Af hverju ætti fólk að treysta Framsóknarflokknum?

Heiðar Lind

Þessari spurningu hafa vafalaust margir velt fyrir sér undanfarið og notað hana á alla flokka sem nú bjóða þjóðinni starfskrafta sína í komandi kosningum. Spurningin er góð og beinskeytt, og jafnframt mjög nauðsynleg til að skýra stefnu flokkana og hvers vegna kjósendur ættu að treysta þeim.

Elstur þessara flokka er Framsóknarflokkurinn, flokkur sem ég er félagi í. En hvers vegna er ég félagi í þessum flokk? Og hvers vegna ættu landsmenn að veita flokknum stuðning með því að setja X við B í kosningunum framundan og treysta honum fyrir stjórn landsins? Skoðum málið. 
 
Flokkur sem hefur fengið reisupassan
Niðurstaða kosningana 2007 sýndu ótvírætt, að kjósendur gáfu Framsóknarflokknum rauða spjaldið og sendu hann beint í pólitískan skammakrók, þar sem hann hefur dúsað um nokkurt skeið. Fylgishrun hans var algert; tapaði heilum 6% frá kosningunum 2003 eða heilum 11.134 atkvæðum, sem nánast jafngildir öllum íbúum Akranes og Vestmannaeyja í dag. Versta útkoma flokksins í 90 ára sögu hans var staðreynd.

 Ástæður? Stuðningur við stríðsrekstur í Írak, undirlægjuháttur við Sjálfstæðisflokkinn, innanflokksátök, aðkoma flokksins að einkavæðingu, vanræksla á skattkerfinu o.s.frv. Þetta fengu frambjóðendur flokksins að heyra hvar sem þeir komu: flest allt var Framsókn að kenna. Eflaust var gagnrýnin á tíðum ósanngjörn, en ýmislegt var þó rétt, t.d. var stuðningur fyrrverandi formanns flokksins við að setja Ísland á lista með „hinum staðföstu þjóðum" vegna innrásar undir forystu Bandaríkjamanna í Írak, skelfileg mistök og í raun stílbrot í sögu íslenskrar utanríkisstefnu. Þetta og annað lagðist þungt í marga stuðningsmenn Framsóknar sem án hiks guldu flokknum rauðan belg fyrir gráan og yfirgáfu hann í umvörpum.
Sjálfstæðisflokkurinn, sem leitt hafði ríkisstjórn með Framsókn í 12 ár og með Alþýðuflokknum þar áður í fjögur ár, fór í gegnum 2007 kosningarnar á hálfgerðu „cruise control" og uppskáru í makindum sínum góðan sigur undir kjörorðinu „nýir tímar á traustum grunni". Ja hérna! Síðan biðu Sjallar eftir því hvor af vinstri flokkunum myndi hafa betur í stjórnarmyndunaruppboðinu, sem Samfylkingin vann svo með yfirburðum. Eftirleikin vitum við öll: foringjar Þingvallarstjórnarinnar stærðu sig af aðgerðarleysi fram í rauðan dauðan með skelfilegum afleiðingum fyrir þjóðina. Þetta var árið 2007.
Flokkur uppgjörs og endurmats   
Eftir miklar umræður og deilur innan Framsóknarflokksins frá lokum kosningana 2007, var ákveðið að flýta flokksþingi, sem haldið var í janúar á þessu ári. Krafa hafði verið uppi innanflokks um endurnýjun og uppgjör við stefnu síðustu ára og náði sú krafa nýjum hæðum þegar íslenska hagkerfið fór á hliðina sl. haust. Mikil óánægja í samfélaginu leiddi inn í Framsóknarflokkinn, þar sem grasrót hans, almennir flokksmenn, heimtuðu að fá tækifæri til þess að velja sér nýja forystu og þar með gera upp umdeilda fortíð, sem og að taka ákvörðun um stór aðkallandi mál. Þetta tókst á sögulegu flokksþingi þar sem ný forysta var kjörin, forysta leidd af manni sem hafði ekki tekið þátt í pólitísku argaþrasi liðinna ára, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni. 

Þessi nýji formaður átti það sammerkt með öðrum Íslendingum að blöskra það andavaraleysi sem einkennt hafði íslensk stjórnvöld í aðdraganda og eftirleik efnahagshrunsins um liðið haust. Markmið hans og nýrrar forystu voru að fylgja eftir kröfum grasrótar Framsóknarflokksins og þjóðarinnar, um innleiðingu gamalla góðra gilda, sem þjóðfélagið byggðist á og flokkurinn var stofnaður um á sínum tíma: samvinna, skynsemispólitík og félagshyggja, og reyna eftir fremsta megni að finna þjóðinni leið út úr þeim efnahagsþrengingum sem hún var komin í.
Ábyrgur flokkur
Endurnýjaður Framsóknarflokkur kom sem himnasending inn í íslenska pólitík. Nú var hægt að breyta til á stjórnarheimilinu. Ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks var gjörsamlega rúin öllu trausti á þessum tímapunkti undir pottaslætti búsháhaldarbyltingar. Ráðaleysið var algert. Framsóknarmenn voru á réttum stað og á réttum tíma. Þeir sendu skýr skilaboð til vinstri flokkana um að myndu þeir ná saman um stjórnarsamstarf, myndu framsóknarmenn verja þá vantrausti. Skilyrðin sem framsóknarmenn settu fyrir þessum ráðahag voru þrjú:

1. Að boðað verði til kosninga fyrir 25 apríl;

2. Að ráðist verði í aðgerðir til varnar heimilum og fyritækjum;

3. Að efnt verði til stjórnlagaþings.

Með þessu vildu Framsóknarmenn tryggja að kröfum þorra þjóðarinnar yrði mætt með kosningum og aðgerðum í þágu heimila og fyritækja, og að nauðsynlegum og tímabærum lýðræðisumbótum yrði hrint í framkvæmd. Þetta var nauðsynlegt svo góð sátt, sem er forsenda fyrirmyndar þjóðfélags, gæti myndast milli þjóðar og ríkis.
          Athygli vakti að framsóknarmenn sóttust ekki eftir sæti í ríkisstjórn með vinstri flokkunum. Hvers vegna? Jú, flokkurinn vildi sína ábyrgð og virðingu í verki fyrir ákvörðun kjósenda. Það var skýr staðreynd að flokkurinn taldi sig ekki hafa nægjanlegt umboð frá kjósendum til stjórnarsetu og vildi því bíða þangað til að kjósendur segðu sína skoðun að loknum verðandi kosningum. Flokkurinn hafði jú fengið rauða spjaldið í kosningunum 2007. Þetta var punkturinn. Með þessari ákvörðun vildu forystumenn flokksins sína þjóð sinni fram á það, að endurnýjaður Framsóknarflokkur var ekki valdsjúkur flokkur, heldur flokkur sem tekur hlutverk sitt og vilja landsmanna alvarlega, flokkur sem setur þjóð sína í fyrsta sæti en sig númer tvö.
Eru öll kurl kominn til grafar?
Jón Baldvin orðaði það í svargrein til mín á heimasíðu sinni, að hann sé ekki sannfærður um endnýjun Framsóknar, þó hann honum líki vel við nýjan formann flokksins. Þetta eru réttmætar áhyggjur hjá honum og lýsir vel viðhorfum stórs hluta þjóðarinnar til flokksins, sem hefur sömu kenntölu og sá Framsóknarflokkur sem sat 12 ár í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Arfleið hans fylgir okkur sem erum ný í starfi flokksins og er ekki annað að gera en ræða hana með einlægum og auðmjúkum hætti.

Traust kjósenda vinnst ekki aftur nema með tíð og tíma og athöfnum sem það byggir. Slíkt getur tekið mörg ár og er það rétt ályktun hjá Jóni Baldvin, að varla dugar nema a.m.k. eitt heilt kjörtímabil. Í þessu sambandi tel ég t.d. mikilvægt að allt liggi uppi á borðum hvað varðar styrki fyritækja til flokksins á liðnum árum sem og að kannað verði í þaula af Evu Jolie og sýsla af Akranesi, t.d. aðkomu flokksins að einkavæðingu í stjórnartíð sinni. Ekki stendur á mér né öðrum framsóknarmönnum að leiða þetta mál til lykta. Þó megum við ekki tapa okkur í uppgjöri á fortíðinni þessa dagana, þó slíkt sé auðvitað afar nauðsynlegt, því verkefni morgundagsins þurfa líka þarfa umræðu.
Hver er sérstaða Framsóknarflokksins í kosningunum 25 apríl?
Sérstaða Framsóknarflokksins í komandi kosningum liggur í því að flokkurinn hefur bæði gert sýnilega tiltekt í eigin ranni og leggur til lausnir á þeim mikla vanda sem íslensk þjóð stendur frammi fyrir. Nefna mætti nokkur atriði í þessum efnum.
          Efnahagstillögur flokksins liggja fyrir í 18 liðum og standa enn. Þar ber hæst tillaga að flatri 20% niðurfellingu fasteignaskulda, þar sem meginröksemdin er sú, að íslenskir skuldarar fái að njóta hluta þeirra afskrifta sem eigendur skuldana, kröfuhafar, hafa bókfært inn í nýju bankana. Með þessari leið fylgir sú skýra afstaða að stjórnvöld taki stöðu með íslenskri þjóð og leiti allra leiða til að lágmarka þann skuldaklafa sem sýnt er að geti lent á Íslendingum morgundagsins. Framsóknarmenn eru reiðubúnir að taka þetta hlutverk að sér með samvinnuhugsjónina að leiðarljósi, þar sem reynt verður að skapa sátt milli þjóðar, stjórnvalda og kröfuhafa.
          Efnahagstilögurnar eru samhangandi við önnur baráttumál s.s. að standa vörð um velferðakerfi landsmanna. Með því að endurræsa hagkerfið með 20% niðurfellingu fasteignaskulda og öðrum aðgerðum s.s. greiðsluaðlögun, er tryggt að fleiri geti staðið í skilum og þar með greitt skatta til ríkisins. Þar með er hægt að takmarka samdrátt í tekjustofnum ríkissjóðs og með því verða frekari fjármunir en ella til ráðstöfunar fyrir velferðakerfi landsins.
          Sérstaða Framsóknarflokksins liggur líka í því, að flokkurinn er og verður hreinn og beinn lýðræðisflokkur fólksins. Þess vegna styður hann og berst fyrir stjórnlagaþingi, þar sem núverandi stjórnarskrá mun fara í gegnum tímabæra og nauðsynlega endurskoðun óháð skotgröfum flokkana, sem hafa haldið málinu allt of lengi í gíslingu. Eftir slíkt áfall og nú hefur gengið yfir er nauðsynlegt fyrir Íslendinga að ráðast í endurbætur á stjórnskipun sinni, og er stjórnlagaþingið kjörinn vettvangur til þess.  Þess vegna styðja framsóknarmenn þetta þjóðþrifamál.
          Ekki er vinnandi vegur að hafa Evrópumálin í þeim farvegi sem þau hafa verið sl. ár og því telja framsóknarmenn að tími sé til komin að leiða þetta mikla mál til lykta með því að hefja aðildarviðræður við ESB. Sérstaða flokksins í þessum málum felst í skilyrðum sem hann setur fyrir aðild Íslands að ESB. Þar útlista framsóknarmenn með skýrum hætti hvað það er sem ekki eigi að gefa eftir í aðildarviðræðum við ESB t.d. óskoruð yfirráð yfir auðlindum þjóðarinnar, að Íslendingar hafi einir veiðirétt innan sinnar efnahagslögsögu sem og að fiskveiðistjórnun okkar verði innanríkismál Íslendinga, að fæðuöryggi þjóðarinnar verði tryggt og að viðurkennd verði nauðsyn á sérstökum ákvæðum í þeim efnum vegna fámennis þjóðarinnar.

Þar að auki á liggja skýrt fyrir að Íslendingar geti, undir öllum kringumstæðum, sagt sig úr ESB einhliða ef svo ber undir. Að aðildarviðræðum loknum skal leggja aðildarsamning í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem Íslendingar skera úr um hvort ganga eigi í sambandið eða ekki. Framsóknarmenn vilja glaðir sjá hvað standi Íslendingum til boða með aðild að ESB. Það verður ekki fyrr gert, en með aðildaviðræðum  

       
Af hverju X við B?
Síðan ég hóf að starfa innan Framsóknarflokksins haustið 2007 hef ég leitast við að tala fyrir gildum og hugsjónum sem mér fannst hafa gleymst á dögum loftbóluhagkerfisins. Margir voru mér sammála í þessum efnum, innan flokks sem utan. Nú sýnist mér að endurnýjun hefur orðið að veruleika. Fram er komin endurnýjaður og ábyrgur Framsóknarflokkur, undir forystu fólks sem er tilbúið til góðra verka fyrir þjóð sína.
          Framsóknarflokkurinn þarf á góðum stuðningi að halda í þeim verkefnum sem standa bíða úrlausnar. Stuðningur við hann í kosningunum tryggir það að áfram mun vera til staðar flokkur sem talar í lausnum sem fylgir stefnu samvinnu, þjóðlegs frjálslyndis og félagshyggju. Þess vegna ættu kjósendur að setja x við B í kosningunum framundan.
Höfundur skipar 12. sæti á B-lista framsóknarmanna í NV-kjördæmi

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir