Íslenska gæðingakeppnin - Kristinn Hugason skrifar

Landsmót á Vindheimamelum 1982, hópreið efstu gæðinga í A-flokki. Ljm. JTS.
Landsmót á Vindheimamelum 1982, hópreið efstu gæðinga í A-flokki. Ljm. JTS.

Fátt er íslenskara í hestamennskunni en gæðingakeppnin, nema ef vera kynni skeiðkappreiðar sem eru jú elsta séríslenska keppnisgreinin. Forvitnilegt er í þessu sambandi að átta sig á samþættri rót beggja greinanna og jafnvel mætti segja gæðingakeppnina afsprengi skeiðkeppninnar. Víkjum ögn nánar að þessu.

Fyrsta gæðingakeppnin
Í síðustu grein minni hér í blaðinu var rakið hvernig keppnisgreinar á kappreiðum landsmótanna þróuðust en allar voru þær teknar inn á dagskrá landsmótanna eftir að reynsla var komin á þær í almennum keppnum. Svipað má segja um gæðingakeppnina á landsmótinu 1950 en fyrstu heimildir um gæðingakeppni eru frá keppni í Gnúpverjahreppi 13. ágúst 1944, keppnin fór fram við Sandlækjarós.

Á þessum kappreiðum Hreppamanna 1944 var sérstakur verðlaunagripur, Hreppasvipan, veitt þeim hesti er að mati dómnefndar taldist mestum gæðingskostum búinn. Verðlaunagrip þennan, sem enn er keppt um sem farandgrip hjá Hestamannafélaginu Smára, gáfu nokkrir brottfluttir Hreppamenn, búsettir í Reykjavík. Hreppasvipan er þannig einn elsti verðlaunagripur sem keppt er um á íslenskum hestum.

Í bókinni Fákur – Þættir um hesta, menn og kappreiðar - sem út kom í Reykjavík árið 1949 á vegum Hestamannafélagsins Fáks í tilefni af aldarfjórðungsafmæli þess og Einar E. Sæmundsen bjó til prentunar, segir frá fyrrnefndum kappreiðum og útfærslu fyrstu gæðingakeppninnar. Þar segir á bls. 472:

„Skeiðhestar: Þátttakendur fjórir, en aðeins einn rann sprettfærið á kostum: Gulltoppur, glófextur, 12 v., Jón Ólafsson, Eystra – Geldingaholti, 24,8 – 1. vl. 150 kr. Honum var einnig dæmd Hreppasvipan; hann er sonur Skarðs-Nasa, ..... „vakur í bezta lagi, hefir fjölbreytni í gangi og gangmýkt, prýðilegt fjör, gæfa lund, og virðist vera mjög vel taminn. Allur er hann hinn reiðhestslegasti.““

Frásögnin heldur svo áfram: „Hinir þrír voru: Hrímfaxi, 16 v., Marinós Kristjánssonar á Kópsvatni, Neisti, Bjarna Gíslasonar í Sandlækjarkoti og Randver úr Varmadal. Er tekið fram, að Hrímfaxi og Neisti hafi sýnt, „mjög falleg og stórkostleg grip á skeiði ...“. Á aukaspretti rann Randver sprettfærið á 24,0 sek. – Kappreiðarnar sóttu um 200 manns „og fóru hið besta fram““.

Ári síðar var Hrímfaxa fyrrnefndum svo dæmd Hreppasvipan á kappreiðum Smára við Litlu-Laxá sem fram fóru 15. júlí, sjá sömu heimild á bls. 473, en þar er vitnað til fréttar í Morgunblaðinu frá 21. júlí 1945. Til fróðleiks minni ég svo á að téður Randver og knapi hans Jón Jónsson í Varmadal settu Íslandsmet í 250 m skeiði, 23,9 sek., árið 1946 sem stóð til 1948 þegar Glettumetið mikla var sett, 22,6 sek sem stóð allt til 1976.

Hestamannfélagið er hér um ræðir, Smári, var stofnað árið eftir að kappreiðarnar sem hér sagði frá fóru fram, eða þann 1. mars 1945, undir heitinu „Hestamannafélag Hreppamanna“ en formenn hrossaræktarfélaganna í Hreppunum, þ.e. í Hrunnamanna- og Gnúpverjahreppum höfðu forystu um stofnunina. Á fyrsta aðalfundi félagsins ári eftir stofnunina, 1. mars 1946, gengu allmargir Skeiðamenn í félagið og var nafni þess þá breytt í Hestamannafélagið Smári. Fyrsti formaður félagsins var Steinþór Gestson bóndi á Hæli, landskunnur söngvari með MA-kvartettinum, síðar formaður LH lengi, alþingismaður Suðurlands fyrir Sjálfstæðisflokkinn, stjórnarmaður í Búnaðarfélagi Íslands o.fl.

Hann lætur uppi fróma ósk í skýrslu sinni sem birt er í téðri heimild og segir: „Sú er ósk félagsins, að geta, með starfi sínu örfað yngri og eldri hestaeigendur á félagssvæðinu, til þess að njóta í ríkum mæli yndishóta íslenzkra gæðinga, og umgangast þá og þjálfa svo, að efniviður góðu hestanna komi fram, eigendum til gagns og gleði, en hestunum til prýði í gangi og fasi.“ (sama heimild, bls. 472).

Þá er ekki úr vegi að minna á, eins og fram kemur í áður tilvitnaðri frásögn, að gestir á kappreiðunum við Sandlækjarós voru hvorki fleiri eða færri en 200 sem þætti mikil aðsókn í dag. 
Fleiri hestamannafélög en Smári stóðu á árunum rétt fyrir 1950 fyrir góðhestakeppnum í einni eða annarri mynd á kappreiðum sínum.

Gæðingakeppni á fyrsta landsmótinu árið 1950
Í bókinni Í morgun ljómann ...Saga LH í 35 ár. Skráð af Steinþóri Gestssyni og Landssamband hestamannafélaga gaf út 1987, segir m.a. ýtarlega frá fyrsta landsmótinu og er gæðingakeppnin sem þá fór fram hvergi undanskilin. Mótið var haldið í samstarfi Búnaðarfélags Íslands og Landssambands hestamannafélaga eins og alkunna er. BÍ sá alfarið um kynbótahrossaþáttinn eins og ætíð síðan en LH um gæðingakeppnina sem var keppni geltra, taminna reiðhesta og svo um kappreiðarnar.

Með gæðingakeppninni var ætlunin að fá fram nokkurn samanburð á kynbótagripunum og þeim hestum sem reynst höfðu úrvalsgæðingar, eins og segir á bls. 34 í téðri heimild. Til keppni komu hestar frá 12 félögum og hafði hvert þeirra rétt til að senda tvo, nema Fákur í Reykjavík mátti senda fjóra, frá einu félaganna kom bara einn hestur þannig að 25 gæðingar tóku þátt. Jafnframt því sem ætlunin var að gera samanburð á kynbótagripunum og þátttökuhestunum í gæðingakeppninni, var ætlunin að um eins konar stöðumat á reiðhestakostinum á hinu merka tímamótaári 1950 yrði að ræða.

Til þessa vandasama verkefnis völdust því þrír afar merkir hestamenn sem voru eftirtaldir: Eggert Jónsson frá Nautabúi (1890-1951) formaður dómnefndarinnar, Ásgeir Jónsson frá Gottorp (1876-1963) og Ásgeir Jónsson frá Hjarðarholti (1885-1963). Þetta voru allt þjóðþekktir menn og virtir, Eggert var einn hinna kunnu Nautabúsbræðra, athafnamaður og stofnandi Kirkjubæjarbúsins, Ásgeir frá Gottorp var kunnur af fjárrækt, Gottorpsfé og ekki síður af ritstörfum og svo Ásgeir frá Hjarðarholti bóndi og landpóstur. Þessir menn voru hoknir af reynslu en engin unglömb, meðalaldur þeirra var árið 1950 rúmlega 66 ár.

Í næstu grein mun ég greina meira frá gæðingakeppni þessa merka móts. En get ekki látið hjá líða, fyrst ég gat um fjölda gesta á kappreiðum Hreppamanna hér á undan, að geta þess að á landsmótið á Þingvöllum er talið að mætt hafi um tíu þúsund manns, fólk hvaðanæva að af landinu. Aðeins höfðu Alþingishátíðin 1930 og Lýðveldishátíðin 1944 verið fjölmennari (sama heimild bls. 40). Þetta þýðir að tæp 7% þjóðarinnar mættu á mótið sem jafngildir að nú myndu gestir á landsmótum vera rétt rúm 23 þúsund (!) og vel að merkja að þá mættu sárafáir ef nokkrir útlendingar á mótið, enda útrás hestsins sem reiðhests ekki hafin þó tugþúsundir hrossa hefðu verið flutt úr landi á umliðnum áratugum og seinni hluta liðinnar aldar, þeirrar nítjándu.

Nú líður árið 2019 brátt í aldanna skaut og er þetta síðasta grein höfundar hér í blaðinu fyrir áramót. Er því lesendum Feykis óskað gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári og samfylgdin í ár þökkuð.

Kristinn Hugason

Áður birst í 46. tbl. Feykis 2019.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir