Ofurspenntir krakkar á Króksamóti

Króksamót Tindastóls var haldið í Síkinu á laugardaginn og var þetta í tíunda skipti sem þetta mót var haldið. Um 150 krakkar, bæði stelpur og strákar, tóku þátt og komu þátttakendur að þessu sinni frá Þór Akureyri, Samherja Eyjarfjarðasveit, Smáranum Varmahlíð, Fram Skagaströnd, Hvöt Blönduósi og Tindastól Sauðárkróki.

Ég þori að fullyrða að flest allir þátttakendurnir hafi verið komnir á yfirsnúning af spenningi rétt fyrir mót því eins og flestir vita þá þurfti að fresta Króksamótinu síðasta haust sökum Covid og lítið verið um körfuboltamót síðasta eina og hálfa árið fyrir þennan aldur. En á þessu móti spiluðu krakkar frá 1. bekk og upp í 6. bekk og var ekki annað að sjá en að allir hafi skemmt sér vel.

Fyrstu leikirnir byrjuðu kl. 9:00 og síðustu leikirnir flautaðir af um 15:40 og var spilað 2*10 mínútur. Í tilkynningu frá mótsnefnd kemur fram að áherslan hafi verið lögð á leikgleði og að engin stig hafi verið talin en krakkarnir voru nú alveg með á hreinu hver lokastaðan var í hverjum leik fyrir sig. Þá fengu allir þátttakendur vatnsbrúsa að gjöf frá Steinullarverksmiðjunni og verðlaunapening ásamt því að boðið var í pizzaveislu.

Stjórn barna og unglingaráðsins vill þakka öllum þátttakendum kærlega fyrir komuna ásamt því að senda innilegar þakkir til allra sem hjálpuðu til við að manna vaktir og öllum dómurunum og þjálfurum fyrir frábært samstarf. Án ykkar væri þetta ekki hægt.

Sjáumst á næsta Króksamóti 

Áfram Tindastóll!

Myndir: Sunna, Thelma, Hanna, Helgi Freyr, Sara og Sigga

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir