Oddfellow lætur gott af sér leiða – Viðtal við regluformenn

Jóhanna Björnsdóttir, ym í Eir og Valgeir Valgeirsson, ym í Sif. Þau segja Oddfellow vera alveg úrvals félagsskapur. Mynd. PF. Aðrar myndir Jóhann Sigmarsson.
Jóhanna Björnsdóttir, ym í Eir og Valgeir Valgeirsson, ym í Sif. Þau segja Oddfellow vera alveg úrvals félagsskapur. Mynd. PF. Aðrar myndir Jóhann Sigmarsson.

Það var á seinni hluta marsmánaðar að reglusystkin Oddfellow á Sauðárkróki opnuðu heimili sitt fyrir heimamönnum og nærsveitarfólki og nýttu fjölmargir tækifærið og litu augum húsakynnin sem óhætt er að segja að lýsa sem stórglæsilegu eftir gagngerar endurbætur og stækkun. Við þetta tækifæri voru afhentar höfðinglegar gjafir til nokkurra stofnana á Norðurlandi vestra.

Regluheimili Oddfellowa á Sauðárkróki er eitt af tíu sem reglan á og rekur víðs vegar um landið. Skóflustunga að viðbyggingu á húsnæðinu að Víðigrund 5 á Sauðárkróki var tekin 2016 og strax hafist handa við að byggja við eldra hús og nýja álmu að norðan, sem gegnir hlutverki fundarsalar.

Á heimasíðu Oddfellow reglunnar má sjá að upphaf hennar á alþjóðavísu megi rekja til ársins 1537 en til Bandaríkjanna barst hún frá Bretlandi þegar Oddfellowinn Thomas Wildey fluttist þangað og stofnaði Stúku nr. 1, Washington, í Baltimore, þann 26. apríl 1819. Oddfellowreglan á Íslandi er grein af þeim meiði Reglunnar sem þar var sett á stofn.

„Fyrstu árin voru eingöngu karlmenn í reglunni en árið 1851 var fyrsta kvennastúkan stofnuð að frumkvæði Oddfellowans Schuyler Colfax sem varð síðar varaforseti Bandaríkjanna. Nefnast þær Rebekkustúkur. Upphaf Oddfellowreglunnar á Íslandi má rekja aftur til 1. ágúst 1897 þegar Stúka nr. 1, Ingólfur, var stofnuð í Reykjavík,“ segir á heimasíðunni oddfellow.is. Reglurnar á Sauðárkróki kallast annars vegar St. nr. 22. Sif, sem er bræðrastúkan, og hins vegar systrastúkan Rbst. nr. 13, Eir. Fyrir þeim fara þau Valgeir Valgeirsson og Jóhanna Björnsdóttir. Þau segja alla vera stolta af hinu glæsilega húsnæði sem þjóni sínu hlutverki með miklum sóma. „Húsið var frekar lítið en það stóð alveg fyrir sínu og við óttuðumst að við myndum fá víðáttubrjálæði hérna inni en það er alls ekki. Þetta hús hefur rosalega góða sál og gott að vera hér,“ segir Jóhanna og Valgeir tekur heilshugar undir.

Feykir tók hús á þeim tveimur og forvitnaðist um Oddfellow og hvernig dagurinn fór fram er gestum var boðið að skoða húsakynninn.

„Hann fór vel fram og gekk vonum framar. Það mættu margir og húsið varð smekkfullt. Við buðum upp á kaffi á efri hæðinni og svo mátti fólk fara um og skoða. Klukkan tvö voru styrkir afhentir og þá fylltist allt,“ segir Jóhanna en auk forvitinna gesta mættu fulltrúar styrkþega ásamt föruneyti. „Styrkjunum var dreift á Sauðárkrók, Skagaströnd, Blönduós og Hvammstanga og veittum við þarna rúmar tíu milljónir í heildina og erum við mjög sátt við hvernig þeir dreifðust um svæðið,“ segir Jóhanna og bendir á að reglan nái yfir stærra svæði en Skagafjörð eins og Valgeir ber vitni um en hann býr á Blönduósi. „Starfssvæðið er Norðurland vestra og einnig er Siglfirðingur á meðal okkar,“ segir Valgeir. „En það má segja að þeir sem eru virkir komi frá Skagaströnd, Blönduósi, Sauðárkróki og sveitinni í kring.“

Valgeir segir að alls séu bræðurnir 41 og af þeim komi tveir frá Skagaströnd og sex frá Blönduósi. Aðeins hefur fækkað í hópnum undanfarin tvö ár þar sem fjórir hafa hvatt þetta jarðlíf og einn flutt í burtu. Jóhanna segir að sama megi segja um systurnar sem sumar hverjar velja að flytja suður á eftir börnunum sínum en þær teljast nú vera 39.

Að ganga í Oddfellowregluna

Á heimasíðu Oddfellow kemur fram að til að verða Oddfellowi þurfi viðkomandi að vera lögráða og fjárhagslega sjálfstæður. „Við viðurkennum tilvist „einnar æðstu veru sem skapað hefur heiminn og heldur honum við“ óháð trúarbrögðum. Við greiðum félagsgjöld sem standa straum af rekstri Oddfellowreglunnar og regluheimila. Hluti þeirra rennur einnig til líknarmála. Með umsókn í Oddfellowregluna þurfa að fylgja meðmæli frá tillögumanni sem er fullgildur félagi í reglunni.“

Til að viðhalda góðum félagsskap er endurnýjun nauðsynleg og þess vegna héldu stúkurnar tvær á Sauðárkróki kynningarfund í vetur og segir Jóhanna það hafa gengið vel. „Já, það eru konur að koma til okkar, sem er mjög gott, og það sama gildir um karlana. Yfirleitt bjóðum við fólki að koma en hver sem er innan stúkunnar getur boðið vinum, kunningjum eða fjölskyldu.“ Hún segir það ekki þannig að hver sem er geti orðið meðlimur því algjör samstaða verði að vera um viðkomandi því mikilvægt sé að hann passi í hópinn. „Það má segja að það sé nauðsynlegt að við þekkjum til þegar fólk er að koma inn í félagsskapinn. Verra ef enginn kannast við hann,“ segir Jóhanna.

Samvera og félagsskapur

Starfsemi Oddfellow hefur kannski ekki farið hátt í samfélaginu en þau Valgeir og Jóhanna segja þó að félagsskapurinn sé ekkert leynifélag. „Þetta er að opnast mikið og miklu meira sagt frá starfseminni núna en áður. Yfirleitt hefur ekki verið sagt frá líknarstyrkjum, allt í kyrrþey, en lesa má um það á heimasíðu Oddfellow að Reglan styrkir hin ýmsu málefni um hálfa milljón á dag.“

Hvaðan tekjurnar koma segir Valgeir að greidd séu félagsgjöld sem segja má að séu hærri en gengur og gerist í öðrum félagsskap en einnig er staðið fyrir hinum ýmsu fjáröflunum og öðru álíka innan raða reglusystkina. Styrktar- og líknarsjóður Oddfellowa eru ansi öflugir en Reglan seldi stórt land sem það átti, Urriðaholt, þar sem nú rís nýtt hverfi í Garðabæ, og koma tekjur af vöxtum söluandvirðisins sem notaðir hafa verið til samfélagsverkefna.

„Allar stúkur sameinast um þennan styrktar- og líknarsjóð, og svo erum við líka með sér líknarsjóði hér. Eir og Sif styrkja ýmis málefni í nærsamfélaginu, ef eitthvað bjátar á hjá fólki eða þegar einhverjir þurfa á því að halda. Út á það gengur félagsskapurinn aðallega og svo náttúrulega samvera og félagsskapur,“ útskýrir Valgeir.

Einhverjum gæti fundist það skjóta skökku við að í dag séu stúkurnar tvær, karla og kvenna, í stað einnar en Jóhanna telur það bara til bóta. „Við viljum hafa það svoleiðis og viljum ekki breyta því. Ég veit ekki af hverju en fyrir mína parta finnst mér það bara vera þannig að við konur erum öðru vísi. Við viljum hafa þetta svona því það er bara oft þannig með konur að þær vilja hverfa einhvern veginn ef karlmenn eru nálægt. En við vinnum mikið saman og hittumst o.s.frv. og engin leiðindi. Ég væri alla vega ekki tilbúin að sameina, enda hefur það ekki komið til tals.

Ýmislegt á döfinni

Þau Jóhanna og Valgeir eru sammála um að óvenju mikið hafi verið á dagsskránni hjá þeim undanfarna mánuði og þegar blaðamaður spyr hvað sé framundan segja þau í kór: Sumarfrí! „Þetta er búið að vera geysilega strangt hjá okkur undanfarið. Nýtt hús og nýr salur og stúkur annars staðar að af landinu eru ólmar að fá að skoða hjá okkur húsakynnin og fá að funda hjá okkur. Við höfum tekið á móti fimm stúkum sl. hálfan mánuðinn auk alls þess sem við höfum verið að gera, þannig að það hefur verið ansi þétt dagskrá hér og er ekki búin. Það verður eitthvað um að vera út þessa viku og þá kemur langþráð sumarfrí hjá okkur Jóhönnu,“ segir Valgeir svo búast má við að fríið langþráða sé þegar hafið þar sem viðtalið fór fram í liðinni viku.

„Alla jafna funda reglustúkurnar tvisvar í mánuði, sitthvora vikuna. Svo erum við með samveruna hérna, þeir hittast á miðvikudagsmorgnum í morgunkaffi og spjall en við konurnar hittumst á föstudagsmorgnum. Svo höfum við verið með opið hús á laugardögum en þá koma makar og fjölskyldur gjarnan í spjall,“ segir Jóhanna.

Valgeir segir þeirra morgunhitting hafa verið mjög vinsælan hjá bræðrunum og telur að hafi verið alla tíð. Bræðurnir hafa ætíð haldið þessum morgunstundum yfir sumartímann en systurnar hins vegar hætt á vorin og tekið sér frí en Jóhanna segir að eftir Covid verði breyting á og ákveðið að bjóða upp á morgunsamveru yfir sumarið líka. „Það er ekki spurning um annað, þetta er svo góður félagsskapur og gott að eldast í honum,“ segir hún og bros færst yfir andlit hennar.

Auk þess að stúkurnar hittist og ræði málin í eigin húsakynnum segir Valgeir að oft sé farið í önnur héruð til að hitta aðrar stúkur, t.d. móðurstúkuna á Akureyri, sem komu þeim á laggirnar á sínum tíma.

„Við fórum í stúkurnar fyrir norðan og svo komu þær og stofnuðu stúku með okkur hér. Einnig höfum við mikil samskipti við Egilsstaði og nýlega heimsóttum við stúku á Akranesi. Þannig að þetta er alveg úrvals félagsskapur,“ segir Valgeir ekki síður brosmildur en Jóhanna yfir þeirri ánægju sem stúkan veitir honum.

Tímamót framundan

Stúkurnar Sif og Eir hafa ákveðið númer sem segir til um hvar þær standa í röðinni gagnvart öðrum þegar kemur að fjölda þeirra og stofnun. „Við köllum þetta St. nr. 22, Sif og Rbst. nr. 13, Eir, og þannig skrifum við þetta. Þær eru 29 bræðrastúkurnar á landinu í dag en elsta stúkan, sem stofnuð var í kringum 1900, er Ingólfur nr. 1. Okkar stúka er stofnuð 1997 og Eir 2004 og er því að verða 20 ára á næsta ári,“ segir Jóhanna og lætur í veðri vaka að hátíð verði af því tilefni haldin á næsta ári. Valgeir nefnir að Sif gæti líka slegið upp veislu því hún hafi orðið 25 ára í fyrra en Covit komið í veg fyrir öll veisluhöld. „Ætli við sláum þessu ekki bara saman,“ segir hann og Jóhanna samsinnir því. „Það er nú þannig að við höfum gert margt saman á þessum tíma og haft mikið samstarf og ég hef mjög gaman af því,“ segir hún í lokin.

Fyrsti Oddfellowinn í Skagafirði

Björn Björnsson, fv. skólastjóri á Sauðárkróki, ber þann heiður að vera talinn fyrsti Oddfellowinn í Skagafirði en hann beitti sér fyrir stofnun stúkunnar á Króknum á sínum tíma. Var honum afhent heiðursmerki Oddfellowreglunnar að lokinni dagskrá opna hússins á sérstökum hátíðarfundi hjá St. nr. 22, Sif, af stórsír, Guðmundi Eiríkssyni.

Björn vígðist í St. nr. 2, Sjöfn, á Akureyri 15. október 1982 og gegndi þar ýmsum embættum en í fréttbréfi Oddfellow segir að Björn hafi verið fyrsti undirmeistari Sifjar og gegnt því embætti til ársins 2000, er hann varð yfirmeistari. Björn var starfandi fyrri meistari 2002-2004 og fór aftur í stjórn stúkunnar sem ritari 2016-2018. Varastórfulltrúi 2005- 2009 og stórfulltrúi 2009-2013. Þá hefur Björn setið í fjölda nefnda fyrir Sif.

,,Þú ert, eftir því sem ég hef upplýsingar um, fyrsti Oddfellowinn hér í Skagafirði. Þú hefur verið öðrum Reglusystkinum góð fyrirmynd, þú hefur ávallt svarað kalli til að takast á við, og taka þátt í, og stýra verkefnum með jákvæðni og vinnusemi að leiðarljósi og þér hefur farist það vel úr hendi,“ sagði stórsír Guðmundur við athöfnina.

-----

Á hinu vel heppnaða opna húsi Reglnanna á Sauðárkróki þann 25. mars sl. voru veittir styrkir frá Oddfellowreglunni að andvirði um 10,5 milljónir króna til eftirtalda stofnana:

Iðja hæfing, Sauðárkróki, styrkur til kaupa á tækjabúnaði, 1.000.000 kr.
lðja hæfing, Hvammstanga, hjartastuðtæki og skynörvunarbekkur, að upphæð 1.189.000 kr.
Iðja hæfing Blönduósi, - hjartastuðtæki og skynörvunarbekkur, að upphæð 1.189,000 kr.
Skammtímadvöl Sauðárkróki, hjartastuðtæki og skynörvunarbekkur að upphæð 1.189,000 kr.
Heilbrigðisstofnun Norðurlands, Blönduósi, styrkur til tækjakaupa að upphæð 3.000.000 kr.
Heilbrigðisstofnun Norðurlands, Sauðárkróki, styrkur til tækjakaupa að upphæð 3.000.000 kr.

Einnig var húsfélagi Regluheimilisins á Sauðárkróki afhentur sameiginlegur styrkur frá stúkunum sem funda í Vonarstræti í Reykjavík, félaginu til frjálsra afnota.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir