Drangey – smábátafélag Skagafjarðar sendir frá sér átta ályktanir

Frá smábátahöfninni á Sauðárkróki árið 2016. MYND: PF
Frá smábátahöfninni á Sauðárkróki árið 2016. MYND: PF

Þann 17. september fór fram aðalfundur Drangeyjar – smábátafélags Skagafjarðar og sendi fundurinn frá átta ályktanir. Þannig skora smábátasjómenn á stjórnvöld að endurskoða tafarlaust veiðiheimildir með dragnót upp í fjörur í fjörðum og flóum hér Norðanlands. Þá lagði fundurinn áherslu á að byggðakvóta í Skagafirði verði ein­ungis úthlutað til dagróðrabáta sem eru minni en 30 brt.

Lesa má um ályktanir aðalfundsins hér að neðan.

Ályktanir aðalfundar Drangeyjar-smábátafélags Skagafjarðar 17. september 2025:

  1. Aðalfundur Drangeyjar – smábátafélags Skagafjarðar skorar á stjórnvöld að endurskoða tafarlaust veiðiheimildir með dragnót upp í fjörur í fjörðum og flóum norðanlands. Ljóst er að rannsóknir á áhrifum þessarra veiða eru litlar og algerlega ófullnægjandi, ekki síst þar sem þessar veiðar eru stundaðar á hrygningarsvæðum mikilvægra fiskistofna. Þá samræmast þessar veiðar illa þeim markmiðum stjórnvalda að auka stórlega friðun með botndregnum veiðarfærum umhverfis Ísland.
  2. Aðalfundur Drangeyjar-smábátafélags Skagafjarðar leggur áherslu á að byggðakvóta í Skaga­firði verði ein­ungis úthlutað til dagróðrabáta sem eru minni en 30 brt. Þá verði aldrei meira en 20% af byggðakvóta á Sauðárkróki úthlutað til hvers útgerðarfyrirtækis. Loks skorar félagið á stjórnvöld að afnema vinnsluskyldu í heimabyggð á mótframlagi byggðakvótans nema tryggt verði að markaðsverð fáist fyrir þann afla.
  3. Aðalfundur Drangeyjar mótmælir harðlega ítrekaðri stöðvun strand­veiða í júlí. Skorar félagið á stjórnvöld að tryggja að þessar veiðar verði leyfðar í 12 daga á mánuði í fjóra mánuði þ.e. maí, júní, júlí og ágúst. Með því verði öryggi veiðanna aukið sem og jafnræði milli útgerða og veiði­svæða umhverfis landið. Þá verði þessar veiðar fyrir­sjáanlegar fyrir sjómenn, fiskkaupendur og aðra sem hafa af þeim atvinnu.
  4. Aðalfundur Drangeyjar skorar á stjórnvöld að gera strandveiðar óháðar aflamarkskerfinu og koma þannig að nokkru til móts við álit mannréttindanefndar SÞ frá árinu 2007.
  5. Aðalfundur Drangeyjar-smábátafélags Skagafjarðar telur ljóst að vísindalegar for­sendur veiði­ráð­­gjafar Hafrannsóknastofnunar í öllum fiskitegundum hafi engan veginn staðist. Skorar félagið á stjórnvöld að láta fara fram úttekt á árangri stofnunar síðustu áratugi. Þá telur félagið að skilja eigi veiðiráðgjöfina frá gagnaöflun og rannsóknum með hliðstæðum hætti og gert var í dómskerfinu á sínum tíma.
  6. Aðalfundur Drangeyjar leggur áherslu á að línuívilnun verði ekki skert enda hún forsenda fyrir útgerð smærri línubáta.
  7. Aðalfundur Drangeyjar-smábátafélag Skagafjarðar krefst þess að flotvörpuveiðum á Íslands­miðum verði hætt enda vel þekkt að mikill meðafli, ekki síst grásleppuseiði og aðrar tegundir smáfiskjar koma í þetta veiðarfæri.
  8. Aðalfundur Drangeyjar skorar á hafnaryfirvöld á Sauðárkróki að bæta sem fyrst aðstæður til að taka upp báta á svæðinu norðan smábáta­hafnarinnar. Þá óskar félagið eftir því að öryggisvöktun við smá­báta­höfnina verði aukin með fjölgun öryggismyndavéla og bættri lýsingu við hana.

Fleiri fréttir