Telur rétt að taka við húsunum

Frá Skagaströnd. Mynd:northiceland.is
Frá Skagaströnd. Mynd:northiceland.is

Oddviti Sveitarfélagsins Skagastrandar, Halldór G. Ólafsson, telur rétt að taka við nokkrum eignum FISK Seafood á Skagaströnd þótt þær séu ekki í sem bestu ásigkomulagi og gera úr þeim tækifæri. Friðbjörn Ásbjörnsson, framkvæmdastjóri FISK, sagði frá fyrirhuguðum fjárfestingum og breytingum á húsakosti í opnu bréfi til samstarfsfólks á fyrstu dögum nýs árs, meðal annars þess að framundan væri að afhenda Skagastrendingum án endurgjalds stjórnsýsluhús og hús sem áður hýstu rækjuverksmiðju og síldarverksmiðju.

Í Morgunblaðinu í dag er rætt við Halldór sem segir að afhending eignanna hafi ekki verið tekin fyrir í sveitarstjórn. Lítið viðhald hefur verið á húsunum og kostar umtalsverða fjármuni að taka þau í gegn. Eins og málið sé kynnt verði þau afhent án endurgjalds og telur hann rétt að taka við þeim og vinna að viðhaldi í áföngum, frekar en láta þau grotna áfram niður. Jafnframt megi skapa ný tækifæri í atvinnurekstri á Skagaströnd.

Meðal umræddra eigna er svokallað stjórnsýsluhús sem er skrifstofuhúsnæði sem var í eigu Skagstrendings áður en FISK tók reksturinn yfir. Hluti af neðstu hæðinni er í eigu sveitarfélagsins sem er með skrifstofur sínar þar auk þess sem greiðslustofa Vinnumálastofnunar hefur hluta hæðarinnar á leigu. FISK á tvær efri hæðirnar, miðhæðin stendur auð en greiðslustofa Vinnumálastofnunar er á efstu hæðinni. Halldór segir að starfsemi Vinnumálastofnunar sé mikilvæga og laga þurfi húsnæðið svo aðstæður stofnunarinnar verði ásættanlegar. Gerðar hafi verið tillögur að breytingum og segir Halldór mikilvægt að ráðast í þær og telur rétt að setja þær í forgang.

Annað umræddra húsa er 1.600 m2 hús sem áður hýsti rækjuvinnslu og fiskvinnslu og er notað sem geymsla og hýsir ákveðna starfsemi sem tengist Kaupfélagi Skagfirðinga. Halldór segir nauðsynlegt að laga ytra byrði hússins til að koma í veg fyrir frekari skemmdir. Vonast hann til að hægt verði að koma þar upp einhverri starfsemi.

Þriðja húsið er gömul síldarverksmiðja á hafnarsvæðinu sem breytt hefur verið í frystigeymslur. Halldór sér fyrir sér að hugsanlega mætti leigja það út eða selja.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir