Útgáfuhóf Sýslu- og sóknalýsinga Húnavatnssýslu haldið í Breiðholtskirkju

Frá útgáfuhófinu í safnaðarheimili Breiðholtskirkju um liðna helgi. MYNDIR FRÁ SÖGUFÉLAGINU
Frá útgáfuhófinu í safnaðarheimili Breiðholtskirkju um liðna helgi. MYNDIR FRÁ SÖGUFÉLAGINU

Útgáfuhóf vegna endurskoðaðrar útgáfu Sýslu- og sóknalýsinga Húnavatnssýslu fór fram laugardaginn 11. október sl. í safnaðarheimili Breiðholtskirkju. Sögufélag stóð að viðburðinum í samstarfi við Húnvetningafélagið í Reykjavík og var dagskráin bæði fjölbreytt og fróðleg.

Að henni stóðu meðal annarra Ingibergur Guðmundsson, sem flutti áhugaverðan fyrirlestur um Júlíönu Sveinbjarnardóttur (f. 1832), ómaga í Vindhælishreppi. Því næst kynnti Sögufélag hina endurskoðuðu útgáfu sýslu- og sóknalýsinganna, en útgáfunnar nutu þeir Jón Torfason og Svavar Sigmundsson umsjón með. Þeir fluttu jafnframt erindi þar sem þeir fjölluðu um bókina og vinnuna á bak við hana.

Mikið fjölmenni var á viðburðinum og ríkti þar góð stemning enda efnið bæði menningarlegt og lifandi.

Sýslu- og sóknalýsingarnar eiga rætur að rekja til umfangsmikillar könnunar sem Hið íslenska bókmenntafélag stóð fyrir á fjórða áratug 19. aldar. Þá voru sendir spurningalistar til presta og sýslumanna um land allt með beiðni um að lýsa náttúrufari, landslagi, atvinnuháttum, menntun, siðferði, heilbrigði og fornleifum. Markmiðið var að draga upp heildstæða mynd af íslensku samfélagi þess tíma.

Í þessari nýju útgáfu Sögufélags má finna fjölmargt viðbótarefni, meðal annars áður óþekkta lýsingu á Höskuldsstaðasókn frá 18. öld, tvo merkilega uppdrætti sem fylgdu upprunalegu sóknalýsingunum en hafa ekki birst áður, auk ljósmynda af kirkjum og nokkrum höfundum lýsinganna. Þá er birt lýsing á Auðkúluheiði frá miðri 19. öld og stutt bréf um búnaðarhætti í Vatnsdal frá árinu 1890.

Um er að ræða einstakar staðháttalýsingar sem geyma dýrmætan fróðleik um landsvæði og mannlíf í Húnavatnssýslu á 19. öld. Í hverri lýsingu má lesa hvernig náttúran mótaði líf fólksins og hvernig samfélagið skapaði sér tilveru í nánu samspili við landið.

/Fréttatilkynning

Fleiri fréttir