Ámundakinn eignast húsnæði Arionbanka á Blönduósi
Ámundakinn ehf. hefur eignast húseign Arion banka hf. að Húnabraut 5 á Blönduósi en fulltrúar þeirra undirrituðu um miðjan desember samning um kaupin.
Í tilkynningu segir að kaupin hafi átt sér nokkurn aðdraganda en viðræður um viðskiptin hafi staðið með hléum á annað ár. Með í kaupunum fylgja húsgögn og búnaður og öll listaverk sem prýtt hafa veggi bankans undanfarin ár, að því er segir í frétt á Húna.is. Ámundakinn tók við húsinu um áramót en samningur hefur verið gerður um að Arion banki verði með starfssemi sína í húsinu enn um sinn.