Dalalíf ómetanleg heimild um líf fólks á liðnum tíma

Helga Bjarnadóttir blaðar í Blómarósum í Blönduhlíð. Sögu kvenfélags Akrahrepps . Aðsend mynd.
Helga Bjarnadóttir blaðar í Blómarósum í Blönduhlíð. Sögu kvenfélags Akrahrepps . Aðsend mynd.

Helga Bjarnadóttir, skólastjóri á eftirlaunum, svarað spurningum Bók-haldsins í 37. tölublaði Feykis árið 2019. Helga segist ekki hafa lesið mikið sem barn, og í raun ekki fyrr en á seinni árum, en ljóðabækur sem hún eignaðist sjö ára gömul hafa fylgt henni alla tíð.

Hvers konar bækur lestu helst?
Íslenskar æviminningar og frásögur og skagfirskar ljóðabækur.

Hvaða bækur voru í uppáhaldi hjá þér þegar þú varst barn?
Þegar ég var sjö ára fékk ég þrjár vísnabækur, Jólin koma, Sagan af Gutta og sjö önnur ljóð og Það er gaman að syngja. Ég heillaðist af þessum bókum og þær fylgja mér enn.
Fyrsta „stóra“ bókin sem ég las – þá sex ára – hét „Ekki neitt“. Hún var um hvolp sem var ósýnilegur. Til þess að verða sýnilegur þurfti hann að elta á sér skottið á hverjum degi og alltaf að fjölga hringjunum. Smátt og smátt fór hann að sjást og varð loks sýnilegur.

Hver er uppáhaldsbókin af þeim sem þú hefur lesið gegnum tíðina?
Dalalíf Guðrúnar frá Lundi er í fyrsta sæti. Nefni einnig Lífskraftur - Séra Pétur og Inga í Laufási eftir Friðrik Erlingsson, Lífsins skák. Minningar Önnu P. Þórðardóttur, Loftklukkan eftir Pál Benediktsson og Það sem dvelur í þögninni eftir Ástu Kristrúnu Ragnarsdóttur. Það er besta bók sem ég hef lesið lengi.

Hver er þinn uppáhaldsrithöfundur og hvers vegna?
Guðrún frá Lundi. Sögurnar hennar eru svo sannar og ómetanleg heimild um líf fólks á liðnum tíma. Hún skrifar líka svo gott mál. Guðrún bjó á Sauðárkróki frá 1939. Fyrsta hefti af Dalalífi kom út 1946 og var afar vel tekið. Svo hélt sagan áfram og er 4. heftið kom út átti það að vera sögulok. Það var beðið eftir hverri bók og spáð í hvað gerðist næst. Það þekktu margir Guðrúnu en þegar sögulokin komu voru ekki allir sáttir. Nokkrir lesendur hennar heimsóttu hana og sögðu að hún þyrfti að bæta við einu hefti því að Lilja og Þórður yrðu að ná saman. Guðrún gerði það og allir voru sáttir.

Hvaða bækur eru á náttborðinu hjá þér þessa dagana?
Í barnsminni eftir Kristmund Bjarnason og Ef hátt lét í straumnið Héraðsvatna eftir Ólínu Jónasdóttur.

Áttu þér uppáhaldsbókabúð?
Það er þá bara Bókaskráin!

Hvað áttu margar bækur í bókahillunum heima hjá þér?
Það eru um 700 bindi.

Hvað kaupirðu eða eignast að jafnaði margar nýjar bækur yfir árið og eru ákveðnir höfundar eða bækur sem þú færð „alltaf“ í jólagjöf?
Þegar Bókaskráin kemur fyrir jólin nota ég hana sem bókabúð. Vel mér bækur og deili þeim niður á þau sem ætla að gefa mér bækur. Þær geta orðið 5-6. Engir sérstakir höfundar. Auk þess bækurnar frá Sögufélaginu, þær eru góðar. Byggðasagan er í sérflokki.

Hefur einhver bók sérstakt gildi fyrir þig?
Veturinn sem ég varð sjö ára var ég lasin í nokkrar vikur og það var farið að líða að jólum. Þá fékk ég bækurnar sem ég nefndi í annarri spurningunni. Ég tók ástfóstri við bókina Jólin koma eftir Jóhannes úr Kötlum með teikningum Tryggva Magnússonar. Sú bók kom fyrst út 1932 og hefur verið prentuð 27 sinnum. Þar eru m.a. vísurnar um jólasveinana, Grýlu og Leppalúða og jólaköttinn. Ég lifði mig inn í þennan skáldskap, sem fyrir mér var enginn skáldskapur, heldur raunveruleiki sem þó var ekki lengur til. Mér stóð stuggur af jólakettinum, var ekki örugg um að hann væri úr sögunni. Þessi ljóð, sem myndirnar glæða svo miklu lífi, hafa fylgt mér alla tíð.

Hefur þú heimsótt staði sem tengjast bókum eða rithöfundum þegar þú ferðast um landið eða erlendis?
Ég hef heimsótt Lund í Stíflu, fæðingarstað Guðrúnar frá Lundi, Nonnahús og Gljúfrastein.

Ef þú ættir að gefa einhverjum sem þér þykir vænt um bók, hvaða bók yrði þá fyrir valinu?
Blómarósir í Blönduhlíð. Saga kvenfélags Akrahrepps í máli og myndum.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir