðji leikhluti var hnífjafn en Stólarnir höfðu þó lengstum frumkvæðið. Vendipunktur í leiknum varð þegar fimm mínútur voru liðnar en þá fékk Drungilas dæmda á sig tæknivillu eftir að hafa gert lítið úr dómurum þegar þeir slepptu að dæma villu á heimamenn. Þar sem hann hafði áður fengið óiþróttamannslega villu þýddi þetta brottrekstur. Stólarnir létu ekki deigan síga og komust sex stigum yfir í kjölfarið eftir þrist frá Ragga. Það voru þó Grindvíkingar sem leiddu, 65-63, fyrir lokafjórðunginn.

Þar kom Calloway heldur betur sterkur inn og gerði hverja körfuna af annarri fyrir Stólana, 19 stig alls. Nú var jafnt á flestum tölum og leikurinn æsispennandi. Lið Grindavíkur komst yfir, 89-86, þegar 28 sekúndur voru eftir en Calloway jafnaði með þristi þegar 19 sekúndur voru eftir. Síðasta sóknin var því Grindvíkinga og það var Basile sem setti tvö stig á töfluna þegar sex sekúndur lifðu. Stólarnir áttu ekki eftir leikhlé og urðu að skjóta við miðlínu en niður vildi boltinn ekki. Sumarfrí.

Enn sem fyrr fengu Stólarnir góðan stuðning á pöllunum og það er gaman að sjá. Liðið var hins vegar lemstrað og Geks og Arnar augljóslega meiddir. Gegn frábæru liði Grindavíkur var það of stór biti og því fór sem fór þrátt fyrir hetjulega baráttu. Við óskum Grindvíkingum góðs gengis í úrslitakeppninni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir