Með prjónana í höndunum frá 18 ára aldri

Brúðarmynd af Særúnu og eiginmanninum, Bjarna Guðmundi Ragnarssyni, sem klæðist peysu sem Særún prjónaði. Aðsendar myndir.
Brúðarmynd af Særúnu og eiginmanninum, Bjarna Guðmundi Ragnarssyni, sem klæðist peysu sem Særún prjónaði. Aðsendar myndir.

Særún Ægisdóttir er hárgreiðslu- og hannyrðakona ásamt því að stunda búskap ásamt manni sínum á bænum Haga í Húnavatnshreppi. Hún sagði okkur lítillega frá handverkinu sínu í Hvað ertu með á prjónunum? í 26. tölublaði Feykis árið 2018. Prjónaskapur er hennar uppáhalds handverk þó hún hafi reyndar prófað margar tegundir handavinnu um dagana. Særún segir að barnateppin sem hún hefur prjónað handa systkinabörnunum séu hennar uppáhaldsverk enda virkilega falleg eins og sjá má á einni af meðfylgjandi myndum. Eitt af barnateppunum sem Særún hefur gefið systkinabörnunum í vöggugjöf.

Hve lengi hefur þú stundað hannyrðir?
Ég var mjög ung þegar föðuramma mín, Bjarnveig Þorsteinsdóttir, kenndi mér að prjóna, sennilega um átta ára aldurinn. Hún prjónaði fyrir Handprjónasambandið og var alltaf með eitthvað á prjónunum og lét loks undan nagginu í mér um að læra að prjóna og kenndi mér að prjóna utan um herðatré. En það var ekki fyrr en ég var 18 ára að áhuginn kviknaði fyrir alvöru og ég hef sennilega ekki verið prjónalaus síðan þá.

Hvaða handavinnu þykir þér skemmtilegast að vinna?
Mér finnst skemmtilegast að prjóna úr íslenska lopanum, þó ég hafi gert ýmislegt annað. Ég hef til dæmis lært að mála postulín, saumað nokkra Harðangurs og klaustur dúka, saumað út eldhúsmyndir og dúka með krosssaum, jólakúlur og bjöllur úr perlum svo eitthvað sé nefnt.

Sýnishorn af húfunum sem Særún selur í Hitt og þetta handverk á Blönduósi.Hverju ertu að vinna að um þessar mundir?
Ég er alltaf með eitthvað á prjónunum fyrir Hagahönnun sem ég sel hjá Hitt og þetta handverk á Blönduósi og akkurat núna er ég með fjórar kaðlahúfur í vinnslu. Það síðasta sem ég prjónaði til heimilis- og einkanota var björgunarsveitapeysan sem ég gaf mágkonu minni í afmælisgjöf, hugmyndin þar á bakvið er mjög einföld, hún er ein af þeim sem á allt, og henni er alltaf kalt og er á útkallslista hjá Björgunarsveitinni á Kjalarnesi, þannig að þetta lá bara beint við.Þessar húfur voru á prjónunum þegar þátturinn kom í Feyki.

Hvaða handverk sem þú hefur gert ert þú ánægðust með?

Það handverk sem ég er ánægðust með, eru sennilega barnateppin sem ég hef gert og gefið systkinabörnunum mínum í vöggugjöf. Greta María, mágkona mín, lét mig fá gamalt teppi sem amma hennar prjónaði í gamla daga og langaði mikið í svoleiðis fyrir frumburðinn sinn. Þar sem það var engin uppskrift til þá var ekkert annað i stöðunni en að telja það út og byrja að prjóna og nú eru komin fimm stykki.

     Púðar í strekkingu.     

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir