Gildi tónlistarnáms

Þegar ég var sjö ára gömul var Tónlistarskóli Skagafjarðarsýslu stofnaður. Þá hafði Tónlistarskólinn á Sauðárkróki verið starfræktur í liðlega 10 ár. Starfsstöðvar skólans voru við grunnskólana á Steinsstöðum, Varmahlíð, Melsgili, Ökrum, Hofsósi, Hólum og Sólgörðum.

Í félagsheimilum gömlu hreppanna höfðu velviljaðir safnað fyrir kaupum á flyglum af bestu gerð þannig að þó ekki væri nema rafmagnsorgel til að æfa sig á heima var flygillinn til staðar í píanótímunum. Það þróaðist  þannig að ég gerði tónlist að mínu ævistarfi og er enginn vafi á hvað píanónámið var nauðsynlegt í starfi mínu sem óperusöngkona. Það er ótrúlega gefandi að vera komin aftur á æskuslóðirnar og skila til baka þeirri reynslu og þekkingu sem ég ávann mér hér heima og svo í frekara námi og starfi.

Ímynd Skagafjarðar hefur löngum verið sú að hér sé gott söngfólk og öflugt kórastarf. En við þurfum að styrkja þá ímynd að hér sé framúrskarandi tónlistarskóli og laða þannig til okkar hæfileikarríka kennara og hlúa að þeim sem eru hér fyrir. Hér er kennt á píanó, gítar, harmoníkku og ásláttarhljóðfæri, málmblásturshljóðfæri, tréblásturshljóðfæri og strengjahljóðfæri eins og fiðlu, lágfiðlu, selló og jafnvel kontrabassa. En það skýtur skökku við í sönghéraðinu mikla að engin söngdeild er við skólann. Greinilegur vilji virðist vera hjá stjórnvöldum til að efla og jafna aðstöðu til tónlistarnáms en eftirfarandi má lesa á síðu Félags tónlistarskólakennara:

Nú nýverið lögfesti Alþingi framlengingu á samkomulagi ríkis og sveitarfélaga um eflingu tónlistarnáms og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms til 31. desember 2014. Samkomulagið felur í sér 520 m.kr. framlag ríkissjóðs til tónlistarfræðslu á árinu 2014.

Í áliti allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis sem fjallaði um lagafrumvarpið segir að það sé skýrt af hálfu ríkisins að framlag ríkisins sé viðbótarframlag til eflingar tónlistarnámi á mið- og framhaldsstigi. Þá ítrekar nefndin í áliti sínu þann skilning að samkomulagið hafi átt að efla og jafna aðstöðu til tónlistarnáms og „áréttar mikilvægi þess að fundin verði ásættanleg lausn og varanleg niðurstaða varðandi fjármögnun tónlistarnáms í stað tímabundinna lausna þar sem skýrt verður hvar ábyrgðin liggur.“

Þetta verðum við að grípa á lofti í okkar dreifbýla sveitarfélagi enda er mikilvægi tónlistarnáms ótvírætt og það er ekki bara einfalt tómstundagaman. Ég leyfi mér að vitna í formann Félags tónlistarskólakennara, Sigrúnu Grendal en hún segir;

„Rannsóknir sýna að tónlistarnám er eitt öflugasta tæki okkar til almenns þroska. Það eflir félagsþroska og vitsmuni jafnt sem tilfinningar og sköpunargáfu. Það eflir sjálfsmynd, sjálfsþekkingu og eykur vellíðan barna og ungmenna. Áhersla á mikilvægi skapandi greina verður sífellt meira áberandi á alþjóðavettvangi og menn eru sammála um að þörfin fyrir færni á sviði sköpunar og nýsköpunar er meiri en nokkru sinni fyrr. Listir og aðferðir listsköpunar gegna lykilhlutverki þegar horft er til þróunar skapandi kennsluhátta, hvort sem er í þverfaglegu námi eða nemendamiðuðu námi. Rannsóknir sýna hver af annarri góð áhrif skapandi námsgreina á vellíðan og árangur nemenda heilt yfir í námi sínu. Við vitum líka að skapandi greinar eru taldar eiga sviðið á 21. öldinni og rætur þeirra liggja í menningu og listum.“

Það er því alveg ljóst að öflugt skólastarf byggir á kröftugum tónlistarskóla.
Það er mér mikið hjartans mál að stuðla að því að fjölbreytt tónlistarnám verði áfram í boði við Tónlistarskóla Skagafjarðar.

Helga Rós kennir á píanó í afleysingum við Tónlistarskóla Skagafjarðar og skipar 9. sæti á lista VG og óháðra í komandi sveitarstjórnarkosningum í Skagafirði.

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir