Litið við hjá ferðaþjónustuaðilum - Fiskréttir í fögru umhverfi

Horft heim að Geitafelli. Myndir:FE
Horft heim að Geitafelli. Myndir:FE

Birtist fyrst í Feyki í 25. tbl. 2018 sem kom út 27. júní 2018. Rétt er að geta þess að orð blaðamanns um ástand vegarins um Vatnsnes eiga alls ekki við í dag eins og til dæmis má sjá í frétt RÚV, http://www.ruv.is/frett/ferdamenn-i-haettu-a-veginum-fyrir-vatnsnes

Ferðamenn sem aka um Húnavatnssýslurnar kvarta gjarnan yfir því að landslag sé þar tilbreytingarlaust og fátt að sjá og eiga margir það til að gefa hressilega í eins og hraðaksturstölur frá lögreglunni á svæðinu sýna. Þetta er þó ekki alls kostar rétt því Húnavatnssýslurnar geyma marga dýrgripi sem vert er að gefa sér tíma til að skoða nánar. Ein af þessum perlum er Vatnsnesið þar sem áhugaverðir staðir eru á hverju strái. Að vísu hefur Vatnsnesið verið talsvert í umræðunni undanfarin ár vegna slæmra vega og það var því með hálfum huga sem blaðamaður Feykis lagði lykkju á leið sína í vikunni sem leið í því skyni að heimsækja veitingastaðinn Geitafell sem er staðsettur utarlega á nesinu vestanverðu, um 25 km utan við Hvammstanga.

Það kom ánægjulega á óvart að umtalsverðar vegabætur hafa orðið í sumar á leiðinni um nesið og er vegurinn nú rétt eins og hver annar venjulegur íslenskur malarvegur sem engum er vorkunn að aka þó rétt sé að fara að öllu með gát.

Á Geitafelli reka hjónin Sigrún Jóna Baldursdóttir og Róbert Jack veitingastað þar sem sjávarfang er uppistaðan í matseðlinum. Blaðamanni var boðið upp á ljúffenga og matarmikla fiskisúpu og að snæðingi loknum tók hann þau hjónin tali.

Veitingasalur í gamalli hlöðu

Róbert og Sigrún eru búsett í Reykjavík en það var árið 2002 sem þau keyptu jörðina og hófust handa við að byggja hana upp. Veitingastaðurinn, sem

Hjónin Sigrún og Róbert í veitingasalnum á Geitafelli. Salurinn er skreyttur ýmsu sem minnir á sjó og sjósókn.

opnaður var árið 2010, er til húsa í vistlegum sal þar sem áður var hlaða og gamli súrheysturninn við hliðina hefur fengið útlit skosks kastala. Á neðstu hæð turnsins getur að líta gamlar myndir af fólki sem bjó á svæðinu áður fyrr. Á efri hæðunum er Manchester United safn ásamt ýmsum skoskum munum en Róbert er skoskur í aðra ættina, sonur sr. Róberts Jack sem var prestur á Tjörn á Vatnsnesi um margra ára skeið.

Á Vatnsnesinu er alls staðar stutt til sjávar og því ekki óeðlilegt að á matseðlinum sé boðið upp á þrjá fiskirétti; fiskisúpu, humar og steiktan silung úr héraðinu. Einnig er boðið upp á grænmetissúpu og allt er þetta borið fram með fersku grænmeti og heimabökuðu brauði. Auk þess er hægt að velja úr nokkrum tegundum af kökum sem eftirrétt. Það er Sigrún sem á heiðurinn að eldamennskunni enda listakokkur að sögn Róberts.

Þó aðaláherslan sé lögð á veitingasöluna bjóða þau Sigrún og Róbert einnig upp á gisistingu í þremur herbergjum. Flestir eru gestir þeirra útlendingar þó auðvitað láti Íslendingar einnig sjá sig. Stutt er niður í fjöruna þar sem gaman er að ganga um og á næsta bæ, Illugastöðum, hefur verið byggð upp ágætis aðstaða til selaskoðunar auk þess sem þar er æðarvarp. Margir sem leggja leið sína um svæðið þekkja einnig til sögunnar um Friðrik og Agnesi sem tekin voru af lífi í síðustu aftökunni á Íslandi eftir að hafa myrt Natan Ketilsson og Pétur Jónsson á Illugastöðum árið 1828.

Opið er á Geitafelli frá því í byrjun maí og fram í október.

Séð yfir veitingasalinn sem er bjartur og rúmgóður.Opið er á Geitafelli frá því í byrjun maí og fram í október.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir