Er „Allskonar fyrir aumingja“ á stefnuskrá?

Ég er svo heppin að hafa ekki fatlast fyrr á lífsleiðinni, og hafa því ekki  þurft að berjast fyrir tilveru minni og sjálfsögðum mannréttindum í áratugi. Hafandi farið hér um sveitarfélagið án hækja, göngugrindar eða hjólastóls man ég vel að aðgengi að hinum og þessum stöðum hér í bæ skipti mig litlu sem engu máli þá, ég bara pældi lítið í því hvort eða hvernig því var háttað.

Ég þurfti heldur ekki að spá í að fá fólk til að þrífa heimili mitt, glugga, bíl eða sinna garðverkum, hjálpa mér að halda matarboð, baka, fara með mér í skóla og svo mætti lengi telja, ég gat þetta allt sjálf.

Það var því kannski svoldið mátulegt á mig að takast á við hugsunarleysi undanfarinna áratuga þegar ég, komin í hjólastól, ætlaði að fara á sömu staði og ég hafði áður hlaupið inn  á, í hugsunarleysi mínu.

Því velti ég því upp hér og nú, hvernig væri daglegt líf þitt ágæti frambjóðandi ef þú þyrftir að vera í hjólastól næsta mánuðinn eða árin? Vildir þú komast um bæinn þinn og inn á þá staði sem þú fórst á áður? Gætir þú heimsótt vini og ættingja eða búa þeir í lyftulausum blokkum? Vildir þú njóta NPA aðstoðar (notendastýrð persónuleg aðstoð), ég geri ráð fyrir að frambjóðendur  hafi kynnt sér hvað það er. Í eftirfarandi orðum felast skýr skilaboð:

Allir einstaklingar, hvort sem þeir glíma við líkamlegar, félagslegar eða andlegar hindranir, eigi möguleika á sjálfstæðu lífi, með reisn og fái til þess aðstoð ef þarf.

Ég velti þessu hér upp af því að nú, veit ég að öryrkjar og fatlað fólk njóta ekki sömu mannréttinda og aðrir. Nú hef ég reynt á eigin skinni, aðgengisleysi, skilningsleysi, og skort á skynsemi þeirra sem með vald fara. Ég hef fengið klapp á vangann og vera kölluð auminginn, en ég hef líka notið skilnings og séð aðgengismálum kippt í lag. Hugarfar gagnvart málefnum fatlaðs fólks þarf að breytast, fatlað fólk er hluti af samfélaginu en ekki sér hópur frá annarri plánetu.

Í dag sér Anna P. Þórðardóttir fyrir endann á áratuga langri baráttu, nú loks er að koma lyfta við safnahúsið og þá mun Anna loks komast á bókasafnið á mannsæmandi hátt, en það tók 30 ár. Ég er ánægð með að þessi framkvæmd skuli loksins vera að hafin hér í bæ og mun ég örugglega bregða mér á bókasafnið í fyrsta sinn í  þá nær 8 ár þegar það verður opnað aftur. Ég hugsa að afgreiðslufólkið í apótekinu hér í bæ verði ekki minna ánægt en ég þegar  aðgengileg gangstétt verður sett við húsið þannig að það þurfi ekki að afgreiða mig út í bíl lengur. Ég verð líka yfir mig ánægð þegar aðgengi að Húsi frítímans verður lagfært.

Þessi þrjú hús verða öllum aðgengileg, loksins og það aðgengi mun gagnast fleirum en bara mér og Önnu Þórðardóttur. Það mun gagnast ófrískum konum, eldra fólki, hjartasjúklingum, sveitarstjóranum, læknum, verkfræðingunum, byggingafulltrúum og börnum. Við munum öll njóta betra aðgengis. Enn er pottur brotinn og vildi ég gjarnan sjá t.d. bakaríið aðgengilegt, ég vona að nýja ölstofan í gamla apótekinu verði aðgengileg og svo mætti lengi telja.

Ég vildi sjá búsetuúrræði fyrir fatlað fólk hér á svæðinu löguð, að húsnæði sem nú stendur autt vegna fjármagnsskorts verði notað fyrir þá sem þess þurfa. Að  fatlaðir einstaklingar komist í endurhæfingarlaugina og að liðveisla í formi NPA verði efld. Er á ykkar stefnuskrá það sama og Jón Gnarr hafði á sinni stefnuskrá „svona allskonar fyrir aumingja?“ Ég beini hér spurningum að ykkur sem eruð nú í framboði til sveitarstjórnar:

Hvað er á stefnuskrá þíns framboðs varðandi málefni fatlaðs fólks?

Hvernig ætlið þið að tryggja að málefnum fatlaðs fólks verði betur sinnt af sveitarfélaginu en ríkinu?

Hvað telur þitt framboð vera brýnast að bæta hvað varðar réttindi, þjónustu og aðra hagsmuni fatlaðra og/eða langveikra barna og fullorðinna?

Hvernig sér þitt framboð fyrir sér þróun búsetuúrræða fyrir fatlað fólk í sveitarfélaginu?

Munuð þið beita ykkur fyrir því að lækka fasteignagjöld hjá fötluðu fólki, öryrkjum og eldri borgurum og breyta viðmiðunarupphæðum þannig að þær t.d. miðist við fjölskyldustærð og ríkjandi verðlag?

Munuð þið beita ykkur fyrir því að NPA verði innleitt að fullu í sveitarfélaginu og þrýsta  á samtök sveitarfélaga að lögfesta NPA?

Munu þið hafa mannréttindi að leiðarljósi?

Þuríður Harpa Sigurðardóttir
notandi hjólastóls, formaður Sjálfsbjargar í Skagafirði
og framkvæmdastjóri Nýprents

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir