Breytingar :: Áskorandapenninn - Magnús Ólafsson á Sveinsstöðum

Greinarhöfundur í Tjarnarkirkju á Vatnsnesi með bikar sem Guðmundur Ketilsson fékk 1853 fyrir umbætur á leigujörð sinni frá Konunglega danska landbúnaðarfélaginu. Bikarinn gaf hann í Tjarnarkirkju og var hann um árabil notaður þar sem kaleikur. Aðsend mynd.
Greinarhöfundur í Tjarnarkirkju á Vatnsnesi með bikar sem Guðmundur Ketilsson fékk 1853 fyrir umbætur á leigujörð sinni frá Konunglega danska landbúnaðarfélaginu. Bikarinn gaf hann í Tjarnarkirkju og var hann um árabil notaður þar sem kaleikur. Aðsend mynd.

Það eru ártugir síðan ég fermdist. Það var bjartur og fallegur dagur þegar ég stóð við altarið í Þingeyrakirkju eftir undirbúning hjá sr. Þorsteini, prófasti á næsta bæ. Það var fámennt við altarið, þá sveið að skarð var fyrir skyldi. Jafnaldri sem átti að standa þarna með okkur hafði verið hrifinn burt úr þessum heimi, fyrsta dráttavélaslysið sem ég kynntist af raun. Hafði þau sterku áhrif að vinar var saknað á fermingadegi, en varð til þess að ávallt síðar umgekkst ég hættur vélknúinna tækja af virðingu.

Ég hafði lokið skyldunáminu. Á þeim árum var skyldan aðeins þrjú til fjögur ár, jafnvel aðeins fáir mánuðir á ári. Við flest fórum þó eitthvað meira í skóla en þar var ekki mikill hvati til að leggja stund á langt nám á þeim árum.

Í dag er skólaskyldan í 10 ár og hvern vetur er kennt mun lengur en var í mínu ungdæmi. Mikil áhersla er lögð á að unga fólkið haldi áfram í skóla, jafnvel í mörg ár. Kostir sem standa til boða fyrir unga fólkið eru miklu fjölbreyttari í dag en í mínu ungdæmi. Það er vel. Spurning hvort námsleiði sé að verða vandamál.

Ég hef hins vegar áhyggjur af því unga fólki sem ekki á kost á öðru en stunda æskunámið í mjög fámennum skólum.  Ég man hvernig var að koma úr litla skólanum í túnfætinum heima í rúmlega 100 nemenda Héraðsskóla á Reykjum. Í dag þurfa margir nemendur að fara úr 20- 50 nemenda skóla í aðra sem telja nemendur í hundraða tali. Á þeirri vegferð tapa margir áttum og týnast. Æskuárin móta unga fólkið til frambúðar. Sá sem missir fótanna á öðrum áratug sinnar ævi nær sér sjaldan á strik. Þannig flýr mörg einmana sál og villist í þéttum skógi. Hér er breytinga þörf. Hætturnar eru margar. Í mínu ungdæmi fannst mér mesta hættan af óvörðu drifskafti, í dag liggja hættur víða.

Á þeim fögru en köldu vordögum sem okkur hefur mætt á þessu vori hefði margur unglingurinn átt að gangast undir sitt fermingarheit. Í upphafi þessa árs datt engum í hug á hvern hátt heimurinn gjörbreyttist frá því sem hann hefur verið hin síðari ár. Flest með allt öðrum blæ en verið hefur.  Þær miklu breytingar sem á fáum vikum hafa orðið leiðir hugann að öllum þeim breytingum sem orðið hafa á mínu æviskeiði, jafnvel á líftíma þeirra sem fæddir eru á síðustu áratugum liðinnar aldar. 

Eitt er þó sem ekkert hefur breyst. Meginhluti unglinganna, sem gengur upp að altarinu á fermingardegi gerir það alls ekki af einhverjum trúarhita. Miklu fremur af því að flestir vinirnir fermast og svo fá unglingarnir miklar og flottar gjafir. Það gerir daginn frábæran, líkt og jólin. Þar eru gjafir komnar langt úr hófi. Lítið er hugsað um hvers vegna sú hátíð er haldin.

Í þessum pistli hefur mér verið tíðrætt um breytingar. Er ekki full ástæða fyrir kirkjunnar fólk að huga að róttækum breytingum. Vissulega hefur mögnuð og merk breyting orðið í einum og einum söfnuði, en heilt yfir hafa litlar breytingar orðið á kirkjustarfi um aldir.

Sjálfum finnst mér Þingeyrakirkja ein fegursta kirkja landsins. Aldrei er eins dýrðlegt að koma þar og þegar kirkjan er ljósum prýdd á síðkvöldi. Þangað komu fjölmargir vinir mínir og fylltu kirkjuna á síðkvöld og hlustuðu á Álftagerðisbræður á afmæli mínu fyrir nokkrum árum. Oftar hef ég hins vegar setið þar í fámenni á aðfangadagskvöld. Þá eru þar oftar en ekki fáir aðrir en prestur og þeir sem syngja í kórnum eða eiga þangað tengsl. Það var meira að segja fámenni þar á síðasta aðfangadagskvöldi, þó nýr prestur væri kominn. Fögur kirkja, fallegt veður og nýr kvenprestur dugðu ekki til að heilla fólk á þessu kvöldi. Er ekki breytinga þörf.

Ég skora á Hörpu Birgisdóttir bónda og ráðunaut á Kornsá í Vatnsdal að taka pennann næst.

Áður birst í 20. tbl. Feykis 2020

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir