Samningar undirritaðir um hönnun nýrrar miðstöðvar skagfirskrar lista- og safnastarfsemi

Síðastliðinn þriðjudag skrifuðu Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri Skagafjarðar og Þorvarður Lárus Björgvinsson framkvæmdastjóri Arkís arkitekta undir samning um hönnun byggingar nýs menningarhúss í Skagafirði og tilheyrandi endurbóta á eldra húsnæði Safnahúss Skagfirðinga.
Í nýju menningarhúsi mun verða lifandi vettvangur sviðslista í Skagafirði sem fá nýja og glæsilega aðstöðu í 180-200 manna sal en auk þess mun þar fara fram starfsemi Héraðsbókasafns Skagfirðinga, Héraðsskjalasafns Skagfirðinga, Listasafns Skagfirðinga, Byggðasafns Skagfirðinga og tengd fræðastarfsemi, auk þess sem hluti hússins mun rúma viðurkennd varðveislurými sem uppfylla kröfur ríkisins um aðbúnað opinberra skjala- og byggðasafna eins og fram kemur í lögum og reglugerðum. Í húsinu verður aðstaða til að halda metnaðarfullar sýningar í fjölnota sýningarsal, s.s. myndlistarsýningar, ljósmyndasýningar, sýningar á höggmyndalist o.s.frv. Þar mun jafnframt verða miðstöð rannsókna á skagfirskum menningararfi og öll aðstaða almennings til að njóta fjölbreyttrar menningar og menningararfs verður stórefld.
Miðstöð tónlistar, stærri hátíða og ráðstefnuhalds áfram í Menningarhúsinu Miðgarði
Grundvöllur nýs menningarhúss á Sauðárkróki er ákvörðun ríkisstjórnar Íslands frá árinu 1999 um að veita stofnstyrki til uppbyggingar menningarhúsa utan höfuðborgarsvæðisins með það að markmiði að bæta þar aðstöðu til menningar- og listastarfsemi.
Árið 2005 undirrituðu Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þáverandi menntamálaráðherra, Gísli Gunnarsson, þáverandi forseti sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagafjarðar, og Agnar H. Gunnarsson, þáverandi oddviti Akrahrepps, samkomulag um uppbyggingu menningarhúss í Skagafirði. Samkomulagið var byggt á niðurstöðum samstarfshóps skipuðum fulltrúum menntamálaráðuneytis og sveitarfélaganna í Skagafirði. Annars vegar var gerð tillaga um endurbætur á félagsheimilinu Miðgarði, þar sem áhersla yrði lögð á tónlistarflutning, stærri hátíðir og ráðstefnuhald. Var endurbætt hús, Menningarhúsið Miðgarður, formlega vígt við upphaf Sæluviku Skagfirðinga í apríl 2009. Hins vegar var gerð tillaga um að byggt yrði við núverandi Safnahús Skagfirðinga á Sauðárkróki og að þar yrði menningarmiðstöð með áherslu á fræðastörf og sýningar, sem hýsti m.a. sýningarsal, bókasafn, listasafn og skjalasafn, auk fjölnota sýningarsals.
Á atvinnulífssýningu í Skagafirði vorið 2023 skrifuðu svo Lilja Alfreðsdóttir þáverandi menningar- og viðskiptaráðherra og Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri Skagafjarðar undir samning um byggingu nýs menningarhúss í Skagafirði á grundvelli fyrra samkomulags við ríkið og þarfagreiningar sem unnin var í samstarfi ráðuneytisins og hagaðila í Skagafirði.
Fjölbreytt flóra arkitekta og hönnuða kemur að verkinu
Í hönnunarsamningi við Arkís arkitekta felst arkitekta-, verkfræði- og lóðarhönnun vegna nýs menningarhúss á Sauðárkróki ásamt hönnun endurbóta á eldra húsnæði. Það er í samræmi við skilmála útboðsgagna hönnunarsamkeppni sem Arkís arktitektar urðu hlutskarpastir í en tíu umsækjendur tóku þátt í forvali sem var undanfari hönnunarsamkeppninnar. Af þessum 10 voru svo þrír aðilar valdir til að skila inn hönnunartillögum.
Í hönnunarteymi Arkís arkitekta eru hönnunarstjóri, arkitekt, landslagsarkitekt, hönnuður burðarvirkja, hönnuður lagna- og loftræstikerfa, hönnuður rafkerfa og lýsingar, hönnuður brunatækni og hönnuður hljóðvistar. Undirráðgjafar og hliðarráðgjafar Arkís arkitekta eru Verkís hf., Landhönnun slf. og Brekke & Strand Akustikk ehf.
Í matsnefnd hönnunarsamkeppninnar voru þau Gísli Sigurðsson, en á síðari stigum tók Guðlaugur Skúlason sæti hans, Einar E. Einarsson, Jóhanna Ey Harðardóttir, Álfhildur Leifsdóttir og Guðrún Ingvarsdóttir arkitekt. Umsjón og utanumhald forvals, hönnunarsamkeppni og matsstarfa var í höndum VSÓ Ráðgjafar. Við vinnu matsnefndar var kallað eftir sjónarmiðum og áliti forstöðumanna Héraðsbókasafns Skagfirðinga, Héraðsskjalasafns Skagfirðinga, Byggðasafns Skagfirðinga og frá formanni Leikfélags Sauðárkróks.
Sjá má útlit fyrirhugaðs menningarhúss á myndum sem fylgja með fréttinni en markmið forvals og hönnunarsamkeppni er að byggja aðlaðandi og vel útfært menningarhús sem sómir sér vel í umhverfinu og mætir þörfum metnaðarfulls menningarstarfs í Skagafirði.
Nýtt menningarhús tekið í notkun fyrir árslok 2027
Samkvæmt samningnum eru skil útboðsgagna fyrir jarðvinnuútboð 15. mars 2026 og skil endanlegra útboðsgagna fyrir aðra hluta verkefnisins 15. maí 2026. Gert er ráð fyrir að framkvæmdum við nýtt menningarhús verði lokið fyrir árslok 2027.
Við framkvæmd þessa verkefnis er lögð áhersla á að ná fram hagkvæmni í kostnaði, á sama tíma og gætt er að markmiðum gæða byggingarinnar og tímaramma. Kostnaðarskipting er með þeim hætti að ríkið greiðir 60% en sveitarfélagið 40%.
Samhliða hönnun á nýju menningarhúsi verður unnið að uppfærðu deiliskipulagi fyrir Flæðarnar á Sauðárkróki og eru íbúar hvattir til að taka virkan þátt í þeirri vinnu.
/fréttatilkynning