Skora á atvinnuvegaráðherra að draga til baka fyrirhugaðar breytingar á búvörulögum
Á fundi sínum í gær harmaði byggðarráð Skagafjarðar að búið sé að leggja fram frumvarp á Alþingi um breytingar á búvörulögum sem augljóslega munu veikja samkeppnisstöðu bænda og koma í veg fyrir að þeir geti hagrætt í meðal annars rekstri afurðastöðva fyrir kjöt- og mjólkurafurðir. „Það segir sig sjálft að sífellt aukin tækni- og vélvæðing í rekstri afurðastöðva í bæði mjólkur- og kjötiðnaði kallar á stærri einingar sem geta afkastað meira magni með minni mannaflsþörf og þannig lækkað kostnað við vinnsluna í viðkomandi afurðastöð, bændum og neytendum til góða,“ segir m.a. í fundargerð byggðarráðsins. Skorað er á atvinnuvegaráðherra að draga umræddar breytingar á búvörulögum tafarlaust til baka.