Áfram frumkvöðlar og sprotafyrirtæki!

Heyri mikið talað um frumkvöðla nýsköpun og sprotafyrirtæki þessar síðustu vikur og fagna því hve margir eru búnir að opna augun fyrir mikilvægi nýsköpunar, frumkvöðla og sprotafyrirtækja. Velti þó fyrir mér hvað það þýðir í umræðunni að efla frumkvöðla og tala um ný störf í tugum. 

Mín reynsla sem frumkvöðull er að hlutirnir taki lengri tíma en fjögur ár en höfum það þó á hreinu að margt er hægt að gera á fjórum árum. Ef litið er til þeirra sem helstir eru í frumkvöðlafræðum þá er talið frábær árangur að tveir  af 10 nýjum sprotum lifi fyrstu 10 árin. Já kæri lesandi 10 ÁR.

Þegar ég fór af stað með mína hugmynd, haustið 2008, var miðað við í áætlunum að nýtt fyrirtæki ætti að vera á núlli í rekstri á þremur til fimm árum. Það má vel vera að í einhverjum tilfellum sé það svo, en nýtt fyrirtæki þarf ekki endilega að vera sprotafyrirtæki.

Mikil breyting hefur almennt orðið, hvernig horft er til frumkvöðlastarfsemi og í dag eru jafnvel bankastofnanir farnar gefa upp ítarlegar upplýsingar til að efla frumkvöðla. Einnig eru erlendir og innlendir fjárfestar farnir að setja upp frumkvöðlasetur þar sem leigð er út aðstaða fyrir ný fyrirtæki.  Þetta eru allt mjög jákvæðar breytingar.

Með reynslu af að stofna og reka sprotafyrirtæki get ég farið yfir með ykkur  hverjar mínar stærstu hindranir voru í upphafi.  Það var húsnæði, eða skortur á húsnæði eða aðstöðu til að framkvæma hugmyndina. Fyrir tilstuðlan framsýns fólks á Sauðárkróki fékk ég húsnæði, en þurfti að fara í kostnaðarsamar breytingar til að það hentaði starfseminni.  Þarna hefði ef til vill sveitarfélagið getað komið að málum. Mín skoðun er, að þarna liggi eitt af tækifærum sveitarfélagsins til að styðja frumkvöðlastarfsemi í Skagafirði.

Nýsköpun er okkur í K lista Skagafjarðar hugleikin.  Við viljum m.a. athuga hvort :

  • Nýta megi húsnæði gamla barnaskólans á Sauðárkróki eða annað sambærilegt húsnæði undir frumkvöðlasetur þar sem hægt væri að leigja út aðstöðu fyrir sprota.
  • Meta kosti byggingar iðngarða í Skagafirði.
  • Sveitarfélagið Skagafjörður myndi koma upp vottuðu eldhúsi til matvælaframleiðslu.  Með vottuðu eldhúsi getur til dæmis árstíðabundin framleiðsla eins og sultugerð verið seld án nokkurra vandkvæða. Horfa má til þess að nýta félagsheimili sveitarfélagsins til þess.
  • Fella mætti niður fasteignagjöld til handa frumkvöðlafyrirtækjum í stiglækkandi þrepum til þriggja ára þar sem fyrsta árið er gjaldlaust. Í tilfellum þar sem um leigutaka er að ræða gæti sveitarfélagið veitt styrk sem er í samræmi við fasteignagjald af hinu leigða húsnæði. Þetta fyrirkomulag hefur verið framvkæmt í öðrum sveitarfélögum.

Þetta gætu allt verið raunveruleg skref fyrir sveitarfélagið Skagafjörð til að efla og styrkja hugmyndaríka og framkvæmdaglaða Skagfirðinga og gera þeim hægt  um vik til að þróa og skapa nýjar hugmyndir, fleiri fyrirtæki og fleiri störf í Skagafirði.

Með framkvæmdarhug og frumkvöðlakveðjum,

Hanna Þrúður Þórðardóttir, skipar 3. sæti K –lista Skagafjarðar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir