Mikil spenna fyrir VÍS bikarnum

Það er bikarúrslitalaugardagur framundan og það verður norðlensk sveifla í Laugardalshöllinni með dassi af keflvískum hljómagangi. Leikur Tindastóls og Keflavíkur í úrslitunum karlamegin hefst á slaginu 16 en klukkan 19 mætir sprækt lið Þórs Akureyri sterkum Keflvíkingum kvennamegin. Það má því reikna með rífandi stemningu í Höllinni og vonandi hörkuleikjum. Fyrirpartý stuðningsmanna Tindastóls hefst á Ölveri kl. 13 og þar verður eflaust gaman.

Ölver tekur að vanda vel á móti Stólum og það verða góð tilboð í mat og drykkjum. Dagskrá dagsins verður svona:

Kl. 13:00 / Ölver - Helgi Sæmundur spilar músík
Kl. 14:00 / ÚLFUR ÚLFUR
Kl. 14:20 / Sverrir Bergmann og Auðunn Blöndal
Kl. 14:45 / Skrúðganga í Laugardalshöll
Kl. 15:00 / Laugardalshöll opnar
Tindastólsbúðin er að sjálfsögðu á sínum stað
Kl. 16:00 / UPPKAST Tindastóll - Keflavík

Samkvæmt heimildum Feykis seldust þeir 800 miðar sem Stólarnir fengu í Höllina upp á svipstundu. Fyrir þá sem ekki eiga heimangengt, nú eða hafa ekki náð sér í miða, þá verður leikurinn sýndur í beinni útsendingu á RÚV þar sem reikna má með að Króksarinn Gunni Birgis fari á kostum í lýsingu.

Það hefur verið gaman að fylgjast með liði Þórs Akureyri í Subway-deild kvenna þar sem þær hafa komið skemmtilega á óvart. Það skemmir ekki fyrir að nokkrir leikmanna þeirra hafa tengsl við lið Tindastóls. Rebekka Hólm er Króksarinn í liði Þórs og þá hóf kjarnakonan Maddie Sutton sína vegferð i atvinnumennskunni með liði Tindastóls. Þá léku þær stöllur frá Akureyri, Eva Wium og Karen Lind, með liði Tindastóls þegar enginn kvennabolti var á Akureyri fyrir ekki svo löngu síðan.

Feykir óskar liði Þórs góðs gengis ... og auðvitað liði Tindastóls!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir