Á sumarlokun leikskóla rétt á sér?
Í sumar verður leikskólum í Skagafirði lokað í fjórar vikur eins og síðustu ár. Lítið sem ekkert er í boði fyrir börnin eða foreldrana á meðan á lokun leikskóla stendur. Nánast eina úrræði foreldra er að taka sér sumarfrí á meðan á lokun stendur. Í mörgum tilfellum er það þannig á vinnustöðum, að foreldrar eru settir í frí á ákveðunum tímum sumars. Þessi frí stangast iðulega á við lokun leikskólanna og lenda margir foreldrar í því að þurfa að kaupa sér barnapössun annarsstaðar frá eða leita til ættingja og vina um aðstoð. Í þeim tilfellum komast börnin ekki í eiginlegt frí heldur eru þau send frá einum stað til annars, í stað þess að njóta þess að vera í fríi með sinni fjölskyldu.
Í Sveitarfélagi eins og Skagafirði, sem telur sig fjölskylduvænt sveitarfélag, finnst mér þessi afstaða til skammar. Leikskólar eiga að vera opnir á sumrin og öll börn eiga rétt á að fá sumarfrí með fjölskyldum sínum. Leikskólarnir verða að vera sveigjanlegri til að hægt sé að tala um barnvænt samfélag.
Er ekki hægt að leysa vanda sumarleyfa starfsfólks með því að ráða ungt fólk til afleysinga? Væri það ekki skynsamlegra og skapa þannig atvinnu fyrir þann hóp?
Ef ekki er hægt að halda leikskólunum opnum yfir sumartímann, hvernig væri þá að taka upp opnun Gæsluvalla aftur? Það myndi leysa ýmsan vanda, ég tala nú ekki um atvinnuskapandi?
Hugsaðu málið! – VINNUM SAMAN að lausn.
Eybjörg Guðnadóttir
Höfundur er í 7. sæti á lista Sjálfstæðisflokks Skagafjarðar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.