Eitt af topp 10 bestu mómentum lífsins að hitta Ariönu Grande / VALDÍS

Það er Króksarinn Valdís Valbjörnsdóttir sem svarar Tón-lystinni að þessu sinni en hún er 20 ára. Hún er dóttir Önnu Sigríðar Stefánsdóttur og Valbjörns Geirmundssonar. Hljóðfæri Valdísar eru röddin og gítar en nýlega lauk hún námi við Complete Vocal söngskólann í Kaupmannahöfn

Valdís tók árið 2018 þátt í Söngkeppni framhaldsskólanna fyrir hönd FNV og sigraði þar símakosninguna. Nú í júlí vakti hún verðskuldaða athygli þegar hún söng Vor í Vaglaskógi undurfallega í Tónaflóði Sjónvarpsins. Spurð út í helstu afrekin á tónlistarsviðinu hingað til segir hún: „Að vera byrjuð að gefa út mitt eigið efni,“ en í vor gaf Valdís út hið ágæta lag Hold On To Our Love í samstarfi við Future Lion og nú rétt á dögunum bætti hún við laginu Fake Friends.

Hvaða lag varstu að hlusta á? The Love Club með Lorde.

Uppáhalds tónlistartímabil? Núna, elska að fylgjast með í hvaða átt tónlistin er að fara.

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Er mjög mikið að fylgjast með poppinu og hef verið að hlusta á tónlistarmenn eins og Ariana Grande, Sigrid, Charlie Puth, Zara Larsson, Troye Sivan og Wafia.

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Það var mjög fjölbreytt. Pabbi hlustaði á bæði rokk og popp en mamma var meira í diskóinu.

Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Er ekki alveg viss, en fyrsta niðurhalið mitt á iTunes var Yours Truly albúmið Ariana Grande.

Hvaða græjur varstu þá með? Var með iPhone 5.

Hvert var fyrsta lagið sem þú manst eftir að hafa fílað í botn? Örugglega This Is Me með Demi Lovato úr myndinni Camp Rock, söng þetta lag mjög mikið þegar ég var lítil.

Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn? Ég er með mjög breiðan tónlistarsmekk og hef ekki ennþá heyrt lag sem gæti virkilega eyðilagt fyrir mér daginn.Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Þeir sem þekkja mig vita að ég er ekki mesta partí manneskja sem hægt er að finna, en það kemur ekkert annað til greina en I Want It That Way með Backstreet Boys.

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Kósí playlistann minn sem inniheldur falleg róleg lög með Adele, Tom Odell, Tori Kelly, Ben Platt, FINNEAS, Daniel Caesar og fleiri.

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Ég myndi vilja fara á Demi Lovato tónleika í London með systir minni.

Hvaða músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst nýkomin með bílpróf? Ég er mikil söngleikja manneskja og þegar ég fékk bílpróf þá var ég að blasta Hamilton, sem ég kann frá A-Ö. Alveg magnaður söngleikur, mæli mjög mikið með!

Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera eða haft mest áhrif á þig? Ariana Grande, hef verið mjög mikill aðdáandi hennar síðan hún byrjaði að gefa út tónlist og ég fæ mjög mikinn innblástur frá henni. Hitti hana baksviðs á tónleikunum hennar í Edinborg árið 2015 og það er eitt af top 10 bestu mómentum lífs míns.

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? Ég myndi segja Yours Truly og My Everything með Ariana Grande. Þetta er í rauninni það fyrsta sem ég hlusta á þegar ég fer í alvörunni að pæla í tónlist.

Sex vinsælustu lögin á Playlistanum þínum? (lag/flytjandi)

Don’t Kill My Vibe – Sigrid

I Warned Myself – Charlie Puth

I’m Good – Glowie

God Is A Woman – Ariana Grande

Hurts – Wafia ft. Louis The Child & Whethan

Blue World – Mac Miller

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir