Laufskála-Lasagna og snúðakaka

Sólrún, Mikael og börnin. Aðsend mynd.
Sólrún, Mikael og börnin. Aðsend mynd.

Matgæðingaþátturinn sem hér fer á eftir birtist áður í 21. tbl.. Feykis 2017:
Mikael Þór Björnsson og Sólrún Guðfinna Rafnsdóttir búa á Hvammstanga ásamt þremur börnum og tveimur köttum í gömlu huggulegu húsi sem heitir Laufskáli.  Mikael vinnur sem sjúkraþjálfari og Sólrún er kennari.  Þau gefa okkur tvær girnilegar uppskriftir. „Við erum ennþá heilaþvegin af áramótaskaupinu og erum á móti matarsóun... þess vegna erum við með svona „taka til í ísskápnum“ rétt en lasagna er algjörlega uppáhalds hjá öllum í fjölskyldunni,“ segja þau. 

RÉTTUR 1
Laufskála Lasagna fyrir 5 – 7

4 stórir sveppir
½ til 1 kúrbítur
4 stórar gulrætur
1 rauðlaukur, stór
5 hvítlauksrif
1 kg ærhakk
1 dós diced tomato frá Hunts
1 lítil dós tómatkraftur
ca 400 ml vatn
200 g rjómaostur

Aðferð:
Allt grænmeti er maukað í matvinnsluvél og steikt í smjöri á pönnu þar til það er orðið aðeins brúnað.  Það þarf að mauka grænmetið í nokkrum hollum og ekki þrífa matvinnsluvélina alveg strax.
Hakkið er brúnað á pönnu og kryddað með salti og pipar.  Þegar það er fullsteikt er bætt út í kjötkrafti  eftir smekk.
Nú er snjallt að setja diced tómatana í matvinnsluvélina og ná restunum af grænmetinu með.
Blandið saman steiktu grænmeti, hakki, diced tomato og tómatkraftinum. Bætið vatni og rjómaosti saman við og látið malla í 15 til 20 mínútur.

lasagna plötur
stór dós kotasæla
piparostur
gratínostur eftir smekk

Þá er komið að samsetningunni. Setjið til skiptis í eldfast mót hakk, lasagna plötur, kotasælu, hakk, lasagna plötur o.s.frv.  Okkur finnst rosa gott að setja rifinn ost á milli laga a.m.k. einu sinni. Við setjum rifinn ost ofan á og piparost á helminginn því krakkarnir eru ekki að fíla hann.
Sett í 200 gráðu heitan ofn í 30 mín. og látið svo bíða í 10 mín. áður en það er borðað.

Með þessu höfum við soðnar kartöflur, hvítlauksbrauð og salat. 

RÉTTUR 2
Einu sinni var kanilsnúðakaka (því hún hverfur hratt og örugglega heima hjá okkur)
Þessi kaka er í sérstöku uppáhaldi hjá öllum í fjölskyldunni, sem er ekkert skrítið, snúðarnir eru fullkomnir...

Deig:
7 g ger
½ bolli volgt vatn
½  bolli mjólk, hituð að suðu
¼  bolli sykur
80 g smjör
1 tsk salt
1 egg
2 ½ bolli hveiti

Aðferð:
Byrjað er á að setja volgt vatn ásamt gerinu í litla skál og hrært smá til að allt gerið blotni. Mjólkin er svo sett í pott og hún hituð að suðu. Setjið sykur, smjör, salt og egg í stóra skál og hrærið saman, þegar mjólkin hefur kólnað svolítið bætið þá henni ofan í skálina.
Bætið svo hveitinu og gerblöndunni ofan í stóru skálina. Hnoðið deigið saman þangað til allt hefur blandast vel.
Látið deigið hefast í 1 – 1½ klst eða þangað til deigið hefur tvöfaldast í stærð.

Fylling:

110 g smjör
3/4 bolli sykur
2 msk kanill

Þegar deigið hefur hefað sig dreifið þið 1 dl af hveiti á borðið, takið deigið úr skálinni og fletjið það út í um það bil 20×40 cm flöt.
Bræðið smjörið og penslið því yfir allt deigið. Blandið saman sykri og kanil í skál og stráið svo  yfir deigið. Rúllið svo deiginu upp í lengju frá 40 cm endanum og skerið hana svo í 12 – 15 bita.
Smyrjið frekar stórt eldfast mót með smjöri og raðið snúðunum ofan í formið, það má vera frekar rúmt á milli þeirra því þeir eiga eftir að stækka.
Stillið ofninn á 170°C.
Leggið hreint viskustykki yfir formið og látið snúðana hefast í um það bil 30 mín. Setjið þá í ofninn og látið bakast í 45 mín. eða þangað til þeir eru orðnir fallega gullnir á litinn.

Glassúr:
4 msk smjör
2 bollar flórsykur
1 tsk vanilludropar
3 til 6 msk heitt vatn
Á meðan snúðarnir eru í ofninum er gott að útbúa glassúrinn. Það er gert með því að bræða smjörið í potti og bæta svo flórsykrinum saman við og hræra vel.  Bætið svo vanilludropunum út í ásamt heitu vatni og hellið yfir kökuna þegar hún er aðeins búin að rjúka en er ennþá heit. 

Verði ykkur að góðu

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir