„Það var aldrei leitað til okkar,“ segir Dagur hafnarstjóri aðspurður um hvers vegna varðskip Landhelgisgæslunnar hafi ekki nýtt sér þá þjónustu sem þeim stóð til boða í Sauðárkrókshöfn
„Það kom aldrei til þess að bjóða neinar aðstæður þar sem höfninni barst aldrei fyrirspurn frá Landhelgisgæslunni eða dómsmálaráðuneytinu,“ segir Dagur Þór Baldvinsson, hafnarstjóri Skagafjarðarhafna, aðspurður um þær aðstæður sem Landhelgisgæslunni hafi verið ætluð fyrir varðskip á þeim tíma er til stóð að heimahöfn varðskipa yrði á Sauðárkróki. Í svari dómsmálaráðuneytisins við spurningu Feykis um nýja staðsetningu skipanna kemur fram að á Siglufirði væri til staðar viðlegukantur með yfir átta metra dýpi sem væri tilbúinn til ráðstöfunar fyrir Landhelgisgæsluna.
Í svari dómsmálaráðuneytisins segir að dýpi í höfninni á Sauðárkróki, við þann viðlegukant sem Landhelgisgæslunni var ætlaður, væri ekki nógu mikið, en árið 2016 var undirritað samkomulag þess efnis að heimahöfn varðskipa yrði á Sauðárkróki.
Dýpkunarskipið Galilei við dýpkun við innsiglingu
Sauðárkrókshafnar 2018. Mynd: PF.
„Skipið ristir ekki átta metra svo að gera það að einhverri kröfu er bara heimatilbúið. Þetta skip gæti legið bæði við Fremri- , Efri-garð og Suðurbryggju á Króknum. Eins höfum við viðlegukanta á Króknum með átta metra dýpi við allan fremri garð. Á næsta ári stendur til að setja nýtt þil á Króknum og dýpka niður á níu metra dýpi við hluta af fremri garði og efri garði,“ segir Dagur Þór sem ekki er sammála rökum dómsmálaráðuneytisins um dýpi hafnarinnar.
„Hitt er annað mál að varðskipin eiga það til að liggja mjög mislengi og útgerðarmynstrið allbreytilegt. Það að ætla eyrnamerkja ákveðið bryggjupláss fyrir eitt skip sem kemur einhvern tímann og fer einhvern tímann, er mjög erfitt fyrir meðalstórar hafnir.
Á Siglufirði koma engin gámaskip, bara einstaka fraktskip. Til Sauðárkróks koma u.þ.b. 80 fraktskip á ári þ.á.m. gámaskip samkvæmt áætlun sem sitja fyrir bryggjuplássi, eðlilega. Á Króknum landa líka Drangey og Málmey vikulega og Arnar u.þ.b. einu sinni í mánuði auk annarra fiskiskipa t.d. frá Brim hf. Ægir og Týr hafa báðir legið við Syðra-planið og væsti ekki um þá þar.“
Varðskip í Sauðárkrókshöfn. Mynd: PF.
Hvers vegna telur þú að varðskip Landhelgisgæslunnar hafi ekki nýtt sér þá þjónustu sem þeim stóð til boða í Sauðárkrókshöfn?
„Það var aldrei leitað til okkar, sennilega eitthvað annað ráðið för við staðarvalið en aðstæður í höfninni. Hér eru toppaðstæður við Sauðárkrókshöfn, eina sem okkur skortir er meira viðlegupláss oft á tíðum,“ segir Dagur Þór.
Auk þess að setja dýpi hafnarinnar fyrir sig telur dómsmálaráðuneytið staðsetningu hennar síðri en á Siglufirði: „Siglufjörður er vel staðsettur, utarlega á Norðausturlandi, nærri miðum og siglingaleiðum með Norðausturlandi. Með tilliti til viðbragðstíma var talið heppilegra að hafa skipið eins austarlega á Norðurlandi og kostur var. Með Þór í Reykjavík og Freyju á Siglufirði hefur viðbragðsgeta Landhelgisgæslunnar umhverfis landið verið aukin og hægara verður um vik að tryggja öryggi sjófarenda, landsmanna og auðlinda í hafi,“ segir í skeyti dómsmálaráðuneytisins. Dagur hefur sitthvað um það að segja:
Varðskip á leið úr höfn. en u.þ.b. 26 sjómílur eru
frá Króknum í Skagatá en 33 sjómílur frá Siglufirði.
Mynd: PF
„Staðsetning Siglufjarðar gagnast helst ef útkall kæmi norður af Siglufirði eða austan. Ef t.d. kæmi útkall á Vestfjarðamiðum er Krókurinn jafnvígur Siglufirði. Það eru u.þ.b. 26 sjómílur frá Króknum í Skagatá en 33 sjómílur frá Siglufirði í Skagatá. Vegalengdin frá Horni er 86 sjómílur á Krókinn en 91 á Siglufjörð. Það hefði alveg eins mátt setja skipið á Raufarhöfn. Þá væri nokkurn veginn búið að skipta miðunum í tvennt fyrir Freyju og Þór.“
Dagur bendir einnig á að skipið geri ekkert eitt og sér. Það þurfi áhöfn og ef hún er ekki um borð megi leiða líkum að því að hún væri meira og minna í Reykjavík og þá megi bera saman samgöngur við Siglufjörð annars vegar og Krókinn hins vegar.
„En mín skoðun er sú að í raun er lítið viðlegupláss aðalvandamálið á Króknum. En ef Landhelgisgæslan hefði óskað eftir plássi, sem hún gerði ekki, þá hefðum við komið þeim fyrir og þjónustað þá vel. Sauðárkrókur hefði verið kjörinn sem björgunar- og leitarmiðstöð á Norðurlandi með ónotaðan flugvöll við höfnina, ef væri einhver heildarstefna í þessum málum mynduð og unnið að því.“