Geirmundur var aðalmálið á mínu heimili þegar ég var gutti / FÚSI BEN

Fúsi Ben í góðum fíling.
Fúsi Ben í góðum fíling.

Sigfús Arnar Benediktsson, betur þekktur sem Fúsi Ben, er Króksari, alinn upp á Víðigrundinni. „Gítarinn er númer 1,2 og 3 en ég spila einnig á trommur með Contalgen Funeral og get glamrað á hitt og þetta,“ segir Fúsi en kappinn er af ‘89 árgerð.

Helstu tónlistarafrek: Vinna músíktilraunir 2009 með Bróðir Svartúlfs, spila í böndum eins og Fúsaleg Helgi, Contalgen Funeral, Multi Musica og fleirum. Taka upp og produsera nokkrar plötur. Einn af skipuleggjendum Tónlistarhátíðinni Gæran.

Uppáhalds tónlistartímabil? Ég hef rosalega gaman af því að hlusta á Beethoven og þessa kappa sem voru á þeim árum með þessi gullfallegu piano og strengja verk og svo er það íslenska dægurlagatónlistin sem var í gangi upp úr 1900 til cirka 1970.

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Burt Bacharach, Tommy Emmanuel, David Gilmour, The National og Gunnar Þórðarsson

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Geirmundur var aðalmálið á mínu heimili þegar ég var gutti og gat maður ekki annað en glamrað með á hljómborðið. Svo kom fyrir að Bjöggi bróðir taldi í nokkra slagara

Hvað var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Ég man nú ekki hvaða disk ég keypti fyrst en gömlu gáfu mér nokkra diska með Geirmundi og einhvern disk með Kristjáni Jóhannssyni. En svo birtist Nevermind með Nirvana einn daginn og ég er ekki frá því að annað eistað hafi leitað niður.

Hvaða græjur varstu þá með? Það voru einhverjar Philips græjur sem voru til heima

Hvað syngur þú helst í sturtunni? Syng ekki í sturtu

Wham! eða Duran? Hvorugt

Uppáhalds Júróvisjónlagið? Ég fylgist lítið sem ekkert með Júróvisjón og held að þessi keppni sé komin í ruglið

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Earth, wind & fire og Fjólublátt ljós við barinn.

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Gunnar Þórðar, Jeff Buckley, Tom Waits

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Mig hefur alltaf langað til að fara til New York og þá færi ég á Foo Fighters eða David Gilmour og sá sem býður best fær að koma með!

Hvaða tónlistarmann hefur þig dreymt um að vera? Dave Grohl eða David Gilmour

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? Þessari spurningu get ég ekki svarað :)

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir