Við erum ótrúlega rík af fólki | LS Lulla í spjalli

Frá æfingu á Litlu hryllingsbúðinni fyrr í mánuðinum. Æft án leikmyndar og búninga. AÐSEND MYND
Frá æfingu á Litlu hryllingsbúðinni fyrr í mánuðinum. Æft án leikmyndar og búninga. AÐSEND MYND

„Litla hryllingsbúðin er skemmtilega fjölbreytt verk með miklum söng og er skemmtileg dramatísk hrollvekja,“ segir Sigurlaug Dóra Ingimundardóttir (Lulla), formaður Leikfélags Sauðárkróks, þegar Feykir spyr hana hvað hún geti sagt um Sæluvikustykki LS þetta árið.

Æfingar standa nú yfir en frumsýnt verður í Bifröst á Sauðárkróki sunnudaginn í Sæluviku en samkvæmt áreiðanlegum heimildum Feykis er hér um að ræða 146. sýningu Leikfélags Sauðárkróks frá því það var endurvakið árið 1941.

Á Wikipediu segir m.a.: „Litla hryllingsbúðin er söngleikur eftir Alan Menken (tónlist) og Howard Ashman (texti). Söngleikurinn, sem byggður er á samnefndri kvikmynd frá árinu 1960 í leikstjórn Roger Corman, var frumsýndur í útjaðri leikhússlífsins í New York, í WPA-leikhúsinu 6. maí 1962. Þegar sýningum var hætt, eftir 2209 skipti, hafði söngleikurinn fengið fjölmörg verðlaun og viðurkenningar og af söngleikjum sem sýndir hafa verið í lengstan tíma samfellt var Litla hryllingsbúðin í þriðja sæti. Tónlistin í Litlu hryllings-búðinni er í anda sjöunda áratugar 20. aldar. Mörg þekkt lög eru í söngleiknum og þekktustu lögin á Íslandi eru eflaust Þú verður tannlæknir, Snögglega Baldur og Gemmér.

Á Íslandi hefur Litla hryllingsbúðin verið sett upp þrisvar sinnum í atvinnuleikhúsum. Einnig hefur verkið verið sýnt af áhugamannaleikhópum víða um landið, s.s. í grunn- og framhaldsskólum.

Hver er mesta áskorunin við að setja þetta verk á svið í Bifröst? „Áskoranirnar við að setja verkið upp eru sjálfsagt margar en við vinnum bara í lausnum. En má kannski segja pláss fyrir blómið og tæknimál þar sem að húsið mætti vera betur búið tækjum og tólum hvað varðar hljóð og ljós.“

Hver leikur blómið? „Það eru tveir, þeir Alex og Helgi Hrannar sem koma báðir að því að leika blómið.“

Hverjir eru í helstu hlutverkunum, t.d. hlutverkum Baldurs, Auðar og tannlæknisins? „Það er Emelíana Lillý sem leikur Auði og flestir landsmenn nýbúnir að sjá hæfileika hennar í nýafstaðinni söngkeppni framhaldsskólanna, Baldur er leikinn af Inga Sigþór og Eysteinn Ívar leikur Brodda tannlækni. Þessi þrjú eru öll mjög hæfileikarík í leik og söng og hafa leikið í mörgum sýningum hjá LS.“

Er alltaf nóg af fólki sem er tilbúið að stíga á svið með Leikfélaginu? „Já, við erum svo ótrúlega rík af fólki sem er tilbúið að vinna með okkur innan sviðs sem utan og fyrir það er ég ótrúlega þakklát. Það er alls ekki sjálfsagt að fólk sé tilbúið að gefa tíma sinn í svona sjálfboðastarf en á móti kemur að þetta er mjög gefandi og skemmtilegt.“

Leikstjóri er Valgeir Skagfjörð, var hann bara ráðinn vegna eftirnafnsins? „Alls ekki en það gaf bónusstig í ráðningunni,“ segir Lulla létt, áður en hún bætir við: „Æfingatimabilið er búið að ganga vel. Samstarfið við Valgeir hefur gengið vel og LS heppið að hafa hann sem leikstjóra í þessi verki. Hann er reynslumikill bæði í leiklist og tónlist sem kemur sér vel í víðamikilli uppfærslu eins og þessari.“

Lulla segir leikhópinn hlakka til að sjá alla í leikhúsinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir