Leikflokkur Húnaþings vestra framúrskarandi á sviði menningar 2023

Leikflokkurinn við uppsetningu á Himin og Jörð.MYND HÚNAÞING
Leikflokkurinn við uppsetningu á Himin og Jörð.MYND HÚNAÞING

Á vef Húnaþing segir að leikflokkur Húnaþings vestra hefur fengið viðurkenningu SSNV fyrir framúrskarandi verkefni á sviði menningar fyrir söngleikinn Himinn og jörð.

Ármann Guðmundsson samdi söngleikinn fyrir leikflokkinn í kringum 16 af lögum Gunnars Þórðarsonar og var sýningin sett upp á Páskum 2023. Það skal engan undra að sýningin hafi hlotið viðurkenningu enda sett upp af einstökum metnaði og krafti eins og flokksins er von og vísa. Leikflokkurinn hefur hlotið lof fyrir einstaklega metnaðarfullar og vel unnar sýningar í gegnum árin. Tvívegis hafa uppfærslur flokksins verið valdar sem áhugamannasýning ársins á vegum Bandalags íslenskra leikfélaga og verið settar upp á sviði í Þjóðleikhúsinu. Fyrst var það Hárið sem hlaut þessa rómuðu viðurkenningu árið 2019 og svo Pétur Pan árið 2022.

Við hjá Feyki sendum leikflokknum innilegar hamingjuóskir með þessa viðurkenningu.  

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir