Um fornleifarannsóknir á Höfnum á Skaga | Ásta Hermannsdóttir skrifar

Fjórða sumarið í röð fór fram uppgröftur á búðaminjum á Hafna-búðum á Hjallanesi í landi Hafna á Skaga. Í sumar voru grafin upp, að hluta eða öllu leyti, fimm búðir/mannvirki, auk þess sem unnið var á svæðum utan bygginga. Grafið var á sama uppgraftarsvæði og í fyrra. Búðirnar eru í mörgum tilfellum illa farnar og því oft erfitt að greiða úr mannvistarlögum og sjá hvar ein búð endar og önnur byrjar. En allt hefst þetta á endanum og myndin skýrist með hverju árinu.
Vinnukenningin er að þarna hafi ekki eingöngu verið róið á vetrar- og vorvertíðum til fiskjar heldur hafi bygg-ingarnar, og staðurinn, einnig verið nýtt til annars konar auðlindaöflunar, þar á meðal hvalveiða. Vísbendingar í gróðurleifum úr búðunum benda t.a.m. til þess að krækiberjalyng hafi verið borið inn í húsin á vorin, og því ljóst að fólk hefur aðhafst á Hjallanesi yfir fleiri en eina árstíð.
Byggðasafnið hefur verið aðili að rannsókninni frá upphafi, en hún hófst með könnun á sniðum og landrofi við sjávarsíðuna sumarið 2022. Í ár var grafið dagana 21. júlí – 8. ágúst og samanstóð grunnteymi uppgraftarins af Ástu Hermannsdóttur, deildarstjóra fornleifadeildar Byggðasafns Skagfirðinga, Ylfu Leifsdóttur, fornleifafræðinema og sérfræðingi á byggðasafninu, Lísabetu Guðmundsdóttur, fornleifafræðingi og minjaverði Vestfjarða, og Lilju Björk Brinks, sjálfstætt starfandi fornleifafræðingi. Auk þeirra komu aðrir starfsmenn að rannsókninni tímabundið. Verkefnið er líkt og sumarið 2024 samstarfsverkefni með Minjastofnun Íslands, Arkeologiske Museum í Stafangri, UMASS Boston og Háskólanum á Hólum. Rannsóknarteymi þeirra tveggja síðarnefndu er með Dr. John Steinberg og Dr. Guðnýju Zoëga í broddi fylkingar. Meistara-neminn Trace Podder kom með þeim í sumar, líkt og í fyrra, og sá um sýnatökur m.a. úr öskuhaugnum á Hafnabúðum. Verða gróðurleifar og annað áhugavert úr þeim sýnum greint á næstunni. Guðný, John og Trace lögðu áherslu á það í sumar að grafa könnunarskurð í bæjarhól Hafna til að leitast við að skoða byggðaþróun á svæðinu og þannig varpa ljósi á samspil verbúðanna á Hafnabúðum við býlin í kring. Er þetta framhald rannsókna síðasta sumars þar sem grafnir voru könnunarskurðir á fjórum bæjarstæðum í nágrenni Hafnabúða.
Fleiri samstarfsaðilar eru í verkefninu, t.a.m. Western Carolina University, með Dr. Vicky Szabo í fararbroddi, en hún sér um greiningar á hvalbeinum, sem er einstaklega áhugavert þar sem mikið magn hvalbeina einkennir þennan stað. Í háskólanum í Stavanger er það sér í lagi Dr. Dawn Elise Mooney sem veitir okkur liðsinni með því að greina nýtingu strand- og sjávarauðlinda á svæðinu. Er sú vinna hluti af verkefninu Marine Resource Gathering and Infrastructure in the Norse North Atlantic (MARGAIN).
Samkvæmt fyrstu niðurstöðum kolefnisaldursgreiningar úr sýnum frá sumrinu virðumst við vera komnar niður á 12. öld víða á svæðinu og því ekki langt eftir þar til öll mannvist hefur verið grafin upp á því svæði sem opnað hefur verið. Rofsnið við sjávarbakkann gefa til kynna að lítið sé um mannvist undir gjóskulaginu sem féll við Heklugosið árið 1104 og því má gera ráð fyrir að við eigum eftir að rannsaka u.þ.b. eina öld af mannvistarleifum. Það kemur í ljós á næsta ári, en þá er síðasta uppgraftarsumarið á Hafnabúðum fyrirhugað.
Við hvetjum áhugasöm til að skoða myndbönd með viðtölum við fornleifafræðinga á Höfnum í sumar sem finna má á Facebook síðu byggðasafnsins: https://www.facebook.com/byggdasafnskagfirdinga
Örstutt um myndirnar að neðan
Gripir ársins samanstóðu að miklu leyti af dýrabeinum, steingripum og allskyns járngripum. Járngripirnir eru oft ógreinilegir ryðklumpar sem erfitt er að gera sér í hugarlund hvað séu en hægt er að röntgenmynda þá og geta slíkar myndir oft varpað ljósi á innihald klumpsins. Það á t.d. við um stóran járngrip sem fannst í sumar og var, vegna stærðar og ástands, sendur beint inn á Þjóðminjasafn Íslands. Þar var gripurinn röntgenmyndaður og virðist vera inni í honum einhvers konar keðja með löngum hlekkjum og hugsanlega hneif á endanum. Það verður þó ekki sagt með vissu nema með frekari griparannsókn. Hvalbein voru gríðarmörg og sum mjög stór; hryggjarliðir og rifbein. Það virðist sem svo að fuglabeinum fjölgi aðeins eftir því sem við komumst lengra aftur í tímann, en endanleg greining á tegundum og fjölda dýrabeina mun ekki liggja fyrir fyrr en seinna.
- - - - -
Pistill Byggðasafns Skagfirðinga er skrifaður af Ástu Hermannsdóttur fornleifafræðingi