Sprenghlægilegur Pétur Jóhann skemmtir á Blönduósi

Skagfirðingurinn og brandarabúntið Pétur Jóhann Sigfússon ætlar að skella í sprenghlægilega sýningu með glænýju efni og skemmta Blönduósingum og öðrum góðum gestum í félagsheimilinu á Blönduósi að kvöldi skírdags.

Í umsögn á Facebook-síðu Péturs segir: „Það er ekki á hverjum degi sem að þessi fáránlega fyndni og prýðisgóði piltur er með uppistand opið öllum. Það er því um að gera að nýta þetta einstaka tækifæri til að sjá Pétur Jóhann live. Pétur er, eins og alþjóð veit, gríðarlega skemmtilegur og eftirsóttur uppistandari. Þar að auki hefur hann unnið marga stóra sigra í kvikmyndum og sjónvarpi.“

Það er því ekki að undra eftir þessa hógværu lýsingu á listamanninum að þá kallist sýningin PÉTUR JÓHANN ÓHÆFUR. Forsala miða á sýninguna hófst 5. apríl sl. hjá Ebba snilling á Tene. Um er að ræða 2 klst. uppistandssýningu sem Pétursjálfur samdi og er sjálfstætt framhald sýningarinnar PÉTUR JÓHANN ÓHEFLAÐUR sem fór sigurför um landið fyrir nokkrum árum.

Ef svo óheppilega vill til að einhver missi af uppistandinu á Blönduósi þá endurtekur Pétur leikinn á Verkstæðinu á Akureyri föstudaginn langa.

Fleiri fréttir