Félagsmenn Verslunarmannafélags Skagafjarðar samþykktu nýjan kjarasamning

Þó alþjóðlegi vöffludagurinn sé í dag þá er þegar um hálfur mánuður síðan vöffluilminn lagði yfir landið í kjölfar þess að skrifað var undir kjarasamninga. Síðustu daga hafa félagsmenn stéttarfélaganna kosið um samningana og á heimasíðu Verslunarmannafélags Skagafjarðar er sagt frá því að atkvæðagreiðslu þar lauk 21. mars sl. og var samningur Landssambands íslenskra verslunarmanna samþykktur með 85% atkvæða.

Niðurstaðan var eftirfarandi:
  Já sögðu 46 eða 85,19%
  Nei sögðu 8 eða 14,81%

Á kjörskrá voru 176 en atkvæði greiddu 54 eða 30,68%. Kjarasamningurinn tekur gildi frá 1. febrúar 2024 og gildir til 31. janúar 2028.

„Einfalda útgáfan af því hvað felst í samningunum er að laun félagsmanna hækka afturvirkt frá 1. febrúar og í ár um 3,25% en að lágmarki 23.750,- og síðan er hækkun á hverju ári 2025-2027. Desember og orlofsuppbætur hækka einnig. Samið var um aukin réttindi vegna orlofs. Til dæmis skal starfsfólk sem starfað hefur í 6 mánuði í sama fyrirtæki og náð hefur 22 ára aldri eða í 6 mánuði í sama fyrirtæki eftir framhaldskólapróf eiga rétt á orlofi í 25 daga og er miðað við orlof sem kemur til töku á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2025. Orlofsréttindi verða svo aukin frekar orlofsárið sem hefst 1. maí 2026, meðal annars er þá kveðið á um að eftir 6 ár í sama fyrirtæki skuli starfsfólk hafa 30 daga orlof,“ tjáði Hjörtur Geirmundsson, formaður Verslunarmannafélags Skagafjarðar, blaðamanni Feykis sem bað um stuttu útgáfuna af samningunum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir