Að alast upp á Sauðárkróki - Áskorandi Helga Elísa Þorkelsdóttir

Allstaðar þar sem ég hitti nýtt fólk og kynni mig þá er ég ekki lengi að koma því að, að ég er Skagfirðingur, enda mjög stolt af því. Við Bjarni, eiginmaður minn, erum bæði fædd og uppalin á Sauðárkróki en fluttum 20 ára til Reykjavíkur í nám. Á meðan námi okkar stóð, ræddum við oft framtíðina og hvar við vildum búa, þ.e. erlendis, á höfuðborgarsvæðinu eða á Sauðárkróki. Að lokum ákváðum við að hreiðra um okkur í Kópavogi.

Sá þáttur sem við ræddum hvað mest í þessu ákvarðanaferli okkar var hvort við ætluðum í alvöru að ala börnin okkar upp í borginni....ala upp „borgarbörn“. Við vorum sammála um gæði þess að alast upp á Króknum og nú þegar við sinnum uppeldi barnanna okkar, verður mér oft hugsað til uppvaxtaráranna á Króknum.

Eins og Sunna Björk nefndi í pistlinum á undan mér, þá fer gríðarlegur tími í skutl hér á höfuðborgarsvæðinu. Mér finnst ég stundum ekki gera neitt annað, en að sækja í skólann, skutla á fótboltaæfingar, sækja á fimleikaæfingar og sækja í dægradvöl eða á leikskólann. En svo hugsa ég til baka og minnist þess að við Anna Beta löbbuðum oftast nær alltaf heim úr Gagganum, í öllum veðrum, vegna þess að við nenntum ekki að bíða eftir skólarútunni. Við löbbuðum alltaf á frjálsíþrótta- og sundæfingar og löbbuðum svo heim aftur. Þetta sat í mér, en ég huggaði mig við það að vegalengdin fyrir börnin mín hérna fyrir sunnan væri miklu lengri, en það sem ég labbaði á Króknum. Mér til mikillar armæðu þá komst ég að því að vegalengdin í skólann hér í Kópavogi er styttri en það sem ég labbaði á Króknum.

En það sem verra er, er að nú má heldur ekki snjóa á börnin mín. Börnin mín vita ekki hvað snjóbylur er. Þannig er hérna fyrir sunnan að ef það er örlítil föl á jörðinni og smá vindur, þá verð ég að renna úr vinnunni í Hafnarfirði til að sækja börnin í skólann kl. 13.30. Þá er mér oft hugsað til snjóbyljanna sem voru á veturna á Króknum, þegar maður sá ekki á milli húsa í Grenihlíðinni. Þá dreif maður sig í snjógallann, skellti á sig skíðagleraugunum og fór út að leika sér.

Ég gæti haldið þessari upptalningu endalaust áfram en sé strax að ég verð að viðurkenna að við erum að ala upp borgarbörn. Ég reyni þó að hugga mig við það að þetta gæti verið verra. Samstarfskona mín frá Brasilíu kom til Íslands í fyrsta skipti fyrir stuttu og það sem vakti mesta athygli hennar var að sjá börn labba um ein á leið í skólann. Það að sjá börn labba ein er eitthvað sem sést ekki í Rio De Janeiro. Önnur samstarfskona mín frá Sviss sagði frá því að það væri bannað samkvæmt svissneskum lögum að skilja börn yngri en 10 ára eftir ein heima. Henni bar því lagaleg skylda til þess að fara með allan barnaskarann með sér í búðina ef hún þurfti að skjótast eftir einum hlut. Og samstarfsmenn mínir í Ísrael sem allir eru með sprengjuheld rými í húsunum sínum.

Niðurstaðan er því sú að samanborið við Ísrael, Sviss og Brasilíu þá er gott að búa í Kópavogi, en samanburðurinn verður erfiðari þegar Króknum er bætt inn í jöfnuna.

Ég þakka Sunnu Björk fyrir þessa áskorun og vil í framhaldinu skora á Pálu Rún Pálsdóttur að skrifa næsta pistil.

Áður birst í 9. tbl. Feykis 2020.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir