Lét sig dreyma um að syngja eins og Celine Dion / HUGRÚN SIF

Hugrún Sif Hallgrímsdóttir (1981) býr á Skagaströnd en var alin upp á Blönduósi, dóttir Raddýjar í bankanum og Svans frá Kringlu. Hugrún Sif er tónlistarséní, spilar á píanó, þverflautu, söngrödd, orgel og það sem til fellur – enda kennir hún í tónlistarskólanum og er organisti. Spurð út í helstu tónlistarafrek segir hún: „Ég get ómögulega valið einhver sérstök afrek en það sem stendur uppúr sem dýrmæt minning er að hafa sungið í Notre Dam kirkjunni í Frakklandi.“

Uppáhalds tónlistartímabil? Ég hlusta á tónlist frá öllum tímabilum en 80´s tónlistin kemur sterk inn því ég fæ oftar en ekki einhver nostalgíuköst þegar ég hlusta á tónlist frá þeim tíma.

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Ég nýt þess að hlusta á alls konar tónlist en þessa dagana hlusta ég af sérstakri athygli eftir sjómannalögum því það styttist í sjómannadag og þá kemur hópur vaskra manna saman hér af staðnum og syngur saman í rödduðum söng undir minni stjórn.

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Mamma hlustaði mikið á Bubba og svo man ég líka eftir að hún hafi mikið hlustað á Halla Reynis.

Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Ég man ómögulega hvaða disk, já eða kasettu ég eignaðist fyrst en ég gæti trúað að það hafi verið Jagged Little Pill með Alanis Morrisette, ég hlustaði allavega óheyrilega mikið á hann.

Hvaða græjur varstu þá með? Ég fékk einhverjar ef ég man rétt Pioneer græjur á unglingsárunum og man eftir mér fleiri fleiri klukkutíma fyrir framan tvöfalda kasettutækið að taka upp í óendanlega mörgum röddum þar sem ég flutti kasettuna á milli hólfa til að taka yfir, aftur og aftur og aftur J

Hver var fyrsta platan sem þú óskaðir þér í jólagjöf (eða fyrsta lagið sem þú mannst eftir að hafa fílað í botn)? Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum þá fannst mér lagið My Way alltaf alveg hrikalega flott.

Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn? Ég held að ég gæti aldrei látið eitthvað lag skemma fyrir mér heilan dag en ég bara þoli ekki techno tónlist.

Uppáhalds Júróvisjónlagið? Mér þykir Heyr mína bæn ( Non ho l´etá) alveg ofsalega fallegt og þessa dagana er flutningar Eyglóar Amelíu í uppáhaldi J

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Ég myndi bara finna random playlista á Spotify.

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Ég uppgötvaði nýlega diskinn Kveðja með Friðrik Ómari og hlustaði einmitt á hann síðasta sunnudagsmorgunn, á eftir að hlusta á hann oft og mikið.

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Ég væri ekkert lítið til í að fara á Eurovisionkeppni með eiginmanninum.

Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera? Mig hefur ekki dreymt um að vera neinn sérstakur en ég væri alveg til í að hafa flautuhæfileika Ian Anderson og söngrödd einhverrar flottrar dívu. Á yngri árum lét ég mig dreyma um að syngja eins og Celine Dion en ég óx uppúr þeirri þrá fyrir ansi löngu J

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? Ef ég hugsa um plötur sem ég hef haldið uppá nýlega þá stendur platan Dýrð í dauðaþögn (Ásgeir Trausti) uppúr.

Sex vinsælustu lögin á Playlistanum þínum? Taktföst lög sem hægt er að hlaupa við eru þau vinsælustu! T.d. Muse, Rammstein, Rage against machine og eitthvað í þessum dúr. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir