Syngur gömul íslensk dægurlög í sturtunni / SIGURLAUG VORDÍS

Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir býr í Skógargötunni á Sauðárkróki en alin upp í Sunnuhvoli í Hofsósi. Silla er ljómandi góð söngkona sem hefur víða komið við en er kannski þekktust fyrir frammistöðu sína með eðalbandinu Contalgen Funeral.

Auk þess að syngja grípur hún í skeiðar, greiður og jafnvel bein til gamans. Nú í Sæluvikunni er Sigurlaug Vordís í fylkingarbrjósti hópsins sem stendur fyrir uppsetningu á tónlistarveislunni Árið er í Íþróttahúsinu á Sauðárkróki.

Helstu tónlistarafrek? Já, ég veit ekki alveg hvernig maður mælir það. Ég hef sungið nokkrum sinnum fyrir forsetann, stigið á svið með frábærum hljómsveitum og stórkostlegum flytjendum, spilað á yndislegum íslenskum tónlistarhátíðum eins og Aldrei fór ég suður, Bræðslunni, Gærunni, Rauða sandi, Blúshátíð í Reykjavík, V.S.O.T. og Iceland Airwaves. Það var heldur ekkert leiðinlegt að spila með Of Monsters and Men á Græna hattinum, Emiliönu Torrini á Drangeyjar festivalinu og svona gæti maður talið upp endalaust. En það að gefa út tvær plötur, sem eiga eftir að lifa lengur en ég, er sennilega það sem telst til afreka.

Hvaða lag varstu að hlusta á? Syngjandi Stelpurokk með Todmobil. Aðeins að hita upp nostalgíuna fyrir Árið er í Sæluviku.

Uppáhalds tónlistartímabil? Tímabilið þegar DROTTNINGARNAR- GYÐJURNAR voru og hétu; Ella Fitzgerald, Aretha Franklin, Billy Holiday og Nina Simone.

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Tónlist sem er ekki mjög mainstream og ekki produceruð í drasl. Hráleiki og fílingurinn „reherse more – edit less.“ Agent Fresco gaf út æðislega plötu fyrir stuttu, eyrun sperrtust næstum því af við fyrstu hlustun.

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Foreldrar mínir hlustuðu á mjög fjölbreytta tónlist- Queen, Sinead O'Connor, Megas, ýmsa karlakóra og klassíska tónlist. Bróðir minn ól mig upp á Pink Floyd, Bubba Morthens, Iron Maiden og Metallica. Mágkona mín kom mér upp á Janis Joplin og Björk og önnur systir mín var með Wham! æði. Þannig að þetta var afar fjölbreytt.

Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér?  Bigger, Better, Faster, More með 4 Non Blondes.

Hvaða græjur varstu þá með? Heyrðu, Panasonic sem gat spilað útvarp, vínil, kasettur og geisladiska. Aðal trendið þegar ég fermdist. En vasadiskóið var látið hafa það óþvegið þangað til ég fékk dýrgripinn. Ekki langt síðan að græjurnar dóu.

Hvað syngur þú helst í sturtunni? Gömul íslensk dægurlög eða æfi þau lög sem ég er að fara að performa.

Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn?  SMS tónninn hans Vignis Kjartanssonar ;o) ... Nei, það er ekkert lag sem eyðileggur fyrir mér daginn, maður bara slekkur eða lækkar svona rétt á meðan.

Uppáhalds Júróvisjónlagið? Gleðibankinn er algjör perla, en ég er samt glöðust með þá sem hafa reynt að hrista aðeins upp í Júróvision eins og Pál Óskar, Sylvíu Nótt, Lordy og finnska lagið núna síðast.

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Earth, Wind and Fire.

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Á sunnudögum er vínilspilarinn alltaf brúkaður. Þá hljóma Carol King, Aretha Franklin, Memfis Mafían, Gunnar Þórðar með fyrsta og öðrum kaffibollanum – ótrúlega notalegt – en þegar líður á kaffibolla nr. 3 og nr. 4, þá er Sound City yfirleitt komin á fóninn.

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Shiiiiiii, svo agalega margir tónleikar sem kæmu til greina en Foo Fighters með Fúsa hljómar stórkostlega eða Tom Waits tónleikar með meðlimum (rosalegt orð meðlimir)... allavega meðlimum hljómsveitarinnar Contalgen Funeral.

Hvaða músík var blastað í bílnum þegar þú varst kominn með bílprófið? Led Zeppelin, Weezer, Nirvana, Eva Cassidy, Emiliana Torrini. Nú er öllu bara blastað, finnst best að hlusta á tónlist í bíl og hlusta sennilega mest á tónlist í bíl, mjög hátt stillt, sama hvaða tónlist það er og sama hverjir eru með mér í bílnum.

Hvaða tónlistarmann hefur þig dreymt um að vera? Þegar ég var lítil þá var Ragga Gísla my girl og er það enn. Svo hefði verið gaman að vera uppi hérna í denn og vera Ella Fitzgerald og svo hefði ekkert verið verra að vera Cyndi Lauper þegar hún seldi 40 þús million diska...

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? Heart of Saturday Night með Tom Waits slash Nevermind með Nirvana. En ég fæ samt líka alveg gæsahúð að hugsa til nýjustu David Bowie plötunnar –Black Star.

Sex vinsælustu lögin á Playlistanum þínum? Þetta er svo erfitt….Þetta fer alfarið eftir því hvað ég er að gera og hvort ég sé að læra lag fyrir gigg and so on…En akkúrat núna þá segir Playlistinn:
Life on Marz – Davið Bowie
Far away – Eyvör Páls
Brennum allt – Úlfur Úlfur
Old man – Neil Young
Trouble – Bellstop
Paradísarfuglinn – Megas

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir