Árni Björn hlaut Samfélagsviðurkenningu Molduxa
Jólamót Molduxa er einn af þessum föstu punktum í lífinu sem margur bíður spenntur eftir og það fór venju samkvæmt fram á annan í jólum í Síkinu. Við setningu mótsins hefur frá árinu 2015 verið veitt Samfélagsviðurkenning Molduxa en hana hlýtur einstaklingur sem innt hefur af hendi dugmikið og óeigingjarnt starf til heilla samfélaginu í Skagafirði. Í ár var ákveðið að hana ætti skilið Árni Björn Björnsson, jafnan kenndur við veitingastað sinn Hard Wok.
„Árni hefur af sinni einstöku framtakssemi sýnt mikinn velvilja þegar eitthvað bjátar á hjá samborgurum sínum og er óþreytandi við að leggja hönd á plóg þegar þess er þörf. Hefur hann m.a. komið að stofnun góðgerðarfélaginu Englum Skagafjarðar sem ætlað er að safna í sjóð sem yrði notaður til að aðstoða fólk sem á þurfa að halda.
Árna var að sjálfsögðu afhentur blómvöndur ásamt skjali til staðfestingar viðurkenningunni. Palli Friðriks setti mótið og afhenti Árna viðurkenninguna og í ræðu hans sagði m.a.: „Sá sem hlýtur viðurkenninguna í ár er ekki aðeins körfuboltafólki að góðu kunnur heldur samfélaginu öllu. Hann hefur sýnt mikinn velvilja þegar eitthvað bjátar á hjá samborgurum og er óþreytandi við að leggja hönd á plóg þegar þess er þörf og hefur m.a. komið að stofnun góðgerðarfélaginu Englum Skagafjarðar. ... Árni kemur í Skagafjörðinn 2007 þegar þau skötuhjú, hann og Ragnheiður fluttu á Hofsós úr Grindavík. Hann segist hafa átt frumkvæðið af því að flytja, ekki Skagfirðingurinn konan hans.
Fyrst við erum hér í Síkinu í dag að leika körfubolta er ekki úr vegi að nefna að Árni stundaði sjálfur íþróttir, júdó, smá fótbolta en aðalega körfubolta. Lék hann með yngri flokkum Grindavíkur og segist vera ægilega montinn af því að hafa verið valinn 14 ára í 50 manna hóp stráka til að fara á landsliðsæfingu á Selfossi. Þar voru strákar eins og Halli Leifs, Kalli Jóns og bræðurnir Eyjólfur og Sverrir Sverrissynir héðan úr Firðinum fagra.
Árni er eðlilega oftast spyrtur við veitingastaðinn sinn Hard Wok sem opnaði 1. maí 2011 og það nafn kemur einnig upp í hugann þegar samfélagshjálp ber á góma. Þau hjónin hafa vakið athygli í samfélaginu þegar kemur að því að styrkja og styðja við fólk sem hefur staðið frammi fyrir erfiðum aðstæðum í lífinu.“ Ræðuna í heild sinni má lesa á Facebook-síðu Molduxa.
Feykir óskar Árna til hamingju með heiðurinn.
