Jón Bjarnason stendur við sitt
Jón Bjarnason var ráðinn skólameistari að Hólaskóla árið 1981. Þá var skólinn á talsverðu hnignunarskeiði og hafði skólahald legið niðri um tíma. Af sinni alkunnu atorku og með hjálp góðra manna náði Jón Bjarnason að rífa skólann upp úr þeim öldudal sem hann hafði verið í um nokkurn tíma og koma skólahaldi að Hólum og staðnum sjálfum á þann stall sem hann er á enn í dag.
Jón tók sæti á Alþingi Íslendinga árið1999, fyrst sem þingmaður Norðurlands vestra og svo eftir kjördæmabreytingu 2003 sem þingmaður Norðvesturkjördæmis. Á Alþingi hefur Jón viðhaft sömu vinnubrögð og elju og hann var kunnur fyrir af veru sinni að Hólum, staðið dyggan vörð um þau mál sem til heilla horfðu fyrir land og þjóð, sér í lagi, grunnþjónustu á landsbyggðinni og þau málefni er vörðuðu landbúnað og sjávarútveg.
Sem ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðarmála kom Jón Bjarnason í gegn fjölmörgum málum sem til heilla horfðu. Hann aftók að heimila innflutning á lifandi búfé sem átti að gefa eftir vegna samninga við ESB, kom á strandveiðum, opnaði kvótakerfið með umdeildu skötuselsákvæði, stóð á rétti þjóðarinnar til makrílveiða, setti bann við dragnótaveiðum í innanverðum Skagafirði sem löngu var tímabært, en aðra hafði brostið kjark til og þannig má lengi telja. Fyrir öllum þessu málum þurfti mikið að hafa og andstæðingarnir oftar þeir sem síst skyldi, samherjar og flokksfélagar.
Sennilega hefur þó ekkert eitt mál brotið viðlíka á Jóni og umsókn Alþingis um aðild að Evrópusambandinu, nokkuð sem enginn lét sér til hugar koma vorið 2009 en var barið í gegn með ofbeldi. Í því máli öllu hefur Jón staðið fast á fyrri yfirlýsingum, eigin sannfæringu, kosningaloforðum flokksins og stefnuyfirlýsingum og hvergi hvikað. Fyrir sannfæringu sína fyrir fullveldi þjóðarinnar var hann sviptur ráðherraembætti af eigin flokksfélögum sem voru flúnir frá eigin stefnu og loforðum. Ráðist var að persónu hans með nánast fordæmalausum hætti allt fram á þetta ár. Það er trúlega einsdæmi í íslenskri stjórnmálasögu að vera nánast ofsóttur fyrir að framfylgja stefnu eigin flokks.
Með réttu ætti aðildarumsóknin að vera aðalkosningamálið í komandi kosningum. Það hentar ekki flestum framboðunum því að þau vilja geta hagað seglum eftir vindi að kosningum loknum. Reynslan hefur sýnt að þeir sem vilja tryggja áframhaldandi fullveldi íslenskrar þjóðar geta treyst Jóni Bjarnasyni í þeim efnum.
Tryggjum Jóni glæsilega kosningu á laugardaginn.
Gísli Árnason framhaldsskólakennari
4. maður á lista Regnbogans í Norðvesturkjördæmi
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.