Byggðasafn Skagfirðinga tekur við myndavélasafni Stefáns Pedersen :: Pistill Byggðasafns Skagfirðinga

Stolten og Simmonsen myndavél.
Stolten og Simmonsen myndavél.

Í vor tók Byggðasafn Skagfirðinga við einkasafni frá einstaklingi á Sauðárkróki sem flestir kannast við. Það var myndavélasafn ljósmyndarans Stefáns Pedersen, eða Stebba Ped eins og hann er jafnan kallaður.

Rolleicord myndavél 

 

Stefán fæddist á Sauðárkróki þann 7. desember 1936. Foreldrar hans voru Sigríður Sigurlína Halldórsdóttir og Johan Pedersen.[1] Eftir gagnfræðaskólann lagði Stebbi stund á bakaraiðn til skamms tíma, en veikindi settu strik í reikninginn og þegar hann hafði náð heilsu á ný lagði frændi hans, Árni Halldórsson, til að hann legði fyrir sig ljósmyndun. Árni vann þá við framköllun og lánaði Stebba myndavél til að æfa sig á.

Kodak Brownie Cresta 3 myndavél 

 

Í maí 1955 komst Stefán á samning hjá Sigurði Guðmundssyni, ljósmyndara í Reykjavík. Þar vann hann bæði við ljósmyndun í stúdíói og úti á vettvangi, en þeir mynduðu m.a. fyrir dagblaðið Þjóðviljann. Þrátt fyrir atvinnutilboð í Reykjavík leitaði hugur Stefáns heim á Krókinn og opnaði hann sína fyrstu ljósmyndastofu á Sauðárkróki árið 1958. Árið 1988 flutti hann ljósmyndastofuna um set og kom sér fyrir við Aðalgötu 10a og rak hana þar til ársins 2019.

Polaroid myndavél 

 

Stefán lagði stund á ýmiskonar ljósmyndun í Skagafirði og nærsveitum. Sennilega muna ófáir Skagfirðingar eftir því að hafa farið einhvern tímann í myndatöku á stofuna hjá Stebba, e.t.v. í fermingar-, útskriftar- giftingar- eða fjölskyldumyndatöku. Stebbi fór þó líka víða og tók myndir á ýmsum viðburðum, bæði einkasamkvæmum og sem fréttaritari fyrir Ríkissjónvarpið í nokkur ár uppúr 1974. Stefán myndaði jafnframt fyrir leikfélagið, á leiksýningum á Sæluviku, sem þótti ávallt skemmtilegt verkefni.

Polaroid myndavél 

 

Stefán hóf að safna myndavélum um 1980 og byggir safnið hans bæði á vélum sem hann notaði sjálfur en einnig fékk hann gefins gamlar myndavélar sem fólk var hætt að nota. Myndavélasafnið sem Byggðasafnið tók við samanstendur af tæplega 180 mynda- og upptökuvélum af ýmsu tagi, ásamt fylgihlutum, s.s. hulstrum, öskjum, þrífótum og ýmsu fleiru. Ljósmyndir, filmur og annar afrakstur starfsævi Stefáns var gefið til Héraðsskjalasafns Skagfirðinga til varðveislu. Stefnt er að því til framtíðar að setja upp sýningu með gripum og myndum frá Stefáni, þar sem starfsferli hans, ljósmyndun og framköllun fyrir tíma starfrænna lausna yrði gerð skil, enda sú iðn mjög á hverfanda hveli.

Exakta myndavél 

 

Heimildir:
1 Upplýsingar um Stefán byggja bæði á samtali við hann sjálfan og á blaðagreininni „Myndbrot frá langri starfsævi“ eftir Berglindi Þorsteinsdóttur sem birtist í Jólablaði Feykis árið 2014. Sótt 3.6.2021 af: https://wp.issuu.com/oliarnarbrynjarsson/docs/jolafeykir2014_netutgafa/16

Inga Katrín D. Magnúsdóttir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir