Hestar - Handverk og Hamingja

Hin árlega stóðsmölun á Laxárdal í Austur Húnavarnssýslu fer fram nk. laugardag 17. sept og réttað verður í Skrapatungurétt daginn eftir. Á morgun föstudag verður forskot tekið á sæluna og riðið frá Húnaveri upp Þverárdal og í Gautsdal.

Viðburðir helgarinnar sem kallast Hestar - handverk og hamingja verða haldnir víða. Kl: 15:00-20:00 verður handverksmarkaður í Félagsheimilinu á Blönduósi þar sem frítt er inn og um kvöldið verður boðið upp á kjúklingasúpu og Laxárdalssúpu (fiskisúpa). Lifandi tónlist og opin bar verður til klukkan 00:30.

Á laugardeginum verður lagt upp frá Strjúgsstöðum í Langadal klukkan 11 og frá Gautsdal klukkan 10:30. Hóparnir munu svo sameinast og fylkja liði í Kirkjuskarð þar sem gleðin ræður ríkjum. Þar er drukkið, sungið og borðað og kjötsúpa og fleira á boðstólum. 

Aðstaða er til að geyma hesta frá föstudegi yfir á laugardag á Strjúgsstöðum, við sandnámu (norðan afleggjara). Þátttakendur eru beðnir að virða að ekki er leyfilegt að reka laus reiðhross í stóðsmöluninni. Einnig er aðstaða til að geyma hesta í Gautsdal, en þá þarf að hafa samband við Jón Ragnar í síma 864-9133. Fjallakóngur verður Skarphéðinn Einarsson.

Að kvöldi laugardagsins verður stóðréttarball með Trukkunum í Félagsheimilinu á Blönduósi og stóðréttir í Skrapatungurétt hefjast svo stundvíslega klukkan 11 daginn eftir.

Hægt er að fylgjast með á Fésbókarsíðu hátíðarinnar: Hestar - Handverk og Hamingja.

Fleiri fréttir