Gott að sem flestir viti um dragnótaveiðar | Friðbjörn Ásbjörnsson skrifar
Ég þekki engan sem vinnur við sjávarútveg sem ekki vill umgangast lífríki hafsins af mikilli tillitssemi og með eins sjálfbærum hætti og frekast er unnt. Alls engan. Þess vegna svíður svolítið – og eiginlega svolítið mikið – undan því þegar vísindalegar niðurstöður eru að engu hafðar og tiltekin veiðarfæri tortryggð og töluð niður árum saman með dylgjum og jafnvel fullyrðingum sem ganga þvert á það sem sannara reynist. Þess vegna skrifa ég þessar línur og vona að sem flestir gefi sér nokkrar mínútur til þess að lesa þær.
Það sem mér liggur á hjarta snýst um dragnótarveiðar. Og ég viðurkenni að mér finnst gagnrýnin á þær hér í Skagafirði ómálefnaleg og hef áhyggjur af því að hún grundvallist ekki á þekkingarleysi heldur sérhagsmunum þeirra sem hæst hafa. Þar hef ég auðvitað forystumenn strandveiðisjómanna sérstaklega í huga. Ég tel þá tala gegn betri vitund og það er a.m.k. afar mikilvægt að stjórnendur sveitarfélagsins, rétt eins og þeir sem fara með ákvörðunarvald fyrir sjávarútveginn í heild sinni, láti ekki blekkjast.
Það er gjarnan sagt að vísindin efli alla dáð og þess vegna tel ég mikilvægt að koma áliti vísindasamfélagsins um dragnótaveiðar á framfæri. Sem sagt einföldum staðreyndum sem lágmark er að séu hraktar með rökum en ekki sleggjudómum. Í fyrsta lagi vil ég nefna að vinnunefndarhópur Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) lýsti því áliti sínu, sem Fiskifréttir greindu frá árið 2011, að handfæraveiðar og dragnótaveiðar ætti að leggja að jöfnu hvað umhverfisáhrif varðar. Aðeins flotvarpa, hringnót og gildrur skaði lífríkið minna. Bæði net og lína eru hins vegar talin hafa mun meiri umhverfisleg áhrif. Botnvarpa og plógur hafi hins vegar mest áhrif á lífríki sjávar.
Um svipað leyti gerði fjögurra manna vinnuhópur á vegum Hafrannsóknastofnunar afar ítarlega rannsókn undir fyrirsögninni Áhrif dragnótaveiða á lífríki botns í innanverðum Skagafirði. Sú rannsókn getur eflaust talist almenns eðlis en hún var gerð hér í Skagafirðinum og hlýtur því að hafa sérstakt vægi hér um slóðir. Þar segir m.a.: „Áhrif dragnótaveiða í innanverðum Skagafirði voru rannsökuð með samanburði á lífríki á svæði sem opið hefur verið fyrir veiðum (veiðislóð) og sambærilegu svæði þar sem engar dragnótaveiðar hafa verið leyfðar (friðað svæði).“
Og útkoman var bæði skýr og auðskiljanleg:
- Niðurstöður greininga á greipasýnum úr botni sýndu að ekki var tölfræðilega marktækur munur á tegundasamsetningu botndýra á milli svæða...
- Sleðasýni af dýrum sem þrífast á botninum gáfu svipaðar niðurstöður.
- Þær niðurstöður sem fengust í þessari rannsókn benda ekki til að dragnótin hafi áhrif á botndýralíf í Skagafirði.“
Þetta er einfaldur kjarni málsins. Til viðbótar vil ég benda á að fjörðurinn okkar er kjaftfullur af ýsu sem ekki lítur við krókum handfærabátanna en færir okkur mikil verðmæti í gegnum dragnótina. Það væri í mínum huga mikið ábyrgðarleysi að nýta ekki þessa auðlind og ætti a.m.k. ekkert skylt við þá sjálfbæru nýtingu sem okkur verður svo tíðrætt um. Með fullri virðingu fyrir þorskaflanum sem strandveiðin sækir í nokkra mánuði á ári skilar dragnótin margfalt fleiri tonnum af ýsu að landi, væntanlega að jafnaði um 70-80 tonnum á hverjum degi í 7-8 mánuði ársins, með tilheyrandi verðmætasköpun fyrir fiskmarkaðinn, höfnina og sveitarfélagið.
Í sjálfu sér er ástæðulaust að amast við nýlegri bókun byggðarráðs Skagafjarðar sem gerð var vegna erindis frá, Drangey, smábátafélagi Skagafjarðar. Vel kann að vera að byggðarráð sé á kurteislegan hátt að víkja sér undan því að leggjast gegn dragnótaveiðum með því að bóka t.d. eftirfarandi:
„Byggðarráð telur að ákvarðanir sem varða nýtingu náttúruauðlinda við strendur Íslands verði að byggja á traustum vísindalegum gögnum og faglegum rökum.
„Byggðarráð samþykkir samhljóða að hvetja atvinnuvegaráðherra til að taka málið til skoðunar og opna fyrir faglega og gagnsæja umræðu um framtíðarskipulag veiða með dragnót við Íslandsstrendur, með áherslu á verndun vistkerfa og sjálfbæra nýtingu.“
Sjálfur get ég a.m.k. tekið heilshugar undir þessa hvatningu byggðarráðs um vísindalegar nálganir og fagmennsku. Og vonandi er að atvinnuvegaráðherra hrapi ekki að neinum niðurstöðum án undangenginnar faglegrar og gagnsærrar umræðu um umhverfisáhrif dragnótaveiðanna. Kannski hefði byggðarráðið sjálft mátt hafa það sjálfsagða vinnulag í huga áður en það sendi stjórnvöldum þetta erindi.
Friðbjörn Ásbjörnsson