Nemendur Höfðaskóla klöktu út níu hænuungum

Nemendur á miðstigi Höfðaskóla á Skagaströnd, ásamt kennara sínum, hafa ungað út níu hænuungum og er skólastarfið því með líflegra móti þessa dagana. Sara Diljá Hjálmarsdóttir, skólastjóri, segir að þau hafi langað til að fara í svona verkefni í tengslum við náttúrufræði og má segja að ungir sem aldnir skemmti sér vel yfir ungviðinu.
„Umræddur kennari á hænur sem eru til heimilis á Kjalarlandi og komu eggin þaðan en starfsmaður skólans átti útungunarvélina og var glaður tilbúinn til að lána krökkunum hana. Ferlið gekk miklu betur en við þorðum að vona þar sem ekki var mikil reynsla í þessum efnum hjá starfsfólkinu og komu ungar úr öllum níu eggjunum sem sett voru í vélina sem er í raun alveg ótrúlegt þar sem sjaldnast fást ungar úr öllum þeim eggjum sem sett eru í vélarnar,“ segir Sara Diljá.
Þeir páskaungar sem rata í fjölmiðla landsins eru oftast gulir á litinn en þessir skera sig úr að því leyti að litur þeirra ræðst af því að eggin koma frá landnámshænum sem allar eru skrautlegar á litinn.
Sara Diljá vill hvetja alla þá skóla sem tök hafa á að prófa að fara í álíka verkefni þar sem þetta er bæði fróðlegt og skemmtilegt.
Fleiri myndir af nemendum og ungum Höfðaskóla má finna HÉR