Örnám, einstakt tækifæri | Aðsend grein

Fulltrúar á vinnufundir: AÐSEND MYND
Fulltrúar á vinnufundir: AÐSEND MYND

Þann 15. september komu saman rektor Háskólans á Hólum ásamt deildarstjórum, prófessor, gæðastjóra og kennslustjóra með fulltrúum Háskólafélags Suðurlands, SASS og atvinnugreinum á Suðurlandi til vinnufundar um samstarf á nýrri nálgun í háskólamenntun, þróun örnáms á háskólastigi.

Örnám skapar aukinn sveigjanleika og fjölbreytni í námsframboði á háskólastigi og tekur mið af hröðum breytingum i samfélaginu. Þróun slíks náms er mjög spennandi og gerir fleirum kleift að stunda háskólanám, sérstaklega þeim sem ekki geta skuldbundið sig til lengri námsleiða. Einnig er hægt að aðlaga örnám að árstíðabundnu vinnuálagi, það er hentugur kostur fyrir fólk í atvinnulífinu eða fyrir þá sem eru hefja nám eftir hlé.​ Örnám er í grunninn sveigjanlegt tæki til að þróa nám svo hægt sé að aðlaga það fjölbreyttum hópi nemenda og ýmsum námsleiðum.

Tilgangur fundarins var að greina þarfir og tækifæri á þróun örnáms á þeim þremur fræðasviðum Háskólans á Hólum og byggja undir einar af helstu atvinnugreinum Suðurlands, þ.e. ferðaþjónustu í dreifbýli, íslenska hestinn og landeldi á fiski. Jafnframt að meta hvort grundvöllur væri fyrir samvinnu um þróun örnámsleiða sem styðja við samfélagslegar þarfir og stuðla að hækkun menntunarstigs á Suðurlandi með því að tryggja fjölbreyttum hópi fólks aðgang að menntun og símenntun á traustum grunni.

Niðurstöður fundarins sýndu glöggt að þörfin fyrir stutt og markvisst nám er mikil, þ.e. örnámi sem endurspegla fræðasvið Háskólas á Hólum. Þessi þörf er tvíþætt. Annars vegar er stór hópur fagfólks á Suðurlandi sem hefur starfað árum saman án formlegrar menntunar en vill bæta við sig þekkingu í styttri námsleiðum með sveigjanlegu fyrirkomulagi, þar sem raunfærnimat gæti stytt leiðina að formlegri menntun. Hins vegar er vaxandi hópur fyrrum nemenda sem vill uppfæra þekkingu sína vegna hraðra tæknibreytinga og nýsköpunar í atvinnulífinu.

Slíkt örnám er í takt við alþjóðlega þróun í háskólamenntun þar sem sveigjanleiki, styttri námslotur, hagnýtt nám og nánara samstarf við atvinnulíf eru í forgrunni. Í nýrri norrænni skýrslu um örnám (e. Microcredentials) er bent á að framtíð háskólamenntunar byggist á fjölbreyttum námsleiðum sem nýtast bæði sem sjálfstæðar einingar og sem hluti af stærri námsbrautum með möguleika á stöðluðu raunfærnimati til háskólaeininga og beinni tengingu við atvinnulíf. Áhersla er lögð á að tryggja samræmingu og gæði. Þá er brýnt að eiga samráð við stjórnvöld og móta skýra stefnu til að byggja upp formlegar leiðir fyrir örnám inn í menntakerfið og atvinnulífið.

Tillaga fundarins var að halda áfram samstarfinu, enda væri mikil þörf á að þróa slíka námsleið í nánu samstarfi við atvinnulíf og háskóla. Hér er um einstakt tækifæri að ræða til að byggja upp menntun sem tengir saman fræðilega þekkingu, verklega færni og raunverulegar þarfir atvinnulífsins. Sú reynsla sem myndi skapast gæti jafnframt orðið fyrirmynd að sambærilegum lausnum víðar um landið.

Hólmfríður Sveinsdóttir, rektor Háskólans á Hólum

Ingveldur Sæmundsdóttir, framkvæmdastjóri Háskólafélags Suðurlands

Fleiri fréttir