Einu sinni var :: Áskorandinn Kristín Guðjónsdóttir Blönduósi

Fyrir allmörgum árum síðan, eftir miðja síðustu öld, var sú sem þetta skrifar lítil stelpa að alast upp á Blönduósi. Nánar tiltekið þar sem nú er kallað „gamli bærinn“.  Þá bjó maður annað hvort innfrá eða útfrá, það er að segja ég bjó innfrá og var iddi en þeir sem bjuggu utan ár, hinu megin við Blöndu voru úddar. Þessi skilgreining er held ég lítið notuð í dag eða ekkert.

Ég átti heima við Aðalgötu, með pabba og mömmu, og síðar yngri bróður mínum, í litlu bakhúsi sem afi minn byggði en afi og amma bjuggu í húsinu fyrir framan. Þá lá þjóðvegur 1 í gegnum bæinn um Aðalgötu og Blöndubyggð. Þarna í nánasta umhverfi var flest allt sem þurfti, bókabúð, bakarí, apótek og hótel með sjoppu þar sem rútan á milli Reykjavíkur og Akureyrar stoppaði.  Þarna var raftækjaverslun, bílaverkstæði, bensíndælur, 2 eða 3, Gústasjoppa, rörasteypa, pósthús og útibú frá Kaupfélaginu sem seldi, ásamt mörgu öðru, mjólk í pokum.

Þarna var líka Verslunarfélagið, búð þar sem allt mögulegt var til, í húsi sem var skrítið í laginu og stóð í brekkunni. Það var róluvöllur, fjara og kirkja og brekkan, sem mamma kallaði Sneiðinginn, en við krakkarnir Sýslumannsbrekkuna og þar renndum okkur niður á sleðum á veturna. Ég man sérstaklega eftir einni stelpunni en hún þorði að renna sér þar niður á skautum, alveg frá brekkubrúninni. Það fannst mér svolítið flott. Já og brekkan var þjóðvegur 1 í þá daga.

Þarna var líka Koppagatan þar sem við krakkarnir lékum okkur mikið en þar var lítil bílaumferð, við Koppagötuna stóðu hús sem þurftu að víkja þegar Hnjúkabyggðin var lengd frá þjóðveginum niður að Aðalgötu. Það voru í mínum huga mikil mistök og í rauninni klauf þennan þorpskjarna sem var áður. Það er miklu fallegri leið niður í gamla bæinn að keyra Blöndubyggðina og kom það fram á fundi sem haldinn var um málefni gamla bæjarins í fyrra að fleiri eru á þeirri skoðun.

Á þessum árum lagði ísinn á Blöndu oft svo hægt var að ganga þar yfir og stytti það leiðina í skólann, sem var hinu megin við á, umtalsvert. Ég hins vegar mátti ekki fara þar yfir sem mér fannst ansi súrt þar sem krakkarnir sem ég labbaði með heim úr skólanum fóru út á ísinn og yfir. Ég þurfti því að taka til fótanna og hlaupa eins hratt og ég gat yfir brúna og niður Blöndubyggðina til að halda í við þau. Ég skil það svo sem í dag að mér hafi verið bannað þetta, ganga yfir jökulána smá stelpuskott með skólatösku.

Tíu ára varð ég svo og er enn úddi, bý sem sagt fyrir utan á en gamli bærinn á alltaf stað í hjarta mínu og þar var gott að alast upp. Það er gaman að sjá lífið sem þar er í dag og hversu mikil uppbygging er í allri þjónustu við ferðafólk.

Ég skora á frænku mína og vinkonu Sólveigu Zophoníasdóttur að skrifa næsta pistil.

Áður birt í 36. tbl. Feykis 2019

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir