Lúkas og girðingar :: Áskorandinn Þorlákur Axel Jónsson, brottfluttur Húnvetningur

Það var fyrir um tvöþúsund árum á tímum Rómaveldis að grískur læknir að nafni Lúkas skrifaði um atburði á Betlehemsvöllum er voru upphaf mikillar sögu. Í sögu Lúkasar af barnsfæðingu í gripahúsi segir frá hirðum er gættu búsmala, líklega voru þetta fjárhirðar.

Um árþúsundi síðar var Glámur hinn sænski, ættaður úr Sylgsdölum, ráðinn sauðamaður til Þórhalls Grímssonar bónda á Þórhallastöðum í Forsæludal, sem er upp af Vatnsdal. Segir í Grettis sögu Ásmundarsonar um Glám þennan: „Hann tók við fjárvarðveislu og varð honum lítið fyrir því. Hann var hljóðmikill og dimmraddaður og fé stökk allt saman þegar hann hóaði.“

Enn löngu síðar, á okkar tímum, höfðum við bræðurnir það embætti sem sumardvalarbörn í sveit að gefa heimalningum mjólk af pela og þótti okkur það skemmtilegur starfi. Húsfreyjan á bænum kallaði lömbin til sín sterkri röddu, enda ágæt söngkona, og þó þessi flokkur móðurleysingja væri á beit einhversstaðar í túnjaðrinum eða hafði komist út á holt eða í urðirnar suður og vestur af bænum, þá rann hann jafn ljúflega á hljóðið og fé gerði á ritunartíma sögunnar af Gretti hinum sterka.

Fyrsta vírgirðingin í Eyjafjarðarsýslu mun hafa verið ofan Bakkasels til þess að girða fyrir að hrossastóð kæmust ofan í Öxnadalinn. Þetta var gaddavírsgirðing kostuð af sýslusjóði og dugði ágætlega. Það var fyrir meira en 100 árum og girðingin flokkast því sem fornminjar standi einhver hluti hennar ennþá. Vélvæðing fjárgæslunnar, sem girðingar úr stálþræði eru, getur því talist gamalkunnugt bragð. Girt hefur verið utan um tún og heimahaga, en líka skógarreiti. Stjórnvöld boða að stórfé verði varið til skógræktar næstu árin og þá þarf að girða mikið land. Nú er ljóst að það er of dýrt að ráða menn til þess að gæta fjár á fjalli og þó féð hafi gengt Glámi á sínum tíma fylgdu þeirri mannaráðningu vandræði sem ekki verða þó rakin hér frekar. Hrossabændur hafa stóraukið verðmæti afurða stóðmera sinna, en á þeirri forsendu að þeir halda stóðinu innan girðingar. Er hægt að læra af þessu? Ef gert er ráð fyrir að fjórðungur lambakjöts seljist yfir þrjá sumarmánuði á útigrill verður að flýta sauðburði um samtals þessa sömu þrjá mánuði þannig að fjórðungur sé borinn í upphafi maímánaðar. Síðan verður að halda þessum sama fjórðungi fjár innan girðinga og venja á að hlýða kalli í góðgjörðir og vigtun þannig að hægt sé að slátra og selja afurðir á grillmarkaði jafnóðum án geymslukostnaðar. Hér gætu orðið sannkölluð samlegðaráhrif girðinga um sauðfé, skóga og hross.

Efnahagslegt skipulag er á okkar dögum frekar afurð þess hvaða valkostir hafa verið gripnir fremur en óhjákvæmilegrar nauðsynjar. Valdatengslin sem sníða þann ramma og skilgreina þær forsendur sem birtast okkur sem valkostir eru ekki greypt í stein. Þau eiga sér sögu og þeim er hægt að breyta. Saga hins rómverska heimsveldis, þar sem Lúkas hinn kristni stundaði ritstörf meðfram læknislistinni, sýnir það og sannar. Minnumst þess þegar sagan af fjárhirðum á Betlehemsvöllum verður rifjuð upp næst.

Ég skora á Braga Guðmundsson samstarfsmann minn að skrifa pistil í Feyki.

Áður birst í 44. tbl. Feykis 2019.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir