„Ef leikurinn tapast verður veturinn þungur og erfiður“

Það er leikur á föstudaginn. Neinei, ekki körfuboltaleikur. Það er sjaldgæfur undanúrslitaleikur og alvöru grannaslagur í Fótbolti.net bikarnum. Ef þessi leikur væri frímerki þá væru allir safnararnir óðir og uppvægir í að komast yfir hann. Við erum að tala um aðra innbyrðisviðureign Tindastóls og Kormáks/Hvatar í sögunni. Slagurinn um montréttinn á Norðurlandi vestra. Feykir tók púlsinn á varafyrirliða Kormáks/Hvatar, Sigurði Pétri Stefánssyni, og spurði meðal annars hvað hann gæti sagt okkur fallegt um lið Tindastóls...
Sigurður Pétur er fæddur árið 2003, Blönduósingur, bráðflinkur og baráttuglaður djúpliggjandi miðjumaður eins og stuðningsmenn Tindastóls vita en kappinn spilaði með Stólunum árin 2021, 2022 og 2023.
Hvernig er sumarið búið að vera í boltanum? „Sumarið er búið að vera fínt í boltanum. Mörg skemmtileg ferðalög með góðum hópi og svo hefur gengið vel en það segir sitt.“
Ertu sáttur með spilamennsku liðsins í sumar? „Já, ég er mjög sáttur með spilamennsku liðsins í sumar. Markmiðið var að enda í efri hluta 2. deildar og það tókst. Að ná langt í Fótbolti.net bikarnum er svo ákveðinn plús eftir gott gengi í deildinni.“
Hvers vegna fótbolti? „Ég hef verið í fótbolta frá því ég byrjaði að labba og hann er orðinn hluti af mér.“
Hvað heldurðu að þú eyðir mörgum klukkutímum í viku í að horfa á fótbolta? „Ég tel mig eyða eitthvað um fimm klukkutímum í viku að horfa á fótbolta, ég horfi að jafnaði á tvo leiki í ensku deildinni og svo horfi ég á upptöku af okkar leikjum.“
Hvert er hlutverk fyrirliða í þínu liði? „Hlutverk fyrirliða í mínu liði felst að mestu leyti í því að sýna gott fordæmi innan vallar sem utan.“
Hverjir eru helstu kostir þjálfara liðsins, Dominic Furness? „Helstu kostir þjálfara liðsins þegar kemur að fótbolta er að hann skilur íþróttina vel og er skipulagður.“
Hvað treyjunúmer ertu með? „Ég er með treyjunúmer 6, ástæðan fyrir því er einfaldlega að það er algengt treyjunúmer fyrir varnarsinnaðan miðjumann.“
Hvenær sagðirðu síðast ósatt? „Man það ekki alveg en líklega þegar ég borðaði mat sem einhver annar átti og sagðist ekki hafa gert það þegar ég var spurður út í það.“
Hvernig mundir þú lýsa þínu liði, hverjir eru styrkleikarnir og veikleikarnir? „Liðið er baráttulið. Helstu styrkleikar liðsins eru reynsla og baráttuvilji, á meðan helstu veikleikar eru hár aldur, og skapið.“
Hver er helsti flipparinn í liðinu? „Kristinn Bjarni er mesti flipparinn í liðinu, hann er mjög náttúrulega fydinn, sem sagt þarf ekki að reyna að vera fyndinn.“
Hvaða leikmaður eyðir mestum tíma fyrir framan spegilinn? „Kristinn Bjarni eyddi allavegana mestum tíma fyrir framan spegilinn þegar hann var með langa lokka fyrir stuttu.“
Hvert er þitt lið í enska boltanum? „Mitt lið í enska boltanum er Liverpool, en við munum klárlega vinna deildina og svo allavega einn bikar með henni.“
Hvernig finnst þér að taka þátt í Fótbolti.net bikarnum? „Það hefur verið gaman að brjóta upp tímabilið með þessum leikjum í Fótbolti.net bikarnum.“
Hvað geturðu sagt fallegt um lið andstæðinganna? „Ég spilaði með þeim í nokkur ár og get sagt að þetta eru allt fínir strákar.“
Hvernig verður veturinn ef leikurinn tapast? „Ef leikurinn tapast verður veturinn þungur og erfiður.“
Hvernig fer leikurinn og hverjir skora fyrir þitt lið? „Leikurinn fer 1-4. Fyrir mitt lið skora Jón Gísli, Kristinn Bjarni, Goran og svo kemur Stebbi Jóns inn á og setur eitt,“ segir Sigurður Pétur að lokum.