Varað við hálku á fjallvegum norðanlands

Bíll fór út af og valt í morgun á Öxnadalsheiði en þar er nú flughált. Ökumaðurinn var samkvæmt upplýsingum einn í bílnum og hlaut ekki alvarleg meiðsl. Það er haustbragur á veðrinu þessa dagana enda komið fram yfir miðjan september svo það kemur ekki á óvart. Á vef Vegagerðarinnar má sjá að nú í morgun er varað við hálku á fjallvegum.
Verst virðist ástandið hér norðanlands vera á Öxnadalsheiði þar sem er flughált. Háka er á Þverárfjallsvegi og hálkublettir á Holtavörðuheiði. Þar sem flestir ökumenn eru enn með sumardekkin undir sjálfrennireiðum sínum þá er vissara að fara að öllu með gát þegar ekið er um fjallvegi. Að öðru leyti eru vegir greiðfærir.
Nú er um 2-3 stiga hiti í byggð á Norðurlandi vestra en heldur hlýnar þegar líður á daginn. Það má reikna með smá skúrum af og til en kaldara verður til fjalla og því áfram nauðsynlegt að hafa varann á þegar ekið er um fjallvegi. Þannig er til dæmis ekki reiknað með að hiti fari mikið yfir frostmark á Öxnadalsheiði og þar er spáð slyddu seinni partinn í dag og hita um frostmark í kvöld.
Veðrið verður svipað á morgun, fösstudag, en Veðurstofan spáir björtu og fallegu haustveðri á laugardag en hellirigningu mestallan sunnudag á svæðinu. Langtímaspár gera ráð fyrir hlýrra veðri í næstu viku og gerir Blika ráð fyrir 14 stiga hita á Sauðárkróki föstudaginn eftir rúma viku.